Skýrslur umboðsmanns Alþingis 1998 og 1999

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 14:58:55 (1877)

2000-11-16 14:58:55# 126. lþ. 26.4 fundur 118#B skýrslur umboðsmanns Alþingis 1998 og 1999# (munnl. skýrsla), HBl
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[14:58]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil að þakka fyrir þessar umræður sem hafa verið mjög skemmtilegar og gagnlegar.

Ég sé að hv. þm. 6. þm. Suðurl., Lúðvík Bergvinsson, er ekki hér. Hann varpaði til mín tveimur fyrirspurnum til að vekja sérstaka athygli á því að mér hefði orðið á í messunni þegar ég var samgrh. Verður því við svo búið að standa ef hv. þm. er farinn úr húsinu því hæpið er að ég geti talað svo hátt að hann heyri þá til mín.

Út af því sem hv. 5. þm. Reykv. sagði hér, Jóhanna Sigurðardóttir, vil ég fyrst segja að umboðsmaður Alþingis hefur lagt áherslu á að reyna að svara fyrirspurnum varðandi skattaleg málefni. Það er lögfræðingur starfandi hjá umboðsmanni sem er sérmenntaður í þeim fræðum. Mikið er um að einstaklingar leiti til umboðsmanns munnlega og þá er reynt að greiða úr slíkum flækjum. Auðvitað getur það alltaf tekið nokkrun tíma að leysa úr vandamálum einstaklinga um skattaleg málefni, líka vegna þess að þau geta krafist mikilla gagna og undirbúnings en umboðsmaður leggur áherslu á að reyna að sinna þessum þætti málsins sem ég álít að sé mjög gagnlegt og gott.

[15:00]

Í annan stað kemur mér það ekki á óvart að umboðsmaður danska þingsins fái færri mál en íslenski umboðsmaðurinn. Maður úr samgrn. vann um skeið í samgönguráðuneytinu danska, einn af skrifstofustjórum samgrn., og hann spurðist fyrir um það hvernig danska samgönguráðuneytið ynni úr stjórnsýslukærum sem því bærust. Það komu svolitlar vöflur á þá og síðan kom í ljós að það barst ein kæra á fjögurra ára fresti að meðaltali. En í samgrn. um þetta leyti máttum við þakka fyrir ef ekki barst kæra vikulega. Misjafnlega var því staðið að málum. (Gripið fram í.) Ég ýki kannski nokkuð er ég segi vikulega, en við vorum ævinlega með einhverjar stjórnsýslukærur á borðinu. Þær tóku mismunandi langan tíma, voru mismunandi flóknar. En svo virðist vera að Íslendingar sæki sinn rétt fastar en hinn almenni borgari í nálægum löndum.

Auðvitað er það svo um margar þessar stjórnsýslukærur að við úrskurð um þær er unað. Aðrar ganga til umboðsmanns. Stundum ber það við að ráðherra er stefnt eins og gengur. En enginn vafi er á því að lögin um umboðsmann Alþingis og vinnubrögð umboðsmanns hafa valdið því að vinnubrögð einstakra ráðuneyta eru betri en áður, aðhald er meira og menn reyna að komast hjá því að tapa málum í eftirrekstri hjá umboðsmanni þannig að enginn vafi er á því að menn reyna að standa sig betur en ella mundi.

Ég álít að á síðustu árum hafi mikið verið gert til þess að vanda betur störf nefnda en áður var. Eins og nú standa sakir eru nefndirnar til húsa úti í Þórshamri í mjög þröngum húsakynnum. En þegar Alþingi kemur saman að nýju eftir áramót verður hægt að taka í notkun hið nýja húsnæði fyrir norðan Austurvöll. Þar verður nefndunum búin miklu betri aðstaða en nú er sem auðvitað á að auðvelda alþingismönnum störfin og á, þegar horft er fram í tímann, að tryggja vandaðri lagasetningu kannski en verið hefur ef við búumst við því að góð vinnuaðstaða alþingismanna valdi því að þeir standi betur að verki. Nema þeir séu svo vel verki farnir að aðstaðan skipti ekki máli sem er auðvitað það sem maður vonar.

En ég álít að það verði líka reynslan á næstu árum að þingnefndir munu nota starfsmenn sína nokkuð með öðrum hætti en verið hefur, að smátt og smátt muni þingnefndir komast upp á lag með að notfæra sér betur þá sérfræðiaðstoð og sérfræðiþekkingu sem þingið lætur í té og Alþingi mun enn fremur leggja ríkari áherslu á það á næstu árum að auka þá sérfræðiaðstoð og sérfræðiþekkingu sem það býr yfir. Af þeim sökum tel ég að það hafi verið óhjákvæmilegt og nauðsynlegt að bæta húsnæðiskost nefndasviðsins.

Lúðvík Bergvinsson, hv. 6. þm. Suðurl., gerði hér sérstaklega að umræðuefni að í skýrslu umboðsmanns fyrir árið 1999 sé fjallað um tvö mál sem komu til afgreiðslu í samgrn. meðan ég var þar samgrh. Þakka ég honum fyrir það. Það er ekki of oft á það minnt að ég skyldi hafa verið ráðherra einu sinni.

Annað málið lýtur að því að virt ferðaskrifstofa sem hér hafði starfað um áratuga skeið skilaði inn ferðaskrifstofuleyfi sínu þar sem hún var komin í greiðsluþrot. Ef ég man rétt stóð þannig á að ferðaskrifstofan hafði aukið umsvif sín um það leyti með meira framboði á ferðum en áður. En á hinn bóginn hafði árangurinn ekki orðið það góður að hún gæti staðið undir auknum kostnaði vegna þess. Nú þori ég ekki, af því það er svo langt síðan, að fara í smáatriði í þessum efnum. En það kom öllum á óvart að þessi ferðaskrifstofa skyldi eiga í greiðsluerfiðleikum. Þá var það álitamálið að þessi ferðaskrifstofa hafði skilað inn 6 millj. kr. í tryggingarfé. Í hinum eldri lögum var það alveg ljóst að fyrst bar að gera ráðstafanir til þess að menn sem voru á ferð í öðrum löndum kæmust heim. Ég tel raunar að í núgildandi lögum sé sú sama áhersla og er þess vegna ósammála þeirri niðurstöðu umboðsmanns Alþingis sem hér segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Þá tel ég að samgönguráðuneytinu hafi ekki verið heimilt að veita þeim sem staddir voru erlendis á vegum Z ehf. forgang fram yfir þá sem greitt höfðu inn á ferðir með félaginu. Ég tel að ráðuneytið hefði átt að haga málum þannig að hlutfallsleg skerðing gengi jafnt yfir alla sem gerðu og áttu með réttu kröfu í tryggingarféð.``

Þarna er niðurstaða umboðsmanns að það hafi ekki verið skylda samgrn. að tryggja heimferð þeirra sem erlendis voru.

Ég minni á að í 14. gr. þessara laga segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Þeim viðskiptavinum viðkomandi ferðaskrifstofu sem þegar eru í alferð, hvort sem um er að ræða alferð innan lands eða utan, skal gert kleift að ljúka ferð sinni. Í því felst að allt það sem viðskiptavinur hefur þegar greitt og er í samræmi við fyrir fram ákveðna alferð, hvort sem um flutning, gistingu eða aðra fyrir fram greidda hluta ferðar er að ræða, skal greiða af tryggingarfé svo að honum sé gert kleift að ljúka ferð sinni. Hins vegar er ekki skylt að greiða það sem viðskiptavinur kaupir aukalega, þ.e. hluta ferðar sem ekki teljast til fyrir fram ákveðinnar alferðar.

Hafi viðskiptavinur gengið til samnings við ferðaskrifstofu um að hefja alferð og greitt innborgun inn á ferð í því skyni en endanlegur samningur ekki komist á skal engu að síður greiða það fé sem viðskiptavinurinn hefur þegar reitt af hendi, enda leggi hann til fullnægjandi sönnunargögn þar að lútandi.``

Hér er lögð áhersla á heimferðina. Hið sama er að segja síðar í lagagreininni þar sem sérstaklega er vikið að því að greiða fyrir því að menn komist heimleiðis. Jafnframt er minnst á það áður, sérstaklega í 13. gr. m.a. að:

,,Áður en leyfi til ferðaskrifstofureksturs er veitt skal ferðaskrifstofa eða samtök slíkra fyrirtækja leggja fram sönnun þess að hún hafi nægilega tryggingu til heimflutnings farþega erlendis frá auk þess sem skylt er að gera farþega kleift að ljúka alferð, ...``

Ég tel því að þessar áherslur hafi verið inni og ég tel að þeir sem sömdu lagafrv. á sínum tíma hafi haft það í huga. Nú getur það auðvitað verið svo að texti lagafrv. og laga sé með þeim hætti að upphaflegur tilgangur náist ekki fram vegna þess að ákvæðin eru ekki rétt orðuð. Á það mun nú reyna fyrir dómstólum og þá verður úr því skorið hvort sá skilningur sem ég lýsi er réttur eða ekki.

Hitt er auðvitað líka rétt, sem kemur fram hjá umboðsmanni og ég get tekið undir, að það leið of langur tími frá lagasetningunni þangað til samgrn. hafði farið yfir reikninga einstakra ferðaskrifstofa og endurskoðað tryggingarfé í ljósi þess. Ég hygg þó í því sérstaka dæmi sem við erum hér að tala um, þá ferðaskrifstofu, þá hefði það ekki breytt neinu um tryggingarféð, án þess ég geti um það fullyrt. Eins og ég sagði er langt síðan þetta mál kom upp svo ég man það ekki í einstökum atriðum. Ég vil að það komi skýrt fram að ég náði sérstökum samningum við Flugleiðir um að flytja heim þá sem erlendis voru við lægra verði en flutningurinn hefði ella kostað þannig að um slíka samninga hefði þá ekki orðið að ræða nema til greiðslu hefði komið úr ríkissjóði.

Vel má vera að það sé rétt að skilningur okkar í samgrn. á þessum tíma hafi ekki verið réttur. Þá reynir á það fyrir dómstólum og þá er óhjákvæmilegt að slíkar greiðslur verði greiddar af skattborgurunum úr ríkissjóði.

En ég legg áherslu á að mikil vinna var því samfara að fara yfir allar áætlanir og alla reikninga einstakra ferðaskrifstofa og ferðarekenda. Það má auðvitað velta því fyrir sér í ljósi þessarar reynslu sem við erum hér að tala um hvort rétt sé í slíkum tilvikum að ákvæði eins og það sem lýtur að tryggingarfénu skuli ekki ná fram að ganga fyrr en kannski eftir eitt ár eða eitthvað þvílíkt og hinar eldri reglur gilda, með því að þar var verið að vinna mikla frumvinnu og það var alls ekki hlaupið að því að átta sig á því hvernig að þessum málum skyldi staðið.

En því verki er nú lokið fyrir nokkrum árum. Ég veit ekki hve mörgum árum. Og ég veit ekki betur en góð reynsla sé af þeirri nýju skipan sem nú hefur verið komið á og því aukna aðhaldi sem þessar nýju reglur veita ferðaskrifstofunum.

Um hið síðara málið --- ég sé ég hef gleymt tímanum --- er það að segja að í lögum er kveðið á um að sveitarfélag geti fengið einkaleyfi á ferðum innan síns lögsagnarumdæmis og þá er það bindandi með ákveðnum skilyrðum. Ég var þeirrar skoðunar að Ísafjörður hefði rétt til þess að taka rekstur almannasamgangna í sínar hendur fyrst þeir óskuðu þess og á það mun einnig reyna fyrir dómstólum. Ég álít á hinn bóginn að sú skaðabótakrafa sem uppi er --- ég hef heyrt talað um 50 milljónir --- sé svo há að ég trúi ekki að á hana verði fallist.