Atvinnumál landsbyggðar og byggðastefna stjórnvalda

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 15:53:34 (1961)

2000-11-20 15:53:34# 126. lþ. 27.94 fundur 126#B atvinnumál landsbyggðar og byggðastefna stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), GE
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[15:53]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Ég hef mál mitt á að lýsa yfir skelfingu yfir stöðunni í samningamálum framhaldsskólakennara og ríkisins og horfunum fyrir framhaldsskólanema af þeim sökum.

Með leyfi forseta, þá vitna ég í ræðu Þorsteins Gunnarssonar, rektors Háskólans á Akureyri, um byggðamál, án þess að slíta á nokkurn hátt úr sambandi við innihald þeirrar ræðu. Þar segir:

,,Þvert gegn því sem stjórnvöld halda fram hefur byggðastefna sú sem hér hefur verið rekin á undanförnum árum fyrst og fremst miðað að því að efla höfuðborgarsvæðið á kostnað landsbyggðarinnar.``

Og síðar í sömu ræðu: ,,Stjórnvöld hafa stýrt nær allri erlendri fjárfestingu og uppbyggingu þekkingar- og upplýsingagreina inn á höfuðborgarsvæðið og er því ekki að undra að byggðaröskunin verði svo mikil hér á landi.``

Þetta er ömurlegur vitnisburður sem ríkisstjórnin og forusta forsrn. fær fyrir byggðastefnu undanfarinna ára. Það er ekki furða að málaflokkurinn sé fluttur þaðan. Í byggðamálum ríkisstjórnar hæstv. forsrh. ber allt að sama brunni. Í stað öflugra skipaútgerða á Vestfjörðum eru aðeins eftir smábátar og smáútgerðir. Afleiðingarnar hafa verið nær stöðugur byggðaflótti og fólk hefur nánast skilið eftir lykla af húsum sínum hjá bönkunum. Nú er ætlunin að fækka bönkum og þar með starfsfólki.

Árangur ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, hæstv. forsrh., er: Skortur á fólki til starfa á Reykjavíkursvæðinu og enn meiri fækkun starfa á landsbyggðinni, samkvæmt nýrri könnun.

Herra forseti. Það síðasta sem ég heyrði um atvinnumál er að nú er hugmyndin að fækka stjórnunar-, skrifstofu- og viðhaldsstörfum hjá Rafmagnsveitu ríkisins á landsbyggðinni. Ég spyr því hæstv. byggðamálaráðherra: Er þetta rétt? Ég vil gefa hæstv. ráðherra færi á að neita því.