Skýrslur umboðsmanns Alþingis 1998 og 1999

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 14:44:34 (1876)

2000-11-16 14:44:34# 126. lþ. 26.4 fundur 118#B skýrslur umboðsmanns Alþingis 1998 og 1999# (munnl. skýrsla), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[14:44]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil líkt og aðrir þingmenn þakka fyrir þá skýrslu sem hæstv. forseti hefur hér fylgt úr hlaði um umboðsmann Alþingis. Ég verð að segja að þessi skýrsla er mjög til fyrirmyndar. Þarna er mikið samansafn af fróðleik um þau mál sem fólkið í landinu hefur talið ástæðu til þess að beina til umboðsmanns Alþingis, þar sem verið er að kvarta yfir ýmsum þáttum stjórnsýslunnar. Hér er hægt að fletta upp þessum málum og fara yfir þau og ég tel mjög til fyrirmyndar hvernig þessi skýrsla er.

[14:45]

Lengi má úr bæta. Ég hefði talið til bóta ef gleggri samantekt væri í inngangi skýrslunnar um atriði sem maður leitar nú oft uppi, þ.e. um hvernig gengur innan stjórnkerfisins að framfylgja þeim ábendingum og tillögum sem fram koma frá umboðsmanni af hálfu framkvæmdarvaldsins. Þannig gæti maður betur séð árangurinn sem tvímælalaust er og hefur verið alla tíð frá stofnun umboðsmanns Alþingis.

Ég held að það væri mjög til glöggvunar fyrir okkur þingmenn ef hægt væri að fletta því upp og sjá hvernig til hefur tekist, hvort hér séu atriði, sem vafalaust eru ýmis, sem snerta löggjafaratriði sem þingið sjálft gæti haft frumkvæði að því að beita sér fyrir.

Það er mjög athyglisvert, herra forseti, að fara yfir þann fjölda mála sem hér er skipt skilmerkilega niður eftir viðfangsefnum í þessari skýrslu. Þau eru flokkuð eftir ráðuneytum og ljóst að málefni dóms- og kirkjumrn. eru langumfangsmest þegar litið er til þeirrar flokkunar en þar á eftir kemur fjmrn.

Ég tek líka eftir því að umboðsmaður Alþingis getur þess sérstaklega að mál er varða opinbera starfsmenn hafa mjög komið til kasta embættis hans af þeim málum sem þessi skýrsla tekur til. Í skýrslunni er nefnt að mál er varða opinbera starfsmenn séu einn stærsti einstaki málaflokkurinn sem til kasta umboðsmanns hafi komið á árinu. Ég er hér með skýrsluna fyrir árið 1999 og þar er raunar greint frá því að svo hafi verið frá stofnun embættisins. Mér finnst athyglisvert að umboðsmaður Alþingis sér ástæðu til það geta þess að eflaust megi að einhverju leyti rekja það til nýrra laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Hér segir að þau lög hafi m.a. miðað að því að færa ákvörðunarvaldið í starfsmannamálum ríkisins í auknum mæli til forstöðumanna. Orðrétt segir umboðsmaður, með leyfi forseta:

,,Við athugun mína á þessum málum hef ég orðið þess var að allalgengt er að fyrirmælum stjórnsýslulaga er ekki fylgt við úrlausn þeirra. Því tel ég rétt að minna sérstaklega á að við setningu stjórnsýslulaga var út frá því gengið að ákvarðanir um setningu, skipun og ráðningu opinberra starfsmanna, svo og lausn þeirra frá störfum og brottvikningu skyldu teljast til stjórnvaldsákvarðana og því ættu stjórnsýslulögin að gilda um slíkar ákvarðanir.``

Í lok 7. kafla segir:

,,Ég tel mikilvægt að lagafyrirmælum sem færa valdheimildir til ákvarðanatöku í jafnviðamiklum málaflokki til allra forstöðumanna ríkisstofnana sé fylgt eftir með nauðsynlegri fræðslu um þær réttarreglur sem gilda um slíkar ákvarðanir.``

Herra forseti, þetta bendir til þess að ástæða sé til að fylgjast vel með framkvæmd þessara laga að því er þennan þátt varðar.

Í skiptingu mála eftir viðfangsefnum kemur fram, þ.e. ef maður skoðar hvar mesti málafjöldinn er þá er hann í málsmeðferð og starfsháttum stjórnsýslunnar, 31 mál af 272. Mál um tafir hjá stjórnvöldum á afgreiðslu mála eru 33. Mér finnst þau nokkuð mörg. Þeir sem þurfa að leita réttar síns í stjórnsýslunni kvarta oft yfir því að tafir séu miklar hjá stjórnvöldum varðandi afgreiðslu mála. Ég hélt satt að segja að þar væri búið að bæta verulega úr og kannski meira en þessi málafjöldi gefur tilefni til að ætla.

Ég rek líka augun í að mál sem snerta skattamál eru verulega umfangsmikil hjá embætti umboðsmanns Alþingis. Það gefur tilefni til að staldra aðeins við þann þáttinn. Hæstv. forsrh. sá ástæðu til þess fyrir einhverjum missirum síðan að koma fram með tillögu um að skoða hvort hér ætti að koma á fót umboðsmanni skattgreiðenda. Ég hygg nú að misjafnlega hafi verið tekið í þá tillögu. Margir urðu til að tjá sig um það og töldu að nær væri að haga málum þannig hjá umboðsmanni Alþingis að hann fengi aðbúnað, mannafla, tök og svigrúm til að taka á þeim málum sem snertu samskipti borgaranna við skattyfirvöld.

Ég vil spyrja hæstv. forseta, sem fylgir þessari skýrslu úr hlaði, hver sé skoðun hans á því máli, hvort hann telji ekki réttara að búa þannig að umboðsmanni Alþingis að hann geti tekið á þeim málum, sem vafalaust eru töluvert mörg, sem snerta samskipti skattyfirvalda og borgaranna fremur en að stofna sérstakt embætti umboðsmanns skattgreiðenda.

Fangelsismálin og almannatryggingar eru líka umfangsmiklir málaflokkar hér og væri ástæða til þess að fara ítarlegar yfir þessa skýrslu en maður hefur haft tíma til frá því hún kom hér fram.

Það er ekki langt síðan lögum um umboðsmann Alþingis var breytt þannig að starfssvið umboðsmanns var fært út gagnvart sveitarfélögunum. Ég held að það hafi vissulega verið jákvætt að haga málum með þeim hætti, að starfssvið umboðsmanns taki til stjórnsýslu sveitarfélaganna. Ég er sannfærð um að með þeirri lagabreytingu muni umfang verkefna umboðsmanns Alþingis aukast verulega og því sé eðlilegt að fallast á þá fjárveitingu sem fram kemur í frv. til fjárlaga fyrir næsta ár, sérstaka fjárveitingu til þess að hægt sé að ráða tímabundið í stöðu lögfræðings til að sinna verkefnum sem lúta að kvörtunum vegna stjórnsýslu sveitarfélaga.

Ég ætla ekki að tefja þessa umræðu. Ég vildi aðeins þakka fyrir þessa skýrslu og koma á framfæri þeirri skoðun, sem mér finnst að margir hv. þm. tjái sig um í þessum ræðustól líkt og þegar við fjölluðum um skýrslu Ríkisendurskoðunar, að fjalla þurfi betur en við höfum gert um skýrslur þessara eftirlitsaðila, umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar. Efni þeirra skýrslna og verkefnum þessara eftirlitsaðila ber að gefa meiri gaum en þingið hefur haft tök á hingað til. Það verður að skapa nefndum þingsins betri aðstöðu til að fjalla um þessar skýrslur. Á vettvangi allshn. --- ég og hef átt sæti þar eins og ég sagði hér áðan --- hlaðast upp mörg mál og það gefst ekki mikill tími í önnun þingsins til að fjalla um skýrslu umboðsmanns Alþingis eins og hún á virkilega skilið að gert sé, að farið sé ítarlega yfir hana. Efnistök þar ættu að vera þannig að flytja ætti inn í þingið aftur niðurstöðu allshn., eftir að hafa fjallað um slíka skýrslu. Maður sér, herra forseti, eins og staða mála er, ekki aðra leið til þess en þessar stóru skýrslur séu skoðaðar betur á vettvangi nefndanna þegar meiri tími gefst í þinghléi, annaðhvort strax eftir jólin eða þá yfir sumarmánuðina.

Ég ítreka að mér finnst að í skýrslunni þurfi að koma fram samantekt á því hvernig eftirfylgni hefur gengið, það að framfylgja þeim ábendingum sem fram koma hjá umboðsmanni.

Það er ástæða til að geta þess hér, að af því að ég fletti stundum í skýrslu sem ég nefndi hér áðan um starfsskilyrði stjórnvalda, að þar er fjallað um umboðsmann Alþingis. Þar er vikið að því, herra forseti, að umboðsmaður Alþingis hafi séð tilefni til að vekja athygli Alþingis á meinbugum á lögum í 45 af fyrstu 2.000 málunum sem umboðsmaður fékk til afgreiðslu. Til samanburðar er þess getið að þetta séu fleiri mál en umboðsmaður danska þingsins hafi fengist við og snerta meinbugi á lögum, allt frá því það embætti var stofnað árið 1954 og þar hafi að meðaltali verið um 3.000 mál til afgreiðslu árlega á sl. áratug.

Það er auðvitað ástæða til að nefna þetta hér, við höfum rætt hér hvort ekki þurfi að skoða betur það sem fram hefur komið einmitt í skýrslu Páls Hreinssonar, að stofna til lagaráðs, annaðhvort á vettvangi Stjórnarráðsins eða Alþingis. Það væri ágætt við þessa umræðu að fá álit hæstv. forseta á því hvort hann telji ástæðu til þess að skoða það af fyllstu alvöru, að stofna til slíks lagaráðs á vettvangi Alþingis. Um það liggur, að ég best veit, þegar fyrir frv. frá hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur o.fl. Það á vissulega erindi inn í þessa umræðu að spyrja hæstv. forseta hvort hann hafi myndað sér skoðun á því hvort rétt og eðlilegt sé að stofna til lagaráðs sem yrði þá á vettvangi þingsins og mundi enn styrkja stöðu Alþingis, til viðbótar því sem embætti umboðsmanns Alþingis vissulega gerir, til að tryggja betur réttaröryggi borgaranna og fagleg vinnubrögð í stjórnsýslunni.