Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 17:04:11 (1916)

2000-11-16 17:04:11# 126. lþ. 26.5 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[17:04]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Tilefni þessa andsvars er það sem hæstv. landbrh. kallaði hér áðan hugarflug en ekki ræðu og má það til sanns vegar færa. Ég, eins og fleiri, varð afar döpur þegar hæstv. ráðherra kom undan feldinum. Ég vil ekki gera lítið úr þeim orðum hæstv. ráðherra að hér búum við við hreint umhverfi og hér geti maður beygt sig niður og sopið úr hverjum læk. Ég vil heldur ekki gera lítið úr þeim ummælum hæstv. ráðherra sem hann hefur um hjartagæsku íslenskra bænda eða mögulega markaði fyrir okkar góðu landbúnaðarvörur í hinum fjarlæga heimi.

Ég vil ekki gera lítið úr neinu þessu. Þó vil ég benda hæstv. ráðherra á að nú er svo komið að Íslendingar geta ekki lengur kropið við hvern læk til að súpa úr honum, ekki þegar arsen mælist í hliðaránum okkar sem renna út í Elliðaárnar. Þá er svo komið, herra forseti, að við getum ekki lengur kropið niður og sopið úr hverjum læk.

Þetta vil ég segja til þess að ítreka þá hættu sem er samfara innflutningi á fósturvísum úr norskum kúm. Innflutningur á fósturvísunum er ekki áhættulaus. Hann er það ekki. Ég vildi óska að hæstv. ráðherra hefði borið gæfu til að taka þá ákvörðun að segja nei vegna þess að mín skoðun er sú að hér sé svo mikið í húfi. Mér þykir það uggvænleg tilhugsun að sjá norsku hlussurnar, liggur mér við að segja, kýrnar sem eru búnar til fyrir allt aðra náttúru en þá íslensku sem hæstv. landbrh. hefur miklar mætur á. Þær geta ekki fótað sig í íslensku náttúrunni. Mér liggur við að segja að ég fái hálfgerða velgju þegar ég hugsa um þá framtíð sem getur beðið okkar, að íslenska kýrin hverfi úr íslenskri náttúru fyrir norska, stóra stórgripi.