Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 15:48:01 (1895)

2000-11-16 15:48:01# 126. lþ. 26.5 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv., ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[15:48]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir:

Herra forseti. Við þessi skemmtilegheit hér á undan hefur í rauninni allt komið fram. Ég get ekki tekið alveg undir með hv. þm. Sighvati Björgvinssyni um að Valhöll á Þingvöllum sé rétti staðurinn, en þótt við höfum ekki Valhöll í Krýsuvík er það heppilegur staður fyrir einangrunarstöð.

Hér er til umfjöllunar frv. til laga frá hæstv. landbrh. um breytingu á lögum um innflutning dýra, það frv. sem hann boðaði í síðustu viku þegar hann svaraði fyrirspurn minni um hvort ekki væri ástæða til að koma á fót fleiri einangrunarstöðvum í landinu og þá á höfuðborgarsvæðinu. Hann svaraði þeirri fyrirspurn hreinskilnislega og gat þess um leið hversu margir af suðvesturhorninu nýta sér þessa einangrunarstöð. Því var ég nokkuð spennt að sjá þetta frv. en að sama skapi varð ég fyrir nokkrum vonbrigðum með að sjá að þess skuli ekki vera getið í rauninni að veita öðrum einangrunarstöðvum tækifæri, en þó mætti túlka það sem stendur í 3. málslið 5. gr. svo að ráðherra geti falið einstaklingum, fyrirtækjum og félagasamtökum rekstur stöðvanna. Í rauninni gæti ráðherra einmitt tekið sér vald samkvæmt þessu og ákveðið einangrunarstöðvar á fleiri stöðum.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom snaggaralega og skilmerkilega upp í andsvari við hæstv. ráðherra og spurði ráðherra þeirrar spurningar sem ég ætlaði mér að spyrja, hvort hæstv. landbrh. kæmi til með að setja sig upp á móti því ef hið háa Alþingi legði fram brtt. Það var alveg skýrt í máli hæstv. landbrh. að hann ætlar ekki að gera það og ætla ég í rauninni að taka hann á orðinu.

Ég vil geta þess að á sínum tíma sótti dýralæknastofa í Garðabæ um leyfi til þess að koma á fót einangrunarstöð í Krýsuvík, en m.a. yfirdýralæknir hefur gefið út þá yfirlýsingu að slík stöð geti verið þar staðsett að uppfylltum öllum skilyrðum sem sóttvarnalæknir, þ.e. yfirdýralæknir, setur um slíka stöð. Auðvitað tökum við heils hugar undir það sem stendur m.a. í grg., að ,,þung áhersla er lögð á það af hálfu landbúnaðarráðuneytisins að tryggja heilbrigði dýrastofna sem fyrir eru í landinu og viðhalda þeirri gæðaímynd sem Ísland og íslensk matvælaframleiðsla hefur. Því er með frumvarpi þessu ekki lagt til að breyta núverandi skipan sóttvarna og einangrunar vegna innflutnings dýra.``

Það er heldur ekki ætlunin með því að setja fram þá kröfu að koma á fót fleiri einangrunarstöðvum að slaka í einu eða neinu á kröfum til sóttvarna, engan veginn. En það er hins vegar verið að taka tillit til hagsmuna eigenda gæludýra sem eru að flytja þau inn og síðast en ekki síst er verið að taka tillit til dýranna sjálfra því að það er deginum ljósara að ferðalagið til Hríseyjar og aftur hingað suður er afar erfitt fyrir dýrin og einnig eigendur að vera svo lengi fjarvistum við þessi ágætu dýr.

Ég er ekki að leggja mat á þá góðu vinnu sem hefur verið lögð fram af hálfu þess ágæta fólks sem stendur að einangrunarstöðinni í Hrísey, engan veginn, en hún fullnægir ekki þörfum og kröfum þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum.

Hæstv. ráðherra gat um það í svari sínu til mín í síðustu viku að u.þ.b. 60% af þeim sem nýta sér einangrunarstöðina fyrir gæludýr í Hrísey væru héðan af suðvesturhorninu og ég get ímyndað mér að það færi upp í um 80% ef Sunnlendingar bætast þar við sem eflaust mundu nýta sér einangrunarstöð á höfuðborgarsvæðinu eða á Suðurnesjum, þá einna helst nálægt Keflavíkurflugvelli sjálfum.

En ég fagna því að hæstv. ráðherra muni ekki beita sér gegn því ef þingið mun leggja fram brtt. við frv. sem við erum að ræða hér og beini því til hv. landbn. þingsins að hún breyti þessu á þann veg að komið verði á fót einangrunarstöð eða heimild til að koma á einangrunarstöð á höfuðborgarsvæðinu og ef hv. landbn. kemur ekki til með að gera það mun ég leggja þá brtt. fram við 2. umr.