Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 17:02:02 (1914)

2000-11-16 17:02:02# 126. lþ. 26.5 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[17:02]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka fram um litförótta hrossið sem mér hefur orðið tíðrætt um hér í dag og hæstv. ráðherra ber reyndar líka fyrir brjósti, að ég tel ekki að þetta sé úrslitaatriði varðandi afdrif þess. Ég held að ræktunarátakið sem menn eru byrjaðir á muni nægja til þess að bjarga því og reyndar einum tveimur, þremur öðrum ákaflega sjaldgæfum litaafbrigðum.

Ég er einfaldlega að velta upp eftirfarandi: Ef hæstv. ráðherra er þeirrar skoðunar eins og hann hefur margsinnis staðfest hér í dag að hann telji ekki að nokkur hætta sé fólgin í því að leyfa flutning á fósturvísum milli landa þá tel ég, eftir að hann hefur leyft innflutning á erfðaefni úr norska stofninum, að hann geti ekki --- reyndar ekki bara norska stofninum heldur líka úr hollenskum svínum --- og að ekki sé hægt að meina íslenskum hrossaræktendum sem einhverra hluta vegna hefðu hug á því að flytja inn erfðaefni úr íslenskum stóðhestum erlendis að gera það. Ég sé ekki að honum sé stætt á því eftir þetta.