Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 17:58:33 (1978)

2000-11-20 17:58:33# 126. lþ. 27.6 fundur 27. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[17:58]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þessi sjónarmið komu öll fram í svokallaðri fjármagnstekjuskattanefnd sem ég átti sæti í og ég átti í eilífum barningi við vinstri mennina í þeirri nefnd um að fá þessi sjónarmið fram. Það fékkst ekki. Þessi sjónarmið hafa líka verið kynnt á hinu háa Alþingi þannig að þetta er þekkt. Þetta er líka þekkt í efh.- og viðskn. þannig að ég þarf ekkert að sitja þar frekar til þess að koma þessum sjónarmiðum að.

Ég hygg að í dag séu raunvextir í bankakerfinu sem sparifjáreigendur eru að fá 0%. Ég hugsa það í þeirri verðbólgu sem við sitjum uppi með. Og menn verða að borga af nafnvöxtum fjármagnstekjuskatt. Ég hugsa því að ríkið muni nú ekki ríða feitum hesti frá þeirri breytingu ef af yrði. (Gripið fram í.)

Varðandi tapað hlutafé. Menn hafa nú aldeilis tapað hlutafé út um allt land í fiskeldisfyrirtækjum og öðru slíku og þeim þætti kannski dágott að geta dregið það tap frá svo sem eins og í tíu ár og verið skattlausir á meðan.