Jarðalög

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 17:35:16 (1926)

2000-11-16 17:35:16# 126. lþ. 26.6 fundur 73. mál: #A jarðalög# (endurskoðun, ráðstöfun jarða) frv., DrH
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[17:35]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á jarðalögum, nr. 65/1976, með síðari breytingum. Ég tek undir með hv. 1. flm., Sighvati Björgvinssyni, að þetta er í rauninni mjög einfalt mál og þessum hömlum þarf að létta af. Það hefur svo margt breyst í landbúnaðinum í dag. Búunum fer fækkandi en þau stækka og landnot eru orðin allt önnur en þau voru hér áður fyrr. Það eru t.d. miklu fleiri jarðir teknar í notkun til skógræktar, svo dæmi sé tekið.

Mig langar til að drepa hér á nokkur atriði. Ég tek undir að mjög óeðlilegt er að bændur sitji ekki við sama borð í fasteignaviðskiptum og aðrir. Ekki þarf sá sem er að selja íbúð í þéttbýli að fara með erindi fyrir sveitarstjórn til að kanna hvort hún vilji hafna eða nýta forkaupsrétt. Þegar jarðir eru seldar og sveitarstjórn fær forkaupsréttinn þá er allt lagt á borðið, allir samningar manna á milli eru lagðir á borðið. Þetta tel ég vera mjög óeðlilegt í frjálsum viðskiptum. Fólk á að hafa frelsi til að sinna viðskiptum sínum, selja jarðir sínar til þeirra sem það vill án þess að það komi nokkrum öðrum við. Mér finnst þetta vera grundvallaratriði í mannréttindum í rauninni að fólk fái að selja eignir sínar eins og því þóknast.

Mig langar til að tæpa aðeins á nokkrum atriðum í jarðalögunum og varðandi jarðanefndirnar sem ég tel vera algjörlega úr takt við nútímann. Í 5. gr. í jarðalögunum segir um jarðanefndir að þær eigi að ,,fylgjast með eigendaskiptum og öðrum ráðstöfunum fasteigna samkvæmt nánari fyrirmælum laga þessara.``

Þær eiga einnig að ,,gera tillögur um úthlutun landsvæða til félagsræktunar, byggingar sumarbústaða einstaklinga, orlofshúsa stéttarfélaga og til almennrar útivistar ef sóst er eftir landi í því skyni.``

Hér er sagt líka í 8. gr. að ef sveitarstjórn og/eða jarðanefnd neita ,,að samþykkja áformaða sölu fasteignar, sbr. 6. gr., og ráðherra staðfestir þá ákvörðun, og getur þá eigandi eða umráðamaður eignarinnar gert kröfu til þess, að sveitarsjóður eða ríkissjóður kaupi eign þá, sem hann vildi láta af hendi. Náist ekki samkomulag um verð, skal kaupverð eignarinnar ákveðið samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms.``

Hv. 1. flm. kom mjög vel að þessu í málflutningi sínum.

Í 10. gr. segir:

,,Óheimilt er að reisa sumarbústað á landi sem lögin taka til skv. 3. gr. og ekki hefur verið leyst úr landbúnaðarnotum skv. 1. og 2. mgr. 12. gr. nema jarðanefnd samþykki. Ekki er skylt að afla samþykkis skv. 1. og 2. mgr. 12. gr. vegna lóða fyrir sumarbústaði.``

Í 12. gr. segir:

,,Land, sem við gildistöku laga þessara er nýtt til landbúnaðar, má ekki taka til annarra nota, nema heimild sé til slíks í lögum. Að öðrum kosti þarf samþykki ráðherra, enda hafi það áður verið samþykkt af viðkomandi jarðanefnd og sveitarstjórn, og fyrir liggi umsögn Skipulags ríkisins og Bændasamtaka Íslands. Leyfi samkvæmt þessari grein skal þinglýst. Með notkun til landbúnaðar í merkingu þessa ákvæðis er einnig átt við land sem nýtanlegt var til landbúnaðar við gildistöku laga nr. 65/1976, þar með taldar eyðijarðir og einstakar landspildur ef því hafði ekki með staðfestu skipulagi eða heimild í öðrum lögum verið ráðstafað til annarra nota.``

Síðan segir hér líka:

,,Óski stéttarfélag eftir landi til reksturs orlofshúsa fyrir félagsmenn er jarðanefnd rétt að heimila slík afnot lands rýri þau ekki til muna kosti jarðarinnar til búskapar.``

Hvað í veröldinni kemur það jarðanefnd við ef bóndi vill skipuleggja land sitt til sumarbústaða eða til orlofshúsa?

Einnig segir í 12. gr.:

,,Til að skipta landi jarða og sameiginlegu landi fleiri jarða, til að sameina jarðir og til að leggja lönd eða jarðir til afrétta þarf samþykki jarðanefnda og sveitarstjórna og staðfestingu landbúnaðarráðuneytisins, að fenginni umsögn Bændasamtaka Íslands.

Stofnun nýrra býla eða fleirbýlis á jörð er háð samþykki viðkomandi jarðanefndar, sveitarstjórnar og landbúnaðarráðuneytisins.``

Um viðurkenningu á nýjum býlum félagsbúa og jarðaskrá segir í jarðalögunum í 22. gr.:

,,Til þess að stofna nýtt býli til búvöruframleiðslu, þar með talið til ylræktar, garðræktar, fiskræktar og loðdýraræktar eða til smáiðnaðar og þjónustu sem tengd er landbúnaði, þarf heimild landbúnaðarráðuneytisins, enda hafi viðkomandi sveitarstjórn og jarðanefnd samþykkt stofnun býlisins.``

Þetta finnst mér líka vera alveg með ólíkindum að koma þurfi til leyfi allra þessara aðila. Það þarf ekki ef setja á upp smáiðnað í kaupstað t.d.

,,Umsókn um stofnun nýs býlis skal senda landbúnaðarráðuneytinu ásamt upplýsingum um hvers konar búskap fyrirhugað er að stunda á býlinu. Þá skulu fylgja umsókn gögn er sýni að umsækjandi hafi tryggt sér umráðarétt yfir landi og annarri búrekstraraðstöðu.``

Þetta er í sjálfu sér alveg nauðsynlegt því það gengur ekki að fólk sé með bústofn og eigi ekki yfir jarðnæði að ráða. En það er ekkert sem hamlar því að einhver kaupi sér jörð og setjist að með bústofn án þess að hafa nokkuð í höndunum um það að hann geti í sjálfu sér hugsað um hann á réttan hátt. Hann þarf engin leyfi til þess.

Hvað varðar forkaupsréttinn, eins og ég kom að hér áðan, þá finnst mér hann vera alveg ótækur og gengur ekki að menn geti ekki haft viðskipti sín á frjálsan hátt.

Hvað varðar óðalsjarðir, þá fá sveitarstjórnir oft það verkefni að leysa jarðir undan óðalsrétti og t.d. núna varðandi uppkaup í búfjársamningnum þá geta bændur sem búa á óðalsjörðum ekki lagt inn rétt sinn, þeim er hamlað að ganga til viðskipta við ríkið um að kaupa réttinn, því að lög um óðalsjarðir eru með það miklum skilyrðum.

Í 54. gr. um óðalsjarðir í jarðalögunum stendur:

,,Erfðafjárskattur greiðist ekki af ættaróðali eða fylgifé þess við afhendingu óðalsins til erfingja eða viðtakanda.``

Og það er trúlegast þetta sem heldur í þá sem vilja halda jörðum í óðalseign.

Í 55. gr. segir:

,,Jarðeigandi og aðrir geta ánafnað ættaróðali fylgifé, svo sem kvikfénað, verkfæri, húsmuni eða annað, og er það þá fylgifé óðalsins, sem skylt er að halda við og endurnýja. Jarðræktarstyrkur, byggingarstyrkur og aðrir opinberir styrkir, sem veittir eru til umbóta á óðalsjörðum, verða eign óðalsins.``

Í 60. gr. segir:

,,Eigi má gera aðför í ættaróðali eða selja það til lúkningar skuldum öðrum en áhvílandi veðskuldum eða opinberum sköttum, er hvíla á eigninni sjálfri. Sama gildir um fylgifé óðalsins.``

Í 61. gr. segir að ef óðalsbóndi vill fá óðalið leyst frá óðalsákvæðum þá þarf jarðanefnd líka að mæla með því ,,og þeir ættingjar, sem rétt hafa til óðalsins, hafa lýst því yfir skriflega að þeir óski ekki eftir að taka við því til ábúðar. Samþykki landbúnaðarráðherra lausn óðals frá óðalsákvæðum er óðalsréttarhafa heimilt að selja það við því verði og þeim kaupanda er hann kýs, enda hafi þeir sem forkaupsrétt eiga að lögum hafnað honum.``

En þá á það eftir að fara alla þessa leið til baka.

Herra forseti. Hæstv. ráðherra gat þess að þessi lög væru í endurskoðun. Ég held að mál sé að linni og nefndin fari nú að vinna vinnu sína og lögin komi fram eigi síðar en helst í kringum áramótin. Ég tel að þetta séu mikil réttlætismál og veit að landbn. mun fara mjög vel yfir frv.