Jarðalög

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 17:48:58 (1928)

2000-11-16 17:48:58# 126. lþ. 26.6 fundur 73. mál: #A jarðalög# (endurskoðun, ráðstöfun jarða) frv., Flm. SighB
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[17:48]

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins nota tækifærið til að þakka þeim þingmönnum og hæstv. ráðherra sem tekið hafa hér til máls og lýst yfir stuðningi við þetta frv. eða við þá hugsun sem í því felst og þann málflutning sem ég hef viðhaft um þetta.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. Pétri Blöndal að skipulagslög ná orðið til landsins alls. Það er líka rétt hjá hv. þm. að lög um fasteignaviðskipti taka til fasteignaviðskipta. Og það er spurning í mínum huga hvort nokkur ástæða sé til að hafa fleiri lög, hvort ekki sé rétt bara einfaldlega að fella jarðalögin úr gildi, hvort það sé ekki nóg. Ég óttast hins vegar að í þessu langa endurskoðunarferli í landbrn. verði niðurstaðan sú að menn reyni með einhverju móti að halda a.m.k. einhverjum af þeim óréttlátu ákvæðum sem eru í lögunum lifandi áfram. Það er búið að bíða eftir þessu nokkuð lengi og ég áfellist ekki ráðherrann því að mér er alveg kunnugt um að hann hefur áhuga á því að gera breytingu á þessum málum. En ég held að hv. landbn. ætti að taka til alvarlegrar skoðunar að ef ekki koma fram þær breytingar á jarðalögum sem fullnægja þeim sjónarmiðum sem hér hafa komið fram og menn eru sammála um þá afgreiði hún þetta mál einfaldlega með því að setja sólarlagsákvæði á jarðalögin og fella þau úr gildi á einhverjum tilteknum tíma eins og þarna er lagt til að gert verði.

Mér hefði kannski verið nær að flytja slíkt mál fyrir fjórum árum þegar ég lagði það á mig að vinna endurskoðað frv. um ný jarðalög, og leggja einfaldlega til í staðinn að þau yrðu felld úr gildi á einhverjum ákveðnum tíma. Þá væri a.m.k. búið að setja tiltekið stopp við framkvæmdina og landbrn. yrði þá að koma fram með skynsamlegar breytingar á jarðalögum fyrir þann tíma ef það vill varðveita þetta nafn í lagasafninu.