Skýrslur umboðsmanns Alþingis 1998 og 1999

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 15:23:37 (1883)

2000-11-16 15:23:37# 126. lþ. 26.4 fundur 118#B skýrslur umboðsmanns Alþingis 1998 og 1999# (munnl. skýrsla), HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[15:23]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég er greinilega orðinn nokkuð óskýrmæltur upp á síðkastið. Ég sagði að ef sú yrði niðurstaðan að með tryggingarfénu ætti ekki fyrst og fremst að tryggja heimkomu farþega eða viðskiptavina þá teldi ég að tilganginum hefði ekki verið náð, eins og ég skildi málið. Ég er hins vegar enn þeirrar skoðunar að lögin séu þannig orðuð að heimilt hafi verið að láta tryggingarféð renna til þess að greiða fyrir heimkomu þeirra sem erlendis voru, þeirra viðskiptavina ferðaskrifstofunnar. Á það mun reyna fyrir dómstólum.

Ég er þeirrar skoðunar að þingmenn almennt hafi verið þeirrar skoðunar að það væri frumskylda ferðaskrifstofu að tryggja að menn kæmust heim til sín og að tryggingarféð ætti fyrst og fremst að ganga til þess. Best væri auðvitað að tryggingarféð gæti staðið undir öllum skuldbindingum, endurgreitt hvaðeina sem endurgreiða ber, það væri auðvitað það besta. Ég vona að það sé enginn misskilningur í þessu.

Ég vil að það komi fram, sem ég gleymdi að segja áðan, að með skýrslunni 1997 er úttekt á því hvernig fyrstu 2000 málunum hefði reitt af og síðan er þess getið í skýrslunum hvernig hvert einstakt mál stendur. Ég álít að það sé mjög til bóta og mjög gott. Þá geta þingmenn fylgst með því hvort ráðuneytin fara eftir tilmælum umboðsmanns eða ekki. Í flestum tilfellum gera ráðuneytin það. Í flestum tilvikum hygg ég að ráðuneytin séu sammála umboðsmanni um að athugasemdir hans séu réttar.