Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 16:55:33 (1909)

2000-11-16 16:55:33# 126. lþ. 26.5 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[16:55]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Enn þá bregst hv. þm. vonum mínum og lætur að því liggja að hann hafi hugmynd um að ráðherrann hafi slæma samvisku og þykist auðvitað getað sannfært menn um það. Samviska ráðherrans er ekki slæm, fremur er hún góð þannig að það er rangt.

Hv. þm. sagði áðan að það ætti að slaka á eftirliti. Fyrst og fremst er verið að færa eftirlitið á eina hendi og örugga og framkvæmdina á aðra eins og það hefur verið um mörg ár, að einstaklingarnir, búgreinarnar eða félögin hafi frelsi til þess að flytja inn undir ströngustu kröfum. Ég held að þetta sé það sem flestir viðurkenna að einstaklingar, félög eða búgreinar hafa alveg vald á málum sínum en þær þurfa aðhald og eftirlit og á því verður ekkert slakað.

Ég hef hins vegar sagt og hv. þm. hlýtur að hafa heyrt það bæði hér í dag og fyrr að ég stend ekki hér til að fjölga möguleikum nema að þessu leyti að þetta eru þeir sem fara með það og verður að gefa leyfi í hvert sinn. Ég hef fremur sagt að ég mundi gjarnan vilja að það starf sem farið hefur fram í Hrísey í kringum gæludýrin fái að haldast þar. Það hefur reynst vel og ekkert þar komið upp á. Þess vegna tel ég að það verkefni eigi að vera þar og hef ekki lagt til að aðrir komi þar inn í.