Atvinnumál landsbyggðar og byggðastefna stjórnvalda

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 15:56:00 (1962)

2000-11-20 15:56:00# 126. lþ. 27.94 fundur 126#B atvinnumál landsbyggðar og byggðastefna stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), Flm. KLM
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[15:56]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram þó hún sé stutt, standi aðeins í hálftíma. Það er kannski lýsandi fyrir byggðamálaumræðu á hinu háa Alþingi. Hún er yfirleitt aldrei lengri og ekki hægt að fara í gegnum málið.

Ég fagna hins vegar því sem hæstv. ráðherra hefur boðað, að ræða hér sérstaklega skýrslu um byggðamál og bíð spenntur eftir að það verði.

En það eru nokkur atriði sem ég vil hnykkja á. Ég vil t.d. ítreka spurningu sem ég lagði fyrir hæstv. ráðherra: Telur hæstv. ráðherra líklegt að hann muni beita sér fyrir því að farið verði í svæðisbundið stöðumat? Það liggur fyrir að ástandið er mjög misjafnt frá einum stað til annars, þ.e. staðan í byggðamálum. Á mörgum stöðum er ástandið sem betur fer að skána og er nokkuð gott. Sem dæmi má nefna Akureyri sem m.a. er að byggjast upp sem háskólabær og nefna mætti fleiri staði.

En svo eru aðrir staðir, jafnvel í næsta nágrenni við Akureyri: Dalvík, Hrísey og Ólafsfjörður sem skoða þyrfti betur og finna lausnir í málum þeirra.

Nokkur orð um fé til byggðamála, sem hæstv. ráðherra fjallaði um. Hafa menn gert sér grein fyrir því að fjárframlög til gærukaupa, flutnings og geymslu, í búvörusamningi eru töluvert hærri en heildarframlag til Byggðastofnunar, þ.e. um 460 millj. til þess málaflokks í búvörusamningnum? Hafa menn gert sér grein fyrir því? Það er miklu lægri upphæð sem fer til byggðamála almennt.

Aðeins varðandi orð hæstv. þm. Ísólfs Gylfa Pálmasonar um að við séum að tala okkur niður í þunglyndi. Hér er enginn með neitt þunglyndi út af þessu máli en menn hafa vaxandi áhyggjur. Þær áhyggjur hafa framsóknarmenn því miður ekki, sem kemur best fram í orðum hæstv. félmrh. í svæðisútvarpi Norðurlands ekki alls fyrir löngu. Þar sagði hann að Framsfl. hefði gleymt landsbyggðinni í markaðssetningu sinni á mölinni hér í Reykjavík. Þetta eru orð að sönnu.

Herra forseti. Ég vil enn á ný þakka hæstv. iðnrh. fyrir þátttöku hennar í umræðunni og þeim þingmönnum sem hér hafa talað. Ég ítreka að það verður spennandi að ræða skýrslu hæstv. iðnrh. um byggðamál.