Verkfall framhaldsskólakennara

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 15:12:22 (1946)

2000-11-20 15:12:22# 126. lþ. 27.91 fundur 123#B verkfall framhaldsskólakennara# (aths. um störf þingsins), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[15:12]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Því miður er þessi deila flóknari en svo að við getum leyst hana í umræðum á Alþingi. Sama hve oft menn nota þingsköpin eða misnota til þess að ræða þessi mál, hún leysist ekki hér á þessum stað. Hún leysist við samningaborðið. Við sem höfum fylgst með framvindu mála höfum að sjálfsögðu áhyggjur af því þegar svo er komið eftir tvær vikur að kennarar halda enn við rúmlega 70% launakröfu og telja að hvað eina sem sagt er til þess að koma hreyfingu á málið sé frekar skref aftur á bak en til lausnar.

Ég fullyrði að þær hugmyndir sem menntmrn. hefur komið með inn í þessar viðræður hefðu getað stuðlað að lausn og breyttum aðstæðum í viðræðunum ef kennarar hefðu ekki tekið þeim með því hugarfari sem gert hefur verið. Það vekur mér ekki bjartsýni um lausn þessarar deilu hvernig kennarar bregðast við þeim hugmyndum sem kynntar hafa verið. Þeir halda fast við þá kröfu sína að launahækkun verði yfir 70% á tveimur árum.

Ég spyr eins og hæstv. fjmrh.: Hvaða þingmaður, við núverandi aðstæður í efnahagslífi íslensku þjóðarinnar, telur sig í stöðu til að fallast á slíkar kröfur? Hvaða þingmaður getur staðið hér upp og sagt að skynsamlegasta niðurstaðan á þessari deilu sé að fallast einhliða á kröfur kennara, taka málin út úr því samningaferli sem nú er í stað þess að leitast við að ná niðurstöðu í samningunum, eins og nauðsynlegt er og eins og þær leikreglur mæla fyrir um sem við störfum eftir, jafnt ríkisvaldið sem kennarar?