Atvinnumál landsbyggðar og byggðastefna stjórnvalda

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 15:27:28 (1952)

2000-11-20 15:27:28# 126. lþ. 27.94 fundur 126#B atvinnumál landsbyggðar og byggðastefna stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), Flm. KLM (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[15:27]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Í frétt frá Þjóðhagsstofnun nýlega var greint frá könnun á atvinnuástandi í september sl. Þar kemur fram að atvinnurekendur á landsbyggðinni vilja helst fækka starfsmönnum um tæplega 400 manns með nokkrum undantekningum þó. Þessi fækkun samsvarar liðlega 1% af vinnuafli á landsbyggðinni og er eftirspurn eftir vinnuafli þar í sögulegu lágmarki og fer minnkandi í flestum atvinnugreinum. Samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar hefur eftirspurn eftir vinnuafli á landsbyggðinni ekki mælst minni í september frá því að mælingar hófust fyrir 15 árum.

Á höfuðborgarsvæðinu er eftirspurn eftir starfsmönnum hins vegar í sögulegu hámarki. Þar vantar liðlega þúsund manns til starfa sem er um 1,6% af vinnuafli og áætlað er að eftirspurn eftir vinnuafli á höfuðborgarsvæðinu vaxi um 3% næstu 12 mánuði.

Þetta er ástæða þess, herra forseti, að ég kveð mér hljóðs utan dagskrár til að ræða um ástand og horfur í atvinnumálum landsbyggðarinnar og byggðastefnu stjórnvalda um þessar mundir. Áframhaldandi byggðaröskun og niðurstaða áðurnefndrar könnunar Þjóðhagsstofnunar eru alvarleg tíðindi sem rétt er að taka til umræðu á Alþingi. Stjórnarflokkarnir hafa sett sér háleit markmið til að sporna gegn byggðaröskun en lítið hefur orðið um efndir þeirra markmiða.

Spyrja má eftirfarandi spurninga:

Hefur byggðaáætlun Alþingis virkað hingað til eða hefur byggðaáætlun kannski aldrei komið til framkvæmda? Rétt er að taka fram að umræður og úttektir á vanda landsbyggðarinnar skortir ekki. Það sem skortir á er að þeim úttektum og umræðum verði fylgt eftir með beinum aðgerðum og hugmyndum verði hrint í framkvæmd. Það hefur ekki verið gert. Íbúar landsbyggðarinnar hafa fengið nægan skammt af loforðum og háleitum markmiðum í ýmsum áætlunum en það sem fólkið bíður hins vegar eftir og það sem sárvantar nú eru markvissar úrbætur til þess að sporna gegn áframhaldandi byggðaröskun.

Kröftugt átak í atvinnumálum landsbyggðarinnar er langþýðingarmest um þessar mundir og þolir enga bið. Við þurfum svæðisbundið stöðumat á ástandi og horfum í atvinnumálum fjölda byggðarlaga úti á landi og vil ég hvetja hæstv. ráðherra til að beita sér fyrir slíkri úttekt. Við þurfum tafarlausar aðgerðir til að efla atvinnustarfsemi á landsbyggðinni og sóknaraðgerðir fyrir nýsköpun í atvinnumálum. Nýsköpun í atvinnumálum landsbyggðarinnar hefur aldrei verið jafnmikilvæg og einmitt nú. Þess vegna er mikilvægasta verkefni stjórnvalda og byggðastefna nútímans að stuðla að stofnun nýrra atvinnutækifæra og skapa aðstæður til að þau nái að festa rætur. Auk þess að efla þá starfsemi sem nú er fyrir hendi.

[15:30]

Herra forseti. Ýmsar nýlegar ákvarðanir ríkisstjórnarflokkanna og stefna þeirra eru sérstaklega íþyngjandi fyrir íbúa og atvinnurekstur landsbyggðarinnar. Nægir þar að nefna breytingar á þungaskatti sem hafa haft í för með sér 30--40% hækkun flutningsgjalda frá árinu 1998 hjá flutningafyrirtækjum sem keyra mest og lengst eða um 100 þús. km á ári. Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka mun hafa í för með sér stórfækkun starfa á landsbyggðinni, sérstaklega hjá konum. Einnig má nefna hávaxtastefnu stjórnvalda og gengislækkun krónunnar sem íþyngir öllum atvinnurekstri stórlega. Svo má líka nefna fjölmarga sérstaka landsbyggðarskatta hæstv. ríkisstjórnar.

Herra forseti. Í samanburði okkar við hin Norðurlöndin kemur fram sú staðreynd að vandinn í byggðamálum er óvíða meiri en á Íslandi en aðgerðir eru þó á fæstum stöðum minni en einmitt hér á landi. Það er líka staðreynd að við Íslendingar verjum minnstu fé til byggðaþróunar á Norðurlöndum. Þess má einnig geta að framlag okkar Íslendinga er að mestu lánsfé og það dýrt lánsfé miðað við vexti í dag. En á hinum Norðurlöndum er um stofnstyrki og skattaívilnanir til atvinnuppbyggingar að ræða á landsbyggðinni.

Þá atvinnuháttabreytingu sem átt hefur sér stað á Íslandi undanfarna tvo áratugi má rekja hingað til Alþingis og á ég þá sérstaklega við stefnuna í sjávarútvegsmálum. Í samantekt Stefáns Ólafssonar prófessors um orsakir búferlaflutninga segir m.a., með leyfi forseta: