Einangrunarvistun fanga og fjárskortur fíkniefnalögreglunnar

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 13:54:15 (1863)

2000-11-16 13:54:15# 126. lþ. 26.94 fundur 122#B einangrunarvistun fanga og fjárskortur fíkniefnalögreglunnar# (umræður utan dagskrár), ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[13:54]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir:

Herra forseti. Gæsluvarðhaldsúrskurður er alvarleg ákvörðun og jafnframt mikilvægt tæki við rannsókn mála. Gæsluvarðhaldi er einungis beitt sé rökstuddur grunur til staðar um að einstaklingur hafi framið refsiverðan verknað sem fangelsisvist er lögð við. Því verður ávallt að vera markaður ákveðinn tími. Einangrunarvist er einungis beitt í þágu rannsóknarhagsmuna. Rannsókn refsimála er í höndum lögreglu. Ef framlengja á gæsluvarðhald verður það ekki gert án atbeina dómara og þann dóm er hægt að kæra til Hæstaréttar. Þetta eru reglurnar sem hið háa Alþingi hefur mótað og framkvæmdin miðast við í dag.

Ég hef enga trú á að þeir fagaðilar sem koma að refsimálum eins og fíkniefnamálum fari ekki að lögum. Við vitum að fíkniefnamál taka mun lengri tíma í rannsókn en margir aðrir málaflokkar. Ef slík rannsókn dregst á langinn er það vegna umfangs málsins en ekki vegna skorts á fjármagni til yfirvinnu. Að halda öðru fram er alvarlegt og getur að ófyrirsynju rýrt traust almennings á lögreglu, dómskerfinu og réttarríkinu.

Hæstv. dómsmrh. hefur þegar tjáð okkur að yfirvinna lögreglunnar í Reykjavík í fíkniefnamálum hafi verið yfir 900 tímar í 12 manna deild í sl. mánuði, sem er um 75 tíma yfirvinna á mann. Slíkt ber ekki mikinn vott um fjárskort eða niðurskurð. Við erum sammála um nauðsyn þess að berjast ötullega við þessa sölumenn dauðans. Sú barátta er á fullri ferð enda er slíkt ekki hægt nema fjármagn sé til staðar. Um þetta er hæstv. dómsmrh. mjög meðvitaður.

Það eru beinlínis rangfærslur að fjárskortur til fíkniefnamála leiði til lengri gæsluvarðhaldsvistunar. Slíkri fullyrðingu er einungis ætlað að slá pólitískar keilur. Hún rýrir lögregluna trausti og kemur að litlu gagni í baráttunni fyrir enn betra réttarumhverfi, hvort sem um er að ræða fanga eða frjálsa menn.