Verkfall framhaldsskólakennara

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 15:23:04 (1951)

2000-11-20 15:23:04# 126. lþ. 27.91 fundur 123#B verkfall framhaldsskólakennara# (aths. um störf þingsins), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[15:23]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Kennaradeilur undanfarinna ára eru örugglega öllum hv. þm. í fersku minni. Örugglega þekkja allir þingmenn til þess skaða sem slíkar deilur hafa valdið fyrir nemendur, fyrir skólastarfið og fyrir fjölskyldurnar í landinu. Samt sem áður er það þannig að í dag standa menn frammi fyrir því að margra missira vitneskja um að það stefndi í þetta verkfall sem nú er skollið á hefur ekki verið notuð til þess að leysa málið. Ásakanir um að nú sé ekki vilji hjá kennurum fyrir því að ganga til samninga við ríkið eru þess vegna hjákátlegar, einfaldlega af því að hér er orðið ljóst að tíminn var ekki notaður. Fyrir örstuttu kom í ljós að menn stóðu í sömu sporum og þeir gerðu áður en menn vissu að í þetta stefndi.

Menn tala um að hér sé verið að misnota þingsköpin. Gott og vel. Menn geta kallað það því nafni. Hér hefur verið rætt um störf þingsins af minna tilefni en þessu vil ég þó meina. Ég tel enga ástæðu til þess að menn séu feimnir að ræða þau mál sem efst eru á baugi hverju sinni undir þessum lið ef ekki fæst tækifæri til þess með öðrum hætti. Það verður að segjast eins og er að það er ekki að heyra á þeim umræðum sem hér hafa orðið af hálfu hæstvirtra ráðherra að verið sé á einhverjum sérstökum samningabuxum. Mér finnst miklu fremur hægt að sjá að þar eru menn með ásakanir á lofti og þar er ekki verið að leiða fram þá niðurstöðu sem þarf að nást fram í samningum og hún verður að koma innan mjög skamms tíma svo ekki verði þetta óbætanlega tjón sem allir hafa séð að hefur orðið í þeim verkföllum sem hafa verið á undanförnum árum.