Einangrunarvistun fanga og fjárskortur fíkniefnalögreglunnar

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 13:48:49 (1860)

2000-11-16 13:48:49# 126. lþ. 26.94 fundur 122#B einangrunarvistun fanga og fjárskortur fíkniefnalögreglunnar# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[13:48]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Löggæslumál eru einn af grundvallarþáttunum í samfélaginu og svo hefur löngum verið. Því miður hafa mál þróast þannig að harkan í þjóðfélaginu vex. Með vaxandi hraða og spennu á öllum sviðum hafa nýir vágestir knúið dyra, vaxandi slysaalda og fíkniefnaplágan. Rétt er að undirstrika sérstaklega það sem kom fram hjá hæstv. dómsmrh. að ekkert yfirvinnubann hefur verið í gildi hjá fíkniefnalögreglunni. Það eru engin áform um að svo verði. Framlög til löggæslu á öllum sviðum hafa aukist síðustu ár og jafnframt hafa miklar skipulagsbreytingar verið í gangi. Það er fullur vilji til að slaka hvergi á kröfum um herta baráttu gegn fíkniefnum. Ég veit að um slíka stefnu hefur verið full samstaða meðal stjórnmálaflokkanna og áfram verður unnið í þeim anda. Dómsmrh. hefur þegar gert grein fyrir tillögum í þessu efni sem eru í vinnslu í ráðuneyti hennar núna og ég lýsi yfir stuðningi við þær.

Á þessu ári hefur náðst mikill árangur í haldlagningu fíkniefna og magnið margfaldast frá því sem áður var. Margir þættir valda þessu. Löggæslan og tollverðir hafa lagt á sig mikla vinnu, hafa fengið aukinn tækjabúnað, skipulag hefur verið endurskoðað og þannig mætti lengi telja. Hins vegar eru málin sem upp koma mjög alvarleg og vandinn sem yfirstjórn lögreglunnar stendur ávallt frammi fyrir er að láta einskis ófreistað til að leysa stórmál en halda jafnframt uppi öflugri löggæslu. Okkur sem um þessi mál fjalla ber að vinna þannig að málum að öflug löggæsla sé tryggð og jafnframt sé unnið af fullum krafti að rannsóknum stóralvarlegra fíkniefnamála. Ég veit að um slíkt er full samstaða.