Skipulags- og byggingarlög

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 17:51:21 (1929)

2000-11-16 17:51:21# 126. lþ. 26.7 fundur 190. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulagsgjald, svæðis- og deiliskipulag o.fl.) frv., umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[17:51]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, með síðari breytingum.

Á síðasta þingi mælti ég fyrir frv. til laga um breytingu á skipulags- og byggingarlögum. Þar var gerð tillaga um fjölmargar breytingar á skipulags- og byggingarlögum í ljósi fenginnar reynslu af framkvæmd laganna. Frumvarpið var lagt fram í marsmánuði og náði ekki fram að ganga. Þegar umhvrn. fór yfir þær athugasemdir sem fram komu við frv. þegar það var til meðferðar á Alþingi kom í ljós að þær voru mjög umfangsmiklar margar hverjar og að erfitt yrði að ná samstöðu um nokkur meginatriði í frv. öðruvísi en ráðuneytið og hlutaðeigandi aðilar færu aftur yfir málið.

Með hliðsjón af því hefur verið ákveðið að leggja fram nýtt frv. þar sem eingöngu eru lagðar til nauðsynlegar breytingar og leiðréttingar á lögunum í ljósi nærri þriggja ára reynslu af framkvæmd þeirra en í staðinn verði hafin heildarendurskoðun á lögunum fljótlega eftir áramót með það að markmiði að frv. til heildarlaga verði lagt fram á löggjafarþingi 2002--2003.

Þær breytingar sem hér eru lagðar til eru unnar í umhvrn. í samvinnu við Skipulagsstofnun og að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök iðnaðarins.

Framkvæmd skipulags- og byggingarlaga byggir að miklu leyti á setningu reglugerða og skipta þar tvær mestu máli, annars vegar skipulagsreglugerð og hins vegar byggingarreglugerð en þessar reglugerðir öðluðust gildi í júlí 1998. Við gerð þessara reglugerða, þó sérstaklega byggingarreglugerðar og við framkvæmd hennar, hafa komið í ljós ýmsir agnúar á lögunum sem nauðsynlegt er að sníða af hið fyrsta. Mun ég hér á eftir gera í stuttu máli grein fyrir helstu efnisatriðum sem fram koma í frv.

Í 1. gr. eru lagðar til breytingar á hugtakinu nýtingarhlutfall en nokkur óvissa hefur ríkt um hvernig skilgreina beri hugtakið. Því er lagt til að í stað ,,brúttógólfflatar`` komi ,,brúttóflatarmál`` en það er vel skilgreint í staðlinum ÍST 50:1998 sem samanlagt brúttóflatarmál allra hæða byggingar. Með þessu ætti óvissa um skilning á hugtakinu nýtingarhlutfall að vera úr sögunni.

Í 2. gr., sbr. og 6. og 7. gr. frv., er lagt til að kostnaður við rekstur Skipulagsstofnunar greiðist úr ríkissjóði í stað þess að svokölluðu skipulagsgjaldi er að hluta til ætlað að standa undir rekstri Skipulagsstofnunar. Í staðinn er lagt til í 6. gr. að komið verði á fót sérstökum Skipulagssjóði sem skipulagsgjöld skulu renna til og hlutverk sjóðsins sé að standa straum af hlut ríkisins í kostnaði sveitarfélaga við gerð skipulagsáætlana.

Í 6. gr. er lagt til að Skipulagsstofnun sjái um umsýslu sjóðsins og fari með ákvarðanir um framlag ríkisins til gerðar einstakra skipulagsáætlana sveitarfélaga. Með þessu yrði algjörlega skilið á milli þátttöku ríkisins í skipulagsgerð sveitarfélaga og fjárhagslegs rekstrar Skipulagsstofnunar.

Í 3. gr. er lagt til að ráðherra geti fengið umsögn Skipulagsstofnunar og hlutaðeigandi sveitarstjórnar og veitt undanþágu frá einstökum ákvæðum skipulagsreglugerðar og í 8. gr. að ráðherra geti með sama hætti veitt undanþágu frá byggingarreglugerð. Í vissum tilvikum kann að vera réttlætanlegt að veita undanþágu frá ákvæðum þessara reglugerða og er eðlilegt að ráðherra sem setur reglugerðirnar hafi slíka undanþáguheimild. Þetta er í samræmi við aðra löggjöf á sviði umhverfismála, svo sem lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Í 4. gr. er lagt til að heimilt verði að beita sérstakri svæðisskipulagsmeðferð vegna mannvirkja og áætlana sem ná til fleiri en eins sveitarfélags, svo sem vegna þjóðvega, orkumannvirkja og fjarskiptalína og áætlana um framkvæmdir eða ráðstöfun lands til nýtingar eða verndar. Sífellt færist í vöxt að gerðar séu áætlanir sem ná til fleiri sveitarfélaga. Nauðsynlegt er að hægt sé að beita sérstakri svæðisskipulagsmeðferð í slíkum tilvikum.

Í 5. gr. er lagt til að skýrt verði kveðið á um að sveitarstjórn beri ábyrgð á gerð deiliskipulags. Er það gert til samræmis við framsetningu í 16. gr. laganna um aðalskipulag sem er á ábyrgð sveitarfélags en deiliskipulag er nánari útfærsla á aðalskipulagi. Einnig er lagt til að sérstaklega verði kveðið á um að landeigendum eða framkvæmdaraðilum sé þó heimilt að vinna deiliskipulagstillögur á sinn kostnað og að slíkar tillögur geti viðkomandi aðilar lagt fyrir sveitarstjórn sem þá taki afstöðu til þess hvort hún geri tillöguna að sinni og auglýsi hana þá samkvæmt lögunum. Kostnaður sem félli til eftir að sveitarstjórn er búin að ákveða að gera tillöguna að sinni mundi falla á sveitarstjórn.

Deilt hefur verið um að undanförnu hvort landeigendum eða framkvæmdaraðilum sé heimilt að hafa frumkvæði að deiliskipulagi jafnvel á sinn kostnað en ákvæði þar að lútandi er í skipulagsreglugerð og þykir rétt að tryggja lagalegan grundvöll ákvæðisins.

Í b-lið 5. gr. er lagt til að unnt verði að auglýsa deiliskipulagstillögu samtímis auglýsingu á samsvarandi breytingu á aðalskipulagi. Framkvæmdin hefur verið með þeim hætti að deiliskipulagstillögur hafa verið kynntar samhliða tillögum um breytingar á aðalskipulagi þótt í lögum sé kveðið skýrt á um að deiliskipulag skuli vera í samræmi við aðalskipulag sem strangt til tekið ber að túlka svo að ganga beri frá aðalskipulagsbreytingu að fullu áður en deiliskipulagstillaga er kynnt. Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hefur nýlega kveðið upp úrskurð í þessu efni þar sem fram kemur að gengið skuli frá aðalskipulagsbreytingu að fullu áður en deiliskipulagstillaga er kynnt. Ljóst er að það er framkvæmd skipulagsmála til framdráttar að lögin gefi kost á því að þessar tillögur sé kynntar samtímis. Liggja þá fyrir ítarlegri gögn við kynningu aðalskipulagstillögunnar sem gefa hagsmunaaðilum betri kost á að taka afstöðu til þeirra breytinga sem fyrirhugaðar eru og er það því betur fallið til þess að ná markmiði skipulags- og byggingarlaga um öryggi í skipulags- og byggingarmálum heldur en ef tillögurnar eru kynntar hvor í sínu lagi, jafnvel með margra mánaða millibili. Verði þessi heimild nýtt mun það einnig stytta málsmeðferð um u.þ.b. þrjá mánuði. Þetta breytir þó ekki því að óheimilt yrði að auglýsa gildistöku deiliskipulags í Stjórnartíðindum fyrr en auglýst hefur verið í Stjórnartíðindum gildistaka samsvarandi breytingar á aðalskipulagi.

Í 7. gr. er lögð til nánari útfærsla á þeim hugtökum sem marka þann gjaldstofn sem skipulagsgjald hvílir á. Lagt er til að í staðinn fyrir hugtakið stofnkostnaður verði notað hugtakið heildarkostnaður en með því er átt við allan kostnað við gerð mannvirkis, þar á meðal við verkframkvæmd, hönnun og eftirlit. Ekki þykir rétt að kostnaður við rannsóknir komi inn í gjaldtöku skipulagsgjalds, enda framkvæmdaraðili oft að vinna grunnrannsóknir sem nýtast einnig öðrum, þar á meðal skipulagsyfirvöldum.

Í 9. gr. er lagt til að byggingarvörur á markaði skuli uppfylla ákvæði reglugerða um viðskipti með byggingarvörur nr. 431/1994 sem sett var til þess að uppfylla skyldur sem Ísland undirgekkst með samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Þessi tilskipun hefur að mestu verið óvirk fram að þessu á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem ekki hefur verið unnt að ljúka gerð samhæfðra staðla og tæknisamþykkta innan Evrópusambandsins. Þessar ákvarðanir hafa nú flestar verið teknar af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins á grundvelli samþykkta fastanefndar Evrópusambandsins um byggingarmál. Hins vegar mun útgáfa samhæfðra staðla og tæknisamþykkta taka nokkurn tíma. Því verður enn bið á að ákvæði reglugerðarinnar um viðskipti með byggingarvörur verði að fullu virk varðandi allar byggingarvörur hér á landi og er því gerð tillaga um í ákvæði til bráðabirgða, sbr. c-lið, að þar til slíkar reglur hafa tekið gildi skuli vísa framleiðendum og innflytjendum byggingarvara á þá málsmeðferð sem mun gilda um byggingarvöru á Evrópska efnahagssvæðinu í nánustu framtíð. Mun ég fjalla nánar um það í lok ræðu minnar, virðulegur forseti.

[18:00]

Í 10. gr. er lagt til það nýmæli að skipulagsnefnd sé heimilt að stytta tímabil grenndarkynningar ef þeir sem hagsmuna eiga að gæta hafa lýst skriflega yfir því með áritun á uppdrátt að þeir geri ekki athugasemdir við fyrirhugaða framkvæmd eða breytingu á deiliskipulagi, áður en fjórar vikur eru liðnar. Framkvæmdin yrði að sjálfsögðu í höndum skipulagsnefndar sem mundi óska eftir slíkri áritun fallist hún á að heimila styttra tímabil en fjórar vikur. Í sumum tilvikum er um tiltölulega einföld mál að ræða og fáa hagsmunaaðila og því ástæðulaust að bíða í fjórar vikur. Hins vegar er mikilvægt að hagsmunaaðilar geri sér grein fyrir því hvað þeir eru að samþykkja og því er nauðsynlegt að þeir riti samþykki sitt á aðaluppdrátt vegna byggingarleyfisumsókna en deiliskipulagsuppdrátt vegna óverulegra breytinga á deiliskipulagi.

Í 12. gr. er lagt til að fyrirtæki þar sem starfa löggiltir hönnuðir geti lagt uppdrætti fyrir byggingarnefnd, sem og einstaklingar sem eru löggiltir hönnuðir, að því tilskildu að fyrirtækið hafi fullnægjandi ábyrgðartryggingu. Í dag er eingöngu heimilt að viðurkenna einstaklinga í slíkum tilvikum. Eðlilegt þykir að fyrirtækið þar sem löggiltur hönnuður starfar geti lagt inn uppdrætti fyrir byggingarnefnd, þ.e. löggiltur hönnuður skrifar undir fyrir hönd fyrirtækisins en það taki síðan ábyrgðartryggingu fyrir verkum sem unnin eru í nafni þess og beri ábyrgð á þeim.

Í 13. gr. er lagt til að allar starfsstéttir sem hljóta löggildingu sem hönnuðir þurfi tveggja ára starfsreynslu áður en þeim er heimilt að fara í próf hjá prófnefnd mannvirkjahönnuða. Í 48. gr. gildandi laga eru kröfur um starfsreynslu mismunandi eftir stéttum. Þannig þurfa arkitektar enga starfsreynslu, byggingarfræðingar 20 mánaða en aðrar stéttir þriggja ára starfsreynslu. Lagt er til að allir standi jafnt að vígi hvað varðar kröfur um starfsreynslu og að þeir verði að loknu starfsreynslutímabili að standast próf.

Í 15. gr. er lögð til sú breyting að blikksmíðameisturum, málarameisturum, stálvirkjameisturum og veggfóðrarameisturum verði heimilt að vera byggingarstjórar auk þeirra sem þegar eru taldir upp í 51. gr. Með þessari breytingu er öllum iðnmeisturum sem hafa heimild til að bera ábyrgð á verkþáttum iðnmeistara fyrir byggingarnefnd og hlotið hafa löggildingu heimilt að starfa sem byggingarstjórar.

Einnig er lögð til sú breyting að arkitektar, byggingartæknifræðingar og byggingarfræðingar, verkfræðingar og tæknifræðingar með hliðstæða menntun á byggingarsviði geti orðið byggingarstjórar, en í gildandi lögum er krafist þriggja ára starfsreynslu af þessum aðilum af verk- og byggingarstjórn eða byggingareftirliti til þess að þeir geti orðið byggingarstjórar. Það er engin ástæða til þess að krefjast starfsreynslu af þessum aðilum en ekki iðnmeisturum.

Í 15. gr. er enn fremur lagt til að fyrirtækjum og stofnunum verði veitt heimild til þess að vera byggingarstjórar, starfi þar aðili sem uppfyllir skilyrði til þess að vera byggingarstjóri. Samkvæmt 51. gr. gildandi laga geta eingöngu einstaklingar orðið byggingarstjórar og hefur þetta reynst bagalegt enda taka fyrirtæki oft að sér byggingarstjórn og verða þá að ráða einstaklinga með réttindi til að sinna henni og verða þau að taka lögboðna tryggingu. Eðlilegra er að fyrirtækið sjálft sé ábyrgt fyrir þessu og taki lögboðna ábyrgðartryggingu.

Í 17. gr. er lagt til að sveitarstjórnum verði heimilt að taka gjald fyrir yfirferð hönnunargagna, sbr. 46. gr. laganna en samkvæmt henni er byggingarfulltrúa heimilt, að fengnu samþykki sveitarstjórnar, að fela prófhönnuði eða faggiltri skoðunarstofu yfirferð og samþykkt séruppdrátta og að taka gjald fyrir sem nemur þeim útgjöldum sem yfirferðin hefur í för með sér. Sé um að ræða slíka yfirferð hjá byggingarfulltrúa er ekki heimild til gjaldtöku og er nauðsynlegt að breyta þessu því að annars væri verið að mismuna þeim sem sækja um byggingarleyfi eftir því hvort byggingarfulltrúi, prófhönnuður eða faggilt skoðunarstofa sér um yfirferðina.

Í 19. gr., breytingu á ákvæðum til bráðabirgða, er lagt til að sveitarstjórn skuli heimilt að auglýsa deiliskipulagstillögur samkvæmt 25. gr. laganna þar sem ekki er fyrir hendi aðal- eða svæðisskipulag, að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar. Þetta er í samræmi við framkvæmd 3. tölul. bráðabirgðaákvæða skipulags- og byggingarlaga og áður 2. mgr. 5. gr. skipulagslaga, nr. 19/1964, en rétt þykir að taka af allan vafa um heimild til slíkrar málsmeðferðar. Þar til fyrir liggur aðalskipulag af öllu landi sveitarfélaga, er nauðsynlegt að unnt sé að ganga frá deiliskipulagi af afmörkuðum svæðum í dreifbýli með þessum hætti, þ.e. án þess að fyrir liggi aðal- eða svæðisskipulag.

Enn fremur er í b-lið 19. gr. lagt til að unnt verði að vinna deiliskipulag á grundvelli svæðisskipulags, þar sem ekki liggur fyrir aðalskipulag. Víða í dreifbýli háttar þannig til að fyrir liggur svæðisskipulag en ekki aðalskipulag. Á þessum svæðum hefur verið litið svo á að unnt sé að vinna deiliskipulag á grundvelli svæðisskipulags, en beina lagaheimild fyrir slíku hefur skort. Eingöngu verður unnt að vinna deiliskipulag á grundvelli svæðisskipulags í þeim tilvikum sem viðkomandi svæðisskipulagsáætlun markar stefnu um þá landnotkun sem deiliskipulagið fjallar um. Rétt er að geta þess að sveitarfélög skulu hafa lokið gerð aðalskipulags 1. janúar 2008, sbr. 2. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í gildandi lögum og miðast því þessi heimild einnig við það tímamark.

Í síðari mgr. b-liðar 19. gr. er fjallað um málsmeðferð varðandi byggingarvöru, samanber það sem ég sagði hér á undan. Þar sem enn hefur ekki verið lokið við gerð samhæfðra staðla og tæknisamþykkta sem reglugerð um viðskipti með byggingarvörur vísar í, sbr. 9. gr. frv., er nauðsynlegt að kveða á um tímabundna málsmeðferð en markmiðið er að leitast verði við að þar til reglugerð um viðskipti með byggingarvörur nær til allra byggingarvara fari framleiðendur og innflytjendur byggingarvara að í samræmi við þá málsmeðferð sem gildir um byggingarvörur á Evrópska efnahagssvæðinu. Bráðabirgðaákvæðið tekur mið af þeim kröfum sem fram koma í 9. gr. frv. en út frá því er gengið að vörur hafi vottun eða umsögn um að þær uppfylli kröfur byggingarreglugerða, standist staðla og falli að verklagi og séríslenskum aðstæðum.

Ljóst er að taka verður til hendinni í tengslum við framkvæmd reglugerðar um byggingarvörur á markaði og þarf að leggja í töluverða vinnu þar að lútandi, ekki síst með hliðsjón af stöðlum. Þar til búið er að leysa þetta mál er ljóst að í vissum tilvikum verða byggingaryfirvöld að sætta sig við að fyrir liggi umsagnir um vöruna þar sem erfitt yrði að koma við vottun auk þess sem hún yrði mjög dýr.

Virðulegur forseti. Ég hef hér farið yfir helstu atriði frv. og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhvn.