Jarðalög

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 17:33:24 (1925)

2000-11-16 17:33:24# 126. lþ. 26.6 fundur 73. mál: #A jarðalög# (endurskoðun, ráðstöfun jarða) frv., Flm. SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[17:33]

Flm. (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel aftur á móti að málið sé ekkert mjög flókið. Ég held að málið sé mjög einfalt. Ég held að málið sé svo einfalt að þetta er svarið við spurningunni: Vilt þú að íslenskur bóndi hafi sama frelsi til athafna og hver annar atvinnurekandi? Hann megi ráðstafa fasteignum sínum eins og honum komi best svo lengi sem hann gengur ekki á rétt annarra. Þetta er mjög einfalt mál og ekkert flókið.

Það eru hins vegar mörg dæmi um það, hæstv. landbrh., að jarðanefndir hafa stórlega misbeitt valdi sínu. Til dæmis var fjallað um það í Morgunblaðinu fyrir u.þ.b. fjórum árum, þar sem jarðanefnd hafði neytt bónda til að selja tilteknum aðila bújörð sína sem jarðanefndinni þóknaðist en bóndanum ekki. Og þegar leitað var eftir upplýsingum frá nefndinni um hvernig á því stæði, hver væru rökin fyrir úrskurði hennar, þá neitaði hún að gefa það upp og sagði að hún teldi að upplýsingalögin næðu ekki til hennar. Það eru u.þ.b. fjögur ár síðan um þetta var fjallað í Morgunblaðinu, um svipað leyti og ég flutti frv. mitt í fyrsta skipti. Ég þekki sjálfur úr mínu umhverfi sem þingmaður Vestfirðinga til bráðum 30 ára nokkuð mörg dæmi um slíkt hið sama, sem meira að segja tengdust fjölskyldu þeirra sem í jarðanefndinni sátu.