Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 16:38:04 (1967)

2000-11-20 16:38:04# 126. lþ. 27.5 fundur 197. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (barnabætur) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[16:38]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Það sem við höfum hingað til kallað barnabætur eru í rauninni ómegðarbætur vegna þess að það eru ekki öll börn sem fá það til framfærslu sinnar. Þau börn sem eiga foreldra með háar tekjur fá ekki barnabætur til framfærslu sinnar og þau börn sem eiga foreldra með miklar eignir fá ekki heldur barnabætur. Við erum því að tala um styrk til þeirra fjölskyldna sem hafa mikla ómegð sem kallað er, tekjulágt fólk og eignalítið fólk. Frá sjónarhóli sumra er réttlátt mál að borga ekki óskertar barnabætur til hátekjufólks og stóreignafólks.

Í reynd er þetta líka tekjuskattur, aukatekjuskattur á foreldra barna. Ef foreldrar, sem eru t.d. með þrjú börn, auka tekjur sínar um 10 þúsund kr. borga þau aukatekjuskatt í formi lægri barnabóta upp á 1.100 kr., sem aðrir barnlausir skattgreiðendur með sömu tekjur greiða ekki. Þetta hefur líka verið aukaeignarskattur vegna þess að þeir foreldrar barna sem eiga eignir fá lægri barnabætur sem nemur 1,5% af eign umfram fríeignarmark þannig að það er aukaeignarskattur á foreldra barna sem aðrir barnlausir skattgreiðendur greiða ekki.

Herra forseti. Nokkuð hefur verið um það fólk hefur haft samband við mig á netinu og spurt: Hvers vegna í ósköpunum er verið að borga barnabætur? Hvað kemur okkur barnlausa fólkinu við kjör þeirra sem eru að hrúga niður börnum, eins og einn kallaði það, og geta ekki framfært þau? Hann höfðar til þess að menn ættu að vera skynsamir og fara ekki að eiga börn fyrr en þeir hefðu efni á því.

Þetta er viðhorf sem mér finnst vera að aukast og mér finnst það miður vegna þess að barnabætur og alls konar stuðningur við barnafólk er til þess að styðja þær fjölskyldur sem taka á sig, fyrir framtíðarvelferðarkerfið að ala upp börn, sem kostar mjög mikið, umfram þá sem koma sér undan því með því að vera barnlausir og hafa það miklu betra. Þetta er tilraun til að jafna lífskjör þessara hópa tveggja, þeirra sem ala upp börn og þeirra sem ala ekki upp börn. Ég tel algjörlega réttlætanlegt að ríkið komi inn í þetta dæmi til þess að stuðla að barneignum vegna þess að velferðarkerfi framtíðarinnar byggir á engu öðru en þeim sem þá vinna, þ.e. núverandi börnum. Við getum þóst spara eins og við viljum í einhverjum sjóðum en ef enginn er til þess að vinna á þeim tíma þegar fólk verður veikt og gamalt er allur þessi sparnaður einskis virði því hann er ekkert annað en ávísun á vinnu.

Hér er sem sagt verið að hverfa frá því að hafa barnabætur tekjutengdar og eignatengdar. Það er algjörlega horfið frá því að hafa þær eignatengdar enda þykir sumum nóg um að leggja viðbótareignarskatt á foreldra barna til viðbótar við þann háa eignarskatt sem við borgum í dag, sem er með því hæsta sem gerist í heiminum. Það er vel. Auk þess er minnkuð sú mikla tekjutenging sem hefur verið sem eins og ég gat um áðan er ekkert annað en skattur á tekjur foreldra umfram aðra skattgreiðendur. Það er líka vel. En þetta er afskaplega dýrt og þess vegna hafa menn ekki getað stigið stærri skref en hér eru stigin. En þetta minnkar jaðarskattana úr því að vera 57%, þ.e. ef maður tekur barnabætur með þremur börnum, vaxtabætur og staðgreiðsluna, niður í 55%. Skref í rétta átt.

Herra forseti. Við höfum barnabætur mjög víða í öllu velferðarkerfi okkar og það gleymist alltaf í umræðunni. Menn horfa alltaf á eina skúffu í þeirri kommóðu sem er velferðarkerfið og líta ekki í allar skúffurnar. Ég ætla að nefna það rétt aðeins að við erum með barnabætur í almannatryggingakerfinu fyrir öryrkja og fyrir börn þeirra sem hafa fallið frá og líka börn ellilífeyrisþega. Við erum með barnalífeyri hjá lífeyrissjóðunum, við erum með barnabætur í húsaleigukerfinu, nokkuð umtalsverðar, og við erum með lög um meðlag og við erum með mæðra- og feðralaun fyrir einstæða foreldra sem eiga tvö eða fleiri börn. Svo erum við með aukalánveitingar í LÍN. Þegar þetta allt fer saman, t.d. í LÍN, getur þetta þýtt það að barn getur fengið milli 60 og 70 þús. kr. til ráðstöfunar á mánuði. Það held ég að sé ekki það sem fólk almennt getur veitt sínum börnum sem vinnur fyrir venjulegum launum á vinnumarkaði.

Ég skora á hv. nefnd að um leið og menn taka á þessu máli og ræða það að dæmið verði skoðað allt í heild sinni og allar skúffurnar skoðaðar og athugað hvort einhvers staðar megi þá ekki lækka bætur á móti til að koma í veg fyrir þá oftryggingu sem ég hef áður nefnt.