Atvinnumál landsbyggðar og byggðastefna stjórnvalda

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 15:42:36 (1956)

2000-11-20 15:42:36# 126. lþ. 27.94 fundur 126#B atvinnumál landsbyggðar og byggðastefna stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[15:42]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér ræðum við atvinnuástand á landsbyggðinni og byggðastefnu. Ég hef sagt það nokkrum sinnum í þessum ræðustól á þessu hausti að hina raunverulegu byggðastefnu sem mér finnst vera í framkvæmd hafi ég kallað eyðibyggðastefnu og það ekki að ástæðulausu. Það er ekki hægt að halda því fram að landsbyggðarfólk hafi ekki varað við því hvaða afleiðingar stefnan sem á að halda landsbyggðinni í byggð, sjávarútvegsstefnan sem á að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu, hafi haft og muni hafa á landsbyggðina.

Árið 1989 var haldinn sérstakur fundur á Ísafirði um atvinnumál sem Fjórðungssamband Vestfjarða gekkst fyrir og þá var gefin út um það þessi skýrsla hér. Þar kom fram hvaða þróun menn þóttust sjá fyrir varðandi kvótakerfið og aflaheimildir. Og þegar menn voru að velta upp þeirri stöðu sem þeir mundu lenda í þá spurðu þeir auðvitað: Hvað kemur í staðinn fyrir 80% tekjur af sjávarútvegi á Vestfjörðum? Því að þorskur, grálúða og rækja gáfu Vestfirðingum 80% af þeim tekjum sem komu inn af sjávarútvegi á Vestfjörðum. Menn spurðu eðlilega hvað kæmi í staðinn horfandi á að búið var að búa til meðalkvóta í grálúðu og færa hann út um allt land. Þorskstofninn var frekar á niðurleið. Og menn hafa síðan upplifað ástandið. Ég spyr auðvitað ráðherrann sem hér talaði áðan, hæstv. viðskrh.: Hér er verið að tala um hið nýja hagkerfi. Hvað á að koma í staðinn fyrir tekjur á landsbyggðinni þar sem byggðin hefur fyrst og fremst blómstrað vegna fiskveiða? Hvað ætla menn að hrista fram úr erminni? Það hefur ekki tekist með þessari byggðaáætlun og ég spái því að hið nýja hagkerfi sem á að taka við á landsbyggðinni muni ekki fæðast á næstu þremur fjórum árum hversu margar skýrslur sem menn skrifa um það mál.