Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 15:28:46 (1886)

2000-11-16 15:28:46# 126. lþ. 26.5 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[15:28]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Tilgangur frv. þess sem hér er flutt er að aðlaga ákvæði laganna um innflutning dýra, nr. 54/1990, að þeirri reynslu og framkvæmd sem mótast hefur á gildistíma þeirra og þeirri þróun löggjafar á sviði landbúnaðar sem orðið hefur frá því lögin voru sett.

Í 6. gr. laganna um innflutning dýra er kveðið á um að landbrn. annist og beri ábyrgð á innflutningi búfjár sem heimilaður kann að verða samkvæmt lögunum. Einnig kveða lögin á um að vegna innflutnings á dýrum og erfðaefni samkvæmt lögunum skuli vera til staðar eða byggð sóttvarnastöð. Í samræmi við ákvæði þessi hafa verið reistar sóttvarnastöðvar fyrir nautgripi og svín og einangrunarstöð fyrir gæludýr í Hrísey. Hvað varðar innflutning annarra búfjárkynja, loðdýra og alifugla, er innflutningi þannig háttað að dýrunum er komið fyrir á völdum einangrunarbúum í eigu einstaklinga eða viðkomandi búgreinafélaga þar sem þau eru höfð í sóttkví tilskilinn tíma samkvæmt ákvörðun yfirdýralæknis og undir eftirliti sérfræðinga á vegum embættisins.

[15:30]

Meginefnisbreytingin sem frv. felur í sér er að ekki verði lengur skylda landbrn. að annast sjálft innflutning búfjár sem heimilaður kann að verða og framræktun kynja sem inn verða flutt heldur verði hlutverk þess fyrst og fremst fólgið í eftirliti með framkvæmdum.

Á undanförnum árum hefur verið heimilaður umtalsverður innflutningur á lifandi dýrum og erfðaefni þeirra. Fluttir hafa verið til landsins nýir stofnar alifugla og endurnýjun þeirra tryggð með reglubundnum innflutningi erfðaefnis. Nýir stofnar svína og holdanauta hafa verið fluttir inn, svo og loðdýr til kynbóta á þeim stofnum sem fyrir eru í landinu. Þá fer innflutningur á gæludýrum vaxandi.

Í samræmi við framangreind ákvæði laganna stofnsetti landbrn. sóttvarnastöð fyrir nautgripi í Hrísey árið 1973 og sá embætti yfirdýralæknis í fyrstu um rekstur hennar í umboði ráðuneytisins. Sóttvarnastöðin var leigð Landssambandi kúabænda 1. jan. 1994 sem hefur síðan annast rekstur hennar undir eftirliti yfirdýralæknis.

Árið 1993 var Svínaræktarfélagi Íslands heimilað að reisa sóttvarnastöð fyrir svín í Hrísey og hefur félagið sjálft annast rekstur stöðvarinnar undir eftirliti yfirdýralæknis.

Árið 1990 stofnsetti landbrn. einangrunarstöð fyrir gæludýr, fyrir hunda og ketti, í Hrísey. Fyrstu árin annaðist embætti yfirdýralæknis rekstur stöðvarinnar í umboði landbrn. en síðari ár hefur einkaaðili séð um reksturinn undir eftirliti yfirdýralæknis samkvæmt sérstökum samningi.

Sá innflutningur lifandi dýra og erfðaefnis, sem heimilaður hefur verið á undanförnum árum samkvæmt ákvæðum laganna um innflutning dýra, hefur í meginatriðum gengið áfallalaust. Ekki hafa komið upp sjúkdómar sem tengja má innflutningnum enda mjög strangar kröfur gerðar um heilbrigði innfluttra dýra og erfðaefnis og sóttvarnir þegar til landsins kemur. Þung áhersla er lögð á það af hálfu landbrn. að tryggja heilbrigði þeirra dýrastofna sem fyrir eru í landinu og viðhalda þeirri gæðaímynd sem Ísland og íslensk matvælaframleiðsla hefur.

Því er með frv. þessu ekki lagt til að breyta þeirri skipan sóttvarna og einangrunar vegna innflutnings búfjár og gæludýra sem verið hefur. Hins vegar er lagt til að ákvæði laganna verði aðlöguð þeirri framkvæmd í rekstri sóttvarna- og einangrunarstöðvanna sem er lýst að framan og landbrh. geti falið einstaklingum, fyrirtækjum eða félagasamtökum rekstur þeirra undir eftirliti yfirdýralæknis.

Áhersla er lögð á að með þeirri breytingu er á engan hátt slakað á þeim kröfum um sóttvarnir sem gildandi lög kveða á um. Önnur meginefnisbreyting sem frv. felur í sér varðar ákvæði 3. gr. laganna, um að landbrh. skipi nefnd þriggja dýralækna yfirdýralækni til ráðuneytis er sótt er um heimild til innflutnings á búfé.

Í 4. gr. laganna um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, nr. 66/1998, er ákvæði um að landbrh. skipi dýralæknaráð til fimm ára í senn er sé yfirdýralækni til ráðuneytis. Skal ráðið ávallt fjalla um innflutning búfjár og erfðaefnis þess berist umsóknir þar um. Litið er svo á að hið nýja dýralæknaráð leysi af hólmi ráðgjafarnefnd þá sem kveðið er á um í 3. gr. laga um innflutning dýra og er því lagt til að ákvæðið falli brott.

Að öðru leyti felur frv. í sér aðlögun laganna um innflutning að þeirri þróun löggjafar á þessu sviði sem orðið hefur frá því lögin voru sett árið 1990.

Hæstv. forseti. Að lokinni umræðunni legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.