Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 16:53:34 (1908)

2000-11-16 16:53:34# 126. lþ. 26.5 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[16:53]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Mér komu mjög á óvart hin snörpu viðbrögð hæstv. landbrh. sem gátu ekki annað en opinberað fyrir mér slæma samvisku hjá hæstv. ráðherra sem ég ætlaði ekkert að fara að hræra upp. Ég ætla ekki í þessari ræðu að fara að gerast sálusorgari hæstv. landbrh. í einhverjum málum eða aðgerðum sem hann stendur frammi fyrir eða er að taka. Það var ekki ætlunin í ræðu minni og þess vegna vík ég því algjörlega frá mér að ég hafi hér verið að egna hæstv. ráðherra til að vera að brigsla mér um ósannindi, síður en svo.

Ég vitnaði bara til og lagði áherslu á varúðina sem slíka, að varúðin eigi að gilda. Kannski hefur hæstv. ráðherra ekki hlustað á það að ekki væri ætlunin og þung áhersla væri lögð á af hálfu landbrn. ,,að tryggja heilbrigði dýrastofna sem eru fyrir í landinu og viðhalda þeirri gæðaímynd Íslands`` o.s.frv. Þetta las ég upp, hafi hæstv. ráðherra ekki heyrt það.

Hins vegar á að fjölga möguleikum á því að reka einangrunarstöðvar. Því vildi ég slá varnagla við, þ.e. að farið yrði afar varlega í það og styrkja heldur það sem fyrir væri.

Herra forseti. Ég vísa stórum hluta af því sem hæstv. landbrh. sagði í minn garð heim til hans og harma það að hafa vakið upp hjá honum einhverja slæma samvisku.