Einangrunarvistun fanga og fjárskortur fíkniefnalögreglunnar

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 13:51:59 (1862)

2000-11-16 13:51:59# 126. lþ. 26.94 fundur 122#B einangrunarvistun fanga og fjárskortur fíkniefnalögreglunnar# (umræður utan dagskrár), GÖ
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[13:51]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hefur hreyft afar mikilvægu máli sem varðar það réttarsamfélag sem við viljum byggja. Gæsluvarðhald og gæsluvarðhaldsúrskurður er tæki sem löggjafinn beitir, annars vegar til að tryggja að sakborningur spilli ekki rannsókn máls og hins vegar ef brot eru talin svo stórfelld að þau varði allt að 10 ára fangelsi. Dómari er sá aðili sem um þetta úrskurðar.

Vitanlega er mikilvægt að sá tími sem gæsluvarðhald stendur yfir sé notaður á markvissan hátt og til hins ýtrasta. Því spyr ég hvort boðlegt sé að einungis sé um að ræða 1--2 yfirheyrslur á t.d. 6 vikum sem gæsluvarðhald varir. Eins og staðan er nú virðist það reyndin í mörgum málum. Þá má spyrja hverju það sæti. Spilar þetta yfirvinnubann og niðurskurður hjá lögreglu inn í þessi mál? Bókað hefur verið hjá lögfræðingi embættis ríkislögreglustjóra að yfirvinnubann fíkniefnadeildar hafi væntanlega haft áhrif á rannsókn mála hjá deildinni. Af hverju er slíkt bókað ef ekki er fótur fyrir því? Hér skal tekið fram að lögreglan hefur unnið eins vel og henni er unnt undir þeim skilyrðum sem henni eru sett. En einangrun er alltaf alvarlegt mál og einangrun í gæsluvarðhaldi er talin ofnotuð hér á landi. Einnig hefur verið gagnrýnt að slíkt úrræði skuli ekki í höndum dómara, þ.e. þessi ákvörðun er alfarið í höndum lögreglu.

Spurningar hafa vaknað um hvort einangrun sé notuð sem þvingunarúrræði hér á landi og til þess að krefja menn sagna. Auðvitað er það alvarlegt mál ef svo er. Mér finnst mikilvægt að við mundum reyna að fá mannréttindaskrifstofuna inn í svona mál til þess að skoða þau því að frelsissvipting og mannréttindi eru alltaf dauðans alvara. Auðvitað eru fíkniefnamál líka dauðans alvara. Um það eru allir sammála, að á þeim þurfi að taka svo þau upplýsist eins fljótt og unnt er. En við verðum líka að reyna að beita þeim meðulum sem ekki ofgera og ekki skaða einstaklingana. Við þekkjum það líka að dómar hafa ekki alltaf verið kveðnir upp í málum þeirra sem sætt hafa einangrun.