Verkfall framhaldsskólakennara

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 15:10:31 (1945)

2000-11-20 15:10:31# 126. lþ. 27.91 fundur 123#B verkfall framhaldsskólakennara# (aths. um störf þingsins), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[15:10]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég vildi að maður gæti talað undir þessum lið um störf þingsins. Það er athyglisvert að málshefjendur hér, þrír talsins, skuli sjá sér leik á borði og misnota ákvæði þingskapa til að fjalla um flókna og viðkvæma deilu sem vissulega er hér uppi að því er varðar framhaldsskólakennara.

En þannig er að þegar tveir aðilar deila þá þurfa báðir að leggja sig fram um að ná samningum. Svo hefur ekki verið í þessari deilu. Kjarakröfur kennaranna eru því miður enn þá uppi í skýjunum, rúmlega 70% miðað við tveggja ára samningstíma. Það sjá auðvitað allir og það vita kennararnir líka sjálfir að það er ekki hægt að ganga að þessum kröfum. Það getur núverandi ríkisstjórn ekki gert og það gæti engin ríkisstjórn gert við núverandi aðstæður.

Ég leyfi mér að spyrja hv. fulltrúa Samfylkingarinnar: Mundu þeir treysta sér til að ganga að rúmlega 70% kauphækkunum ef þeir sætu í ríkisstjórn sem þeir svo mjög þrá? Ég þarf ekki að spyrja hv. formann BSRB. Hann mundi auðvitað vilja borga það og þar með öllum félagsmönnum sínum í kjölfarið og öllum landsmönnum.

Það er ekkert gamanmál að reyna að leysa svona deilu. Það verður ekki gert með upphrópunum úr ræðustól Alþingis. Það verður gert við samningaborðið þar sem samninganefndirnar eigast við og reyna að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Af hálfu samninganefndar ríkisins hafa verið lagðar fram ákveðnar hugmyndir. Þær hafa verið hunsaðar af hálfu samninganefndar kennara. Það er þess vegna rétt að lítið hefur miðað. En menn verða að halda áfram við samningaborðið, að tala sig fram að niðurstöðu um þessi mál. En, eins og ég segi, það gerist ekki nema kennararnir komi sér niður úr skýjunum.