Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 15:40:44 (1890)

2000-11-16 15:40:44# 126. lþ. 26.5 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[15:40]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Margt er rétt og gott í ræðu hv. þm. Ég vil aðeins ítreka að auðvitað stöndum við frammi fyrir því að ýmsir aðilar hafa kannski ekki skilning á þessari sóttkví lifandi dýra, gæludýranna sinna sem standa afar nærri hjarta þess sem á dýrin. Þess vegna finnst þeim kannski leiðin til Hríseyjar löng og fjarveran erfið. En það sem við verðum að hafa í huga eru öll hin blessuð gæludýrin sem eru fyrir í landinu og búa við það að vera heilbrigð og langt frá heimsins slóð og þess vegna þola þau kannski lítið. Það er verið að reyna að smygla inn, stundum af skilningsleysi, dýrum sem geta valdið stórum skaða.

En ég vil fyrst og fremst að landbn. fari yfir þetta mál og þingið hugleiði það út frá öryggi hinna dýranna, út frá því að þetta hefur heppnast mjög vel í Hrísey. Það hafa ekki orðið nein áföll og eyjarskeggjarnir sjálfir hafa lagt mikið af mörkum til þess að halda utan um þetta öryggi og sinnt sínu starfi af prúðmennsku.