Skýrslur umboðsmanns Alþingis 1998 og 1999

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 15:16:45 (1879)

2000-11-16 15:16:45# 126. lþ. 26.4 fundur 118#B skýrslur umboðsmanns Alþingis 1998 og 1999# (munnl. skýrsla), HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[15:16]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég hef eitthvað mismælt mig ef orð mín skildust þannig að ég hafi verið að bera saman ágæti stjórnsýslu hér og í Danmörku. Ég var ekki að því. Það sem ég sagði var að stjórnsýslukærur hér væru miklu fleiri en í Danmörku og e.t.v. væri skýringin sú að almenningur hér væri nær stjórnsýslunni en þar, munurinn er svo mikill.

Á hinu er enginn vafi að umboðsmaður Alþingis hefur veitt framkvæmdarvaldinu mikið aðhald. Reglur stjórnsýslunnar eru þannig betur virtar nú en t.d. fyrir tíu árum. Ég vonast til að þær séu í nokkuð góðu horfi en er sammála hv. þm. um að við hljótum að leggja áherslu á það.

Ég svaraði óbeint áðan því sem hv. þm. spurði um umboðsmann skattgreiðenda. Ég er þeirrar skoðunar að ekki sé rétt að stofna sérstakt embætti af þeim toga heldur sé rétt að styrkja umboðsmann Alþingis til að sinna þeim málaflokki sómasamlega og veit ekki betur en svo sé. Ef svo er ekki tel ég rétt að styrkja þá starfsemi hans.

Það má vera að það sé misskilningur en ég tók það svo að þetta lagaráð, sem um var talað, að hæstv. forsrh. hefði hugsað sér að stofna það í Stjórnarráðinu til að fjalla um stjfrv. Er það misskilningur minn? (Gripið fram í: Nei.) Þá hlýtur hæstv. forsrh. að ráða því hvort hann vandar betur sín frv.

Ég lít hins vegar svo á að nefndirnar eigi að hafa það góða sérfræðiaðstoð við sín störf að fullnægjandi sé og æskilegt að þingmenn geti gengið að nauðsynlegri lögfræðiaðstoð vísri við undirbúning frv.