Atvinnumál landsbyggðar og byggðastefna stjórnvalda

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 15:46:54 (1958)

2000-11-20 15:46:54# 126. lþ. 27.94 fundur 126#B atvinnumál landsbyggðar og byggðastefna stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[15:46]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Við leysum ekki byggðavandamál með utandagskrárumræðu eins og þessari. Við landsbyggðarmenn eigum það til að tala okkur niður í þunglyndi og gera allt of lítið úr kostum þess að búa úti á landi. Ég er einn þeirra sem fyrir 10 árum fluttu úr höfuðborginni út á landsbyggðina þannig að ég hef ágætisreynslu af því. Við gleymum oft kostum þess að búa úti á landsbyggðinni, gleymum kostum þess að ala þar upp börn, þar er oft stutt í leikskóla, skóla, tómstundaiðju og ýmiss konar starf sem er mun léttara að sækja úti á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.

Að sjálfsögðu verðum við að skapa spennandi atvinnutækifæri úti á landsbyggðinni til að enn þá betra verði að búa þar. Ég varð ekki var við miklar lausnir í ræðu hv. þm. Kristjáns Möllers þegar hann fjallaði um málefni landsbyggðarinnar. Ég heyrði hann ekki tala um lausnir í þessum efnum, sem er auðvitað mjög nauðsynlegt.

Mér þótti athyglisvert að heyra þegar hæstv. iðnrh. fjallaði um að í deiglunni væri að setja á ákveðin þróunarsetur. Það er sjálfsagt að tengja þessi þróunarsetur við háskólana á landsbyggðinni og atvinnuþróunarfélögin, vegna þess að atvinnuþróunarfélögin á landsbyggðinni hafa unnið mjög gott starf. Það þarf auðvitað að útvega þeim meiri peninga til þess þau geti gert enn þá meira.

Mér fannst líka mjög athyglisvert að hlusta á rektor Menntaskólans á Akureyri þegar hann var að tala um háskólamenntun. Þar kom í ljós að 80% þeirra sem sækja Háskólann á Akureyri fara til starfa úti á landsbyggðinni en einungis 20% af viðskiptafræðingum sem útskrifast úr Háskóla Íslands, 15--20% fara að vinna úti á landsbyggðinni. Allir aðrir vinna hér á höfuðborgarsvæðinu.

Þarna eru atriði sem við þurfum að leggja mikla áherslu á. Við þurfum að byggja upp betri menntun á landsbyggðinni, þannig getum við haldið í það unga fólk sem er að mennta sig.