Skýrslur umboðsmanns Alþingis 1998 og 1999

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 14:17:36 (1872)

2000-11-16 14:17:36# 126. lþ. 26.4 fundur 118#B skýrslur umboðsmanns Alþingis 1998 og 1999# (munnl. skýrsla), LB
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[14:17]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Við ræðum skýrslu umboðsmanns Alþingis og almennt það hlutverk sem hann hefur með hendi.

Ég vil líkt og hæstv. forseti þingsins gerði hér í upphafi ræðu sinnar þakka Gauki Jörundssyni, sem gegndi embætti umboðsmanns Alþingis í mörg ár og á hvað stærstan þátt í að þróa það embætti. Það hefur þróast þannig, að ég held, að mikill sómi sé að því og embætti umboðsmanns hefur virkilega lyft umræðu og stjórnsýslu í landinu. Ég vil því líkt og hæstv. forseti taka undir þakkir til Gauks Jörundssonar.

Virðulegi forseti. Það eru nokkur atriði sem ég vil nefna. Í fyrsta lagi vil ég byrja á að nefna að í skýrslu umboðsmanns er farið yfir nokkur atriði sem mér fannst ræðumenn hér áðan ekki gera mikil skil og mun því reyna að hlaupa á nokkrum þeirra.

Í fyrsta lagi vekur umboðsmaður athygli á því í skýrslu sinni að mjög mörg málefni sem lúta að almannatryggingum og félagslegri aðstoð séu þess eðlis að flestir sem þurfa að snúast í þeim málum þurfi að beina erindum sínum til Tryggingastofnunar. Umboðsmaður vekur einmitt athygli á því að það er ekki einungis að þeir aðilar sem þurfa að leita til Tryggingastofnunar verði fyrir fjárhagslegum erfiðleikum heldur verða þeir líka fyrir félagslegum erfiðleikum oft og tíðum og þetta hangir jafnan saman. Umboðsmaður vekur einmitt athygli á þessu að oft og tíðum er það þannig hjá fólki sem svona er komið fyrir, að það á mjög erfitt með að leita réttar síns. Þess vegna vekur umboðsmaður Alþingis einmitt athygli á því að það er svo mikilvægt að stjórnvöld sinni rannsóknar- og upplýsingaskyldu sinni þegar þau fara með þessi tilteknu mál. Ég vil taka einmitt undir með umboðsmanni hvað þetta varðar því það er einfaldlega þannig að þegar menn verða fyrir örorku og öðru slíku og þurfa að leita til þar til gerðra stofnana þá er oft margt annað sem fylgir í kjölfarið sem gerir það að verkum að fólk oft og tíðum er ekki eins vel í stakk búið að leita réttar síns eins og ella væri.

Í öðru lagi, virðulegi forseti, vil ég vekja sérstaklega athygli á atriðum í skýrslu umboðsmanns þar sem fjallað er um endurgreiðslu oftekinna skatta. Fyrir nokkrum árum voru sett lög um það hvernig ríkissjóði eða ríkinu bæri að haga sér í þeim tilvikum sem skattar væru ofgreiddir, þ.e. þegar einstaklingar hefðu greitt hærri gjöld til ríkisins en þeim bar og því eðlilegt í tilvikum sem þessum, þar sem ríkisvaldið sér um þær innheimtur og útreikninga á því hvað mönnum beri að greiða, að ríkissjóður endurgreiði það með vöxtum og í sjálfu sér ekki nema eðlileg krafa, enda voru fyrir nokkrum árum sett lög þar að lútandi. Þess vegna er mjög merkilegt, virðulegi forseti, að í athugun umboðsmanns Alþingis í tilefni af kvörtun sem honum barst vegna oftekinna skatta og sendi þá væntanlega fjmrn. erindi þar um og óskaði eftir skýringu, þá eru skýringar fjmrn. á því að ekki skyldu vera greiddir vextir af ofteknum sköttum eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Í skýringum fjármálaráðuneytisins til umboðsmanns í því máli kom fram að þrátt fyrir að lög kvæðu á um að innheimtumönnum ríkissjóðs bæri að endurgreiða ofgreidda skatta ásamt vöxtum að eigin frumkvæði hefði verið misbrestur á því af hálfu innheimtumanna. Voru skýringar ráðuneytisins þær að tölvukerfi ríkisins hefði ekki ráðið við að reikna sjálfvirkt inneignarvexti vegna endurákvörðunar skatta og innheimtumenn hefðu ekki haft yfir að ráða starfsfólki til að reikna þá út.``

Með öðrum orðum, virðulegi forseti, að vegna ónógrar tækni í ráðuneytinu og vegna þá væntanlega ónógs starfsfólks telur ráðuneytið sig ekki í stakk búið til þess að endurgreiða oftekin gjöld. Ég held, virðulegi forseti, að í sjálfu sér komist ekki nokkur upp með það að bera slíka hluti fyrir sig eins og hér er og ég vænti þess --- því miður er hæstv. fjmrh. ekki viðstaddur umræðuna --- að fjmrn. hljóti að taka þetta til alvarlegrar athugunar því að afsakanir af þessu tagi duga vitaskuld engan veginn.

Í þriðja lagi, virðulegi forseti, vil ég vekja athygli á tveimur málum sem umboðsmaður fjallar um og óska eftir skýringum á þeim málum og það ber þannig við, virðulegi forseti, að núv. hæstv. forseti gegndi þá embætti samgrh. Og þau mál sem ég vitna hér til og er að finna á bls. 167 annars vegar og hins vegar bls. 179 í skýrslu umboðsmanns lúta bæði að samgrn. og eru frá þeirri tíð sem hæstv. núv. forseti sat þá sem hæstv. samgrh. Þar sem hæstv. samgrh. er ekki í salnum væri kannski hægt að beina þeim fyrirspurnum til hæstv. forseta, sem gæti þá hugsanlega útskýrt fyrir okkur það sem hér kemur fram.

En í fyrra málinu, virðulegi forseti, var það þannig að ferðaskrifstofa hætti rekstri og eins og tíðkast í rekstri ferðaskrifstofa verður að leggja fram tryggingu. Í þessu tilviki var það niðurstaða samgrn. að tryggingin skyldi öll notuð í því skyni að hjálpa fólki, sem orða má svo að hafði verið strandaglópar erlendis, til þess að komast heim. En í þessu tilviki hafði fólk einnig greitt inn á ferðir, og þar með tapað sínu fé, en ekki átt þess kost að fá greitt úr þessum tryggingasjóði. Og í niðurstöðu umboðsmanns segir þar, með leyfi forseta:

,,Niðurstaða umboðsmanns varð því sú að samgönguráðherra hefði látið of langan tíma líða frá gildistöku laga nr. 81/1994 þar til ferðaskrifstofunni hafi verið gert að láta í té upplýsingar til grundvallar nýjum ákvörðunum um tryggingar ferðaskrifstofa. Þá taldi umboðsmaður að samgönguráðuneytinu hefði ekki verið heimilt að veita þeim sem staddir voru erlendis á vegum Z ehf. forgang fram yfir þá sem greitt höfðu inn á ferðir með félaginu. Taldi umboðsmaður að ráðuneytið hefði átt að haga málum þannig að hlutfallsleg skerðing gengi jafnt yfir alla sem gerðu og áttu með réttu kröfu í tryggingarféð.

Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til samgönguráðuneytisins að það tæki mál þeirra A og B til endurskoðunar, kæmi um það ósk frá þeim.``

Þegar umboðsmaður leitar eftir því hvernig samgrn. hefur brugðist við tilmælum sínum kemur fram að í stað þess að bregðast við tilmælum umboðsmanns leitaði samgrn. eftir afstöðu ríkislögmanns og í beinu framhaldi af því var ákveðið að aðhafast ekkert frekar í málinu.

Sams konar mál má segja að sé á bls. 179 sem lýtur reyndar að sérleyfi til fólksflutninga, en niðurstaðan er sú sama og í þessu máli, að þrátt fyrir tilmæli umboðsmanns til samgrn. um að það yrði við sínum tilmælum, þá ákvað ráðuneytið að verða ekki við þeim tilmælum umboðsmanns og vísaði þar til afstöðu ríkislögmanns.

Í þessu erum við kannski komin að einhverju leyti að kjarna málsins því umboðsmaður Alþingis hefur ekkert vald. Vald hans felst fyrst og fremst í því, ef hægt er að tala um vald, að stjórnsýslan fari að beiðnum hans. Jafnan hefur umboðsmaður sýnt það í störfum sínum að hann hefur virkilega vandað til verka og bætt stjórnsýsluna til mikilla muna og forsenda þess að hann hafi áhrif er það að stjórnsýslan fari að tilmælum hans.

Jafnan eru úrskurðir hans nánast undantekningarlaust mjög vel unnir. Og ef umboðsmaður á að virka eins og embætti hans er hugsað, þá verður vitaskuld að vera ákveðin samvinna við ráðuneytin sérstaklega og ráðuneytunum ber, a.m.k. að mínu viti, að fara að tilmælum umboðsmanns, nema þau geti fært fram mjög góð rök fyrir öðru sem jafnvel umboðsmaður samþykkir. En það á ekki við í þessum tilvikum heldur virðist vera sem álit umboðsmanns hafi nánast verið að engu haft og verður að telja það miður. En svo vill til að þáv. hæstv. samgrh. situr hér í salnum og hann mun kannski útskýra hvers vegna á málum var haldið eins og raun ber vitni.

Í fjórða lagi, virðulegi forseti, vil ég nefna eitt tiltekið atriði sem átti sér stað síðla sumars, sem ég held að hafi nú ekki verið embætti umboðsmanns til framdráttar. Það var sú opinbera orðræða sem átti sér stað í tengslum við svokallað flugstöðvarmál þar sem hæstv. utanrrh. ákvað í þeirri umræðu að í stað þess að lúta áliti umboðsmanns Alþingis og viðurkenna niðurstöðu hans, sem laut að ráðningu og auglýsingu starfa á Keflavíkurflugvelli, þá ákvað hæstv. utanrrh. frekar að fara í umræðu um málið og vitnaði til þess að hann hefði einfaldlega treyst á lögfræðinga sína og hygðist ekkert breyta frá þeirri niðurstöðu.

[14:30]

Það er einmitt kjarni málsins, virðulegi forseti, að embætti umboðsmanns, stofnun þess og starfsemi frá því það var sett á stofn, hefur tekist alveg einstaklega vel. Það hefur í raun og veru verið mjög erfitt verkefni fyrir umboðsmann að skóla stjórnsýsluna til, því það er einfaldlega svo að það hefur verið mikil vinna að vinna sig út úr þeirri arfleifð sem oft og tíðum hefur verið kennd við Hriflu-Jónas, þ.e. að stjórnsýslan hafi tekið ákvarðanir að mestu leyti að eigin geðþótta. Og ég held að enginn hafi unnið betur í því en umboðsmaður Alþingis.

Því vil ég að lokum, virðulegi forseti, hvetja stjórnsýsluna og ráðuneytin til þess að fylgja áliti umboðsmanns Alþingis þegar fundið er að störfum þeirra í stað þess að hefja oft og tíðum lítt grundaða og lítt málefnalega umræðu um málið.