Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 16:33:52 (1905)

2000-11-16 16:33:52# 126. lþ. 26.5 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[16:33]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég var ekki að reyna að hártoga það sem hv. þm. sagði en hv. þm. sagði að hann væri á móti því að sóttvarnastöðvar fyrir gæludýr verði reknar af einkaaðilum. Nú er það svo að sú stöð sem fyrir hendi er í Hrísey er rekin af einkaaðilum. Ég dreg af því þá ályktun að hv. þm. vilji gjarnan að sú stöð verði lögð niður eða tekin aftur til ríkisins. Það er ekki hægt að leggja aðra merkingu í orð hv. þm.

Hv. þm. Jón Bjarnason er vísindamaður að upplagi. Hann á hrós skilið fyrir að hafa byggt upp litla en ákaflega þróttmikla rannsóknarstöð á Hólum í Hjaltadal sem sannarlega er á einstökum sviðum í fremstu röð. Hv. þm. hefur komið að því máli af elju og dugnaði en mér finnst það skjóta dálítið skökku við að hv. þm. virðist eigi að síður eftir að hann flutti sig inn í þessa sali hafa tapað trúnni á vísindin. Það er einfaldlega vísindaleg staðreynd að við búum núna yfir ráðum sem geta komið í veg fyrir það að við flutning á erfðaefni milli landa, við flutning á jafnvel lifandi dýrum milli landa flytjist smitsjúkdómar.

Hv. þm. hefur í máli sínu gert sérstaklega að umræðuefni þá staðreynd að smitsjúkdómar koma stundum ekki fram fyrr en árum seinna. Hann átti t.d. við kúariðu eða Creutzfeldt-Jakobs sjúkdóminn. Það er eigi að síður svo að með þróun vísindanna er núna hægt að skima fyrir sjúkdómum af þessu tagi.

Mér finnst vera dálítil þverstæða fólgin í því, herra forseti, án þess að ég vilji ganga of nærri hv. þm., að hafa eytt öllu sínu lífi í að byggja upp vísindalega rannsóknarstöð en koma síðan í þennan sal og vera þá á móti því sem vísindin bókstaflega segja okkur í dag. Þau segja okkur að þetta er hægt að gera. Það er hægt að flytja erfðavísa millum heimsálfa án þess að nokkur hætta sé á smiti. Þetta gæti hv. þm. kynnt sér ef hann mundi ráðfæra sig við suma kollega sína úr þeim landbúnaðarvísindum sem hann stundaði sjálfur af svo mikilli elju á fyrri árum.