Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 17:55:56 (1976)

2000-11-20 17:55:56# 126. lþ. 27.6 fundur 27. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[17:55]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að koma inn á frv. í heild sinni í þessu andsvari. Það ræði ég á eftir. En hv. þm. sagði að hún teldi að sama regla ætti að gilda um allar tekjur. Ég get hjartanlega tekið undir það. En þá á að sjálfsögðu að tala um raunvexti. Þegar talað er um vexti þá tala menn um raunvexti. Og að sjálfsögðu tekur maður vaxtagjöld inn í það. Og þegar maður talar um söluhagnað af hlutabréfum þá tekur maður að sjálfsögðu sölutap af hlutabréfum líka með í reikninginn. Og þegar maður talar um arð þá tekur maður sömuleiðis sölutap inn í. Ég hygg að fjöldi manna á Íslandi yrði tekjuskattsfrjáls í áratugi ef það er allt saman tekið með vegna þess að fjármagnstekjur eru ekki eins og launatekjur beint í vasann. Það er áhætta í arði og söluhagnaði, geysileg áhætta.

Geysilegur fjöldi manna er að tapa miklu fé í hlutabréfaviðskiptum, bara þessa dagana, og það geta þeir ekki dregið frá sínum tekjuskatti. Nú eru bankarnir að borga kannski 5% vexti í 5% verðbólgu. Það situr ekkert eftir. En sparifjáreigendur borga samt hálft prósent í fjármagnstekjuskatt. Þeir vildu gjarnan borga bara skatt af raunvöxtunum sem eru þá 0%. Svo er að sjálfsögðu fullt af fólki á Íslandi sem borgar mikla vexti af sínum skuldum og það ætti að sjálfsögðu að dragast frá tekjuskatti þeirra. Þannig að ég hygg, ef hv. þm. skoðar þetta allt í heild sinni, að þetta geti bara verið ágætt fyrir fjármagnseigendur.