Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 17:08:32 (1918)

2000-11-16 17:08:32# 126. lþ. 26.5 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[17:08]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað vonum við öll að ekki hljótist neitt slys af og að þessi tilraun eigi ekki eftir að orsaka neinn voða eða skaða í okkar íslensku náttúru.

Í lokin langar mig til að brýna hæstv. landbrh. til þess, og herma upp á hann hans eigin orð sem hann sagði áðan, að á eftirliti verði ekki slakað því að mig langar ekki til þess að við þurfum að standa frammi fyrir því sem stórþjóðir á borð við Breta og Frakka standa frammi fyrir núna. Þær hafa viðurkennt að innra eftirlit þeirra hafi brugðist, að þar hafi eftirlit búgreinanna hreinlega brugðist þó svo að ráðamenn þar hafi alla tíð sagt að það væri nægilega mikið. Þeir hafa alla tíð sagt að hert hefði verið á klónni eftir að ljóst var að kúariða gæti borist í menn. En þrátt fyrir þeirra orð hafa þeir nú orðið að éta það ofan í sig því að eftirlitið brást. Það var ekki nægilega mikið svo ég held því fram að hér verði hæstv. ráðherra aldrei of brýndur varðandi eftirlit.