Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 18:23:45 (1988)

2000-11-20 18:23:45# 126. lþ. 27.6 fundur 27. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[18:23]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég held að óhjákvæmilegt sé þegar við ræðum þetta frv., sem flutt er af nokkrum þingmönnum Samfylkingarinnar undir forustu hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur, að inn í það blandist það frv. sem er næst á dagskrá og fjallar m.a. um frestun á söluhagnaði, þó það séu ýmis önnur atriði sem hæstv. ráðherra er að beita sér fyrir í því frv.

Eins og fram hefur komið í umræðu um þetta frv. er grundvallarmunur á þessum tveimur frv. Annars vegar er um að ræða að í frv. hæstv. fjmrh. virðist aðeins eiga að afnema heimild til skattfrestunar hjá einstaklingum meðan lögaðilar eiga áfram að hafa allt sitt á þurru. Það er sá þáttur og þessi mismunur sem ég óttast nokkuð og ég tel að hæstv. fjmrh. hljóti að ræða það síðar þegar þetta mál verður á dagskrá, annaðhvort þetta eða hans eigið frv.

Það er alveg ljóst að sú breyting sem gerð var á tekjuskattslögunum 1996 sem heimilaði frestun á skattgreiðslu á söluhagnaði er vissulega lögleg, en hún er siðlaus. Því hér er ekkert annað á ferðinni að mínu viti en undankomuleið á eðlilegum skattgreiðslum til samfélagsins.

Mig undrar raunverulega málflutningur hæstv. fjmrh. af því mér finnst meira og minna að honum finnist þetta vera í rauninni allt í lagi sem gerðist 1996, sem ég lít á sem mistök sem gerð voru á hv. Alþingi 1996. Ég tel að eitt stærsta verkefni þessa þings sé að loka þessari löglegu en siðlausu undankomuleið frá skatti, eins og lagt er til í frv. þingmanna Samfylkingarinnar.

Ég spyr alveg eins og hv. framsögumaður gerði: Er hugsanlegt að verið sé að búa til nýja leið fyrir einstaklinga til að komast hjá skattgreiðslum vegna söluhagnaðar með því að skilja eftir að lögaðilar geti áfram frestað skattlagningu á söluhagnaði?

Við vitum að sú þróun hefur orðið að veruleg aukning er t.d. á einkahlutafélögum. Einkahlutafélögum hefur fjölgað gífurlega, eða um 64% á tæpum fjórum árum, þau voru um 8.700 í árslok 1996 en eru komin í 13.700 í október árið 2000. Með því að skilja þetta eftir varðandi lögaðilana, er þá verið að opna einhverja leið fyrir þá sem eiga mikið af hlutabréfum að halda áfram slíkri frestun á söluhagnaði eins og við höfum búið við á undanförnum fjórum árum?

Mér finnst afar skrýtið að ekki sé hægt að upplýsa það nema með mikilli vinnu hjá ríkisskattstjóraembættinu hve mikil þessi frestun á söluhagnaði hefur verið á þessum þremur eða fjórum árum. Ég minni á að í septembermánuði sl. spurðist þingflokkur Samfylkingarinnar formlega fyrir um það hjá ríkisskattstjóraembættinu hvað þessi frestun á söluhagnaði hefði verið mikil í gegnum árin og mér er kunnugt um að ríkisskattstjóraembættið hefur verið að vinna að því á undanförnum vikum, eða sennilega frá því við spurðumst fyrir um það, a.m.k. síðan þá, að skoða þennan þátt.

Ég spyr því hæstv. fjmrh.: Liggur eitthvað fyrir um það núna á þessum degi þegar við erum að ræða þetta frv. hve mikil slík frestun hefur verið á umliðnum fjórum árum?

Ég er með fyrir fram mig hver hagnaður af sölu hlutabréfa hefur verið. Það hefur komið fram á skattframtölum alveg frá árinu 1996. Þar er um gífurlega stórar fjárhæðir að ræða og gífurlega miklar breytingar. Söluhagnaður var á skattframtölum 493 millj. árið 1996, en er í bráðabirgðayfirliti sem ég hef undir höndum frá ríkisskattstjóra 7,5 milljarðar á árinu 2000. Við erum því að tala um gífurlega aukningu þarna.

Það sem mér finnst athyglisvert þegar maður skoðar hagnað af sölu hlutabréfa, sem er þá undir þessum mörkum sem greitt er 10% af áður en kemur að tekjuskattsálaginu, þá eru það á síðasta ári 3,5 milljarðar sem eykst í rúma 6,6 milljarða á yfirstandandi ári. Þannig að aukningin á söluhagnaði milli ára þar sem söluhagnaður er undir þessum tilskildu mörkum er 89,5% aukning.

Það sem vekur líka athygli mína er að þeir sem fengu eða voru með þennan hagnað á sölu hlutabréfa á síðasta ári voru 12.900 framteljendur sem töldu fram söluhagnað upp á 3,6 milljarða undir þessum tilskildu mörkum, en á sama tíma og hagnaðurinn tvöfaldast í krónum talið upp í 7,5 milljarða, þá fækkar þeim um 4.300 sem telja fram þennan söluhagnað, voru sem sagt á árinu 1999 12.900 en fækkar niður í 8.600. Það eru því færri einstaklingar með meiri söluhagnað, virðist vera, milli ára samkvæmt skattframtölum sem sýna söluhagnað.

[18:30]

Það er alveg rétt að samkvæmt þessu yfirliti eins og hæstv. fjmrh. benti á þá eru ekki margir sem sýna söluhagnað á skattframtölum umfram þetta hámark sem leyfilegt er með 10% fjármagnstekjuskatti. Þeir voru 19 árið 1997, 33 1998, 21 1999 og 41 á þessu ári. Engu að síður hefur söluhagnaður hlutabréfa umfram hámark, sem fram kemur á skattframtölum, verið á þessum fjórum árum um 700 millj. kr. og jókst verulega milli áranna 1997 og 1998, úr 31 milljón í 259, lækkar síðan aðeins milli áranna 1998 og 1999 og síðan lækkar það á milli síðasta árs og þessa árs úr 241 milljón í 181 milljón. Við erum engu að síður að tala um nokkrar skatttekjur sem ríkið hefur haft af söluhagnaði hlutabréfa umfram hámarkið. Það er einmitt það sem Framsfl. hefur verið að mótmæla, að verið sé að lækka skatthlutfallið af söluhagnaði hlutabréfa umfram þetta hámark sem verið hefur sama og tekjuskattshlutfallið og það er fyrirvarinn sem Framsfl. hefur greinilega gert á þingflokksfundi sínum við þetta mál. Það er ekki nægilega gott að enginn framsóknarþingmaður sé í húsinu til að fjalla um þennan fyrirvara utan hæstv. forseta sem hefur bundið sig í forsetastól og getur þá ekki tekið þátt í umræðunni.

Mér finnst þessar tölur segja töluverða sögu um það sem hefur verið að gerast frá því að lagabreytingin átti sér stað. Það er umhugsunarvirði miðað við þingsköp og þinglega meðferð mála að svona stórt mál skuli hafa komið inn við 2. umr. málsins eða hvort það var 3., mér er sama hvort það var 2. eða 3. umr., sem haft hefur þær miklu afleiðingar sem við erum að tala um þar sem tilgangurinn var þveröfugur við það markmið sem menn héldu að þeir væru að ná með þessari breytingu og sem stuðlað hefur að mikilli fjármagnstilfærslu og fjárflótta úr landi. Það er umhugsunarvirði þegar verið er að skjóta inn svona stórum brtt. við aðra umferð á frv. þar sem ekkert er verið að fjalla um þá breytingu sem er síðan gerð í meðferð þingnefndar við málið.

Mér finnst það athyglisvert sem hv. frsm. þessa frv. og reyndar sem fram kom í Morgunblaðinu núna á þessari helgi þar sem Morgunblaðið ræðir nokkuð um þennan söluhagnað og hvaða áhrif þetta hefur haft. Ég gat ekki séð betur á því sem fram kom í Morgunblaðinu en að þeir telji að það sé eðlilegt að um leið og þetta frv. er rætt hljóti að vakna umræðan um fjármagnstekjuskattinn almennt og það að tekjur almennt, hvernig sem þær eru fengnar, séu skattlagðar með mismunandi hætti eftir því hvort við erum að tala um tekjur af fjármagni eða launatekjur. Það er það sem er að gerast hér raunverulega að fjmrh. er að leggja til að bæði söluhagnaður og arður verði alfarið í sama skatthlutfalli, 10%, á meðan við erum með launatekjurnar í 38%.

Ég vil minna á í þessu sambandi að þegar við vorum að fjalla um fjármagnstekjuskattinn á sínum tíma kom fram í umsögn skattrannsóknarstjóra um frv. að um verulega hagsmuni verði að ræða fyrir einstakling í atvinnurekstri að stofna til einkahlutafélags og taka síðan greiðslur frá þeim í formi arðs. Og síðan stendur hér orðrétt:

,,Þetta kom fram í umsögn frá skattrannsóknarstjóra um frv. Þar kemur fram að um verulega hagsmuni verði að ræða fyrir einstaklinga í atvinnurekstri að stofna til einkahlutafélaga og taka síðan greiðslur frá þeim í formi arðs. Ríkisskattstjóri tók í sama streng og skattrannsóknarstjóri í sinni umsögn og taldi að ef allar fjármagnstekjur væru skattlagðar með mun lægri skattprósentu en launatekjur muni það örugglega hafa þau áhrif að þeir aðilar sem eiga þess kost muni taka laun sín út sem arð, vexti og leigu.``

Maður veltir fyrir sér hvort þetta hafi verið að gerast á undanförnum árum að tilhneiging hafi verið t.d. með stofnun einkahlutafélaga að taka verulegan hluta launa út sem arðgreiðslur. Greinilegt er að skattrannsóknarstjóri og ríkisskattstjóri hafa óttast þetta á sínum tíma. Þess vegna er sú umræða fyllilega tímabær sem hér hefur verið sett fram af 1. flm. þessa frv. hvort ekki eigi að skoða það að meðhöndla tekjur, hvernig sem þær eru fengnar, hvort sem það eru tekjur af fjármagni eða launatekjur, með sama hætti og þá væri sennilega hægt að lækka verulega skattprósentuna í tekjuskatti en að hækka hana þá að sama skapi varðandi skattgreiðslur af arði og söluhagnaði.

Ég vil minna á, herra forseti, í þessu sambandi að þegar verið var að fjalla um það 1998 að lögaðilar kæmu inn með sama hætti og einstaklingar gerðu 1996 eða tveim árum áður, þ.e. varðandi frestunina á söluhagnaði, þá kom fram í frv. hæstv. fjmrh. þegar mælt var fyrir þeirri breytingu að taka lögaðilana inn eins og einstaklinga að ekkert af löndum OECD skattleggur söluhagnað eins og arð. Það stendur orðrétt hér í einhverjum kafla undir yfirskriftinni í þessu frv. ,,Skattlagning söluhagnaðar í hendi hlutafélaga``. Ég sé ekki betur en það sé einmitt það sem hæstv. fjmrh. sé að leggja til, þ.e. að skattleggja söluhagnað með sama hætti arð, allan söluhagnað, þ.e. í 10%, en það virðist vera svo samkvæmt því sem fram kemur í grg. með frv. að ekkert land geri þetta.

Það er athyglisverð samantekt í frv. hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur um skattlagningu söluhagnaður í hinum ýmsu löndum. Svo virðist vera að við séum með algjöra sérstöðu hvað varðar lágan skatt af söluhagnaði og arði. Að vísu kemur á móti það sem hér hefur líka fram komið að við erum með mjög háan eignarskatt. Þess vegna er það eðlileg umræða sem hér er sett fram: Eigum við í alvöru að fara út í að skoða skattkerfið með því hugarfari, þá líka að jafna samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja þar sem við erum í alþjóðlegu umhverfi, að lækka verulega eða fella niður eignarskattana, stimpilgjöldin sem eru mjög erfið fyrir bæði atvinnulíf og einstaklinga, einstaklinga sem standa t.d. í því að koma sér þaki yfir höfuðið, en fara út í það að hækka skattinn af söluhagnaði og arði og lækka hann af launatekjum?

Ég held að það mundi skila okkur því að við værum með miklu einfaldara og réttlátara skattkerfi sem sýndi miklu meira jafnræði í skattlagningu en nú er, þ.e. að leggja að jöfnu skattlagningu á tekjum hvernig sem þær eru fengnar. Mér finnst að hæstv. fjmrh. ætti að leggja í þá vinnu að skoða kosti þess og galla, hvað væri hægt að lækka skatthlutfallið mikið hjá einstaklingum ef við færum út í slíka breytingu og hvert yrði, ef þá nokkuð, tekjutap ríkissjóðs með því að fella alveg niður eignarskattana og skoða lækkun eða niðurfellingu á stimpilgjöldum. Ég veit að eignarskattarnir gefa ríkissjóði töluverða peninga, eru það ekki um þrír milljarðar og einhver svipuð fjárhæð sem stimpiligjöldin gefa?

En það að hafa söluhagnaðinn, sem er svona mikill eins og hér kom fram, 7,5 milljarðar á þessu ári, í þessum 10% skatti mundi náttúrlega gefa töluverðar tekjur ef hann yrði með sama skatthlutfall og launatekjur, segjum kannski 20, 25, 30% skatti.

Ef við skoðum arðgreiðslur á bráðabirgðayfirliti ríkisskattstjóra þá var arður af hlutabréfum 1996 rúmar 1.100 milljónir en er á árinu 2000 kominn í 6,280 milljónir. Þetta er skattlagt með 10% skatti þannig að við getum séð að það væru verulegir fjármunir sem kæmu þá á móti ef við hækkuðum skattlagningu á arði og söluhagnaði, felldum niður eða lækkuðum eignarskattinn og felldum niður eða lækkuðum stimpilgjöldin. Og það sem væri líka mjög mikilvægt að geta lækkað tekjuskattinn hjá einstaklingum.

Mér finnst, herra forseti, að við eigum að leggja í þessa skoðun og væri mjög gott ef hæstv. fjmrh., sem hefur betri aðgang að mannskap og stofnunum til þess að reikna þetta út, hefði frumkvæði að því að fara í nýja kortlagningu á skattkerfinu sem hér hefur verið opnað á við umræðuna. Það sýndi mikið jafnræði að því er skattalögin varðar og þetta er ágætt tilefni til þess.

Nefndasvið þingsins lét vinna ágæta töflu sem sýnir tekjustöðu þeirra sem eiga hlutabréf. Mér finnst hún mjög athyglisverð og hún ætti að koma til skoðunar líka hjá efh.- og viðskn. í tengslum við þetta frv. vegna þess að við hljótum að skoða þetta mjög víðtækt í nefndinni. Það vakti t.d. spurningar hjá mér að einstaklingar með 0--750 þús. kr. í árstekjur á sl. ári áttu hlutabréf samkvæmt skattframtali að nafnvirði 20 milljónir kr., og má áætla að markaðsvirði þeirra sé ekki undir 100 milljónum. Af 22 þúsund einstaklingum sem áttu hlutabréf var fast að helmingur þeirra eða tæplega 9.800 einstaklingar með árstekjur á bilinu 0--1,5 millj. kr. Ég velti fyrir mér hvernig fólk getur átt fyrir hlutabréfum sem sýnir svona litlar tekjur á skattframtölum. Er hugsanlegt að einhver hluti þessa fólks taki launin sín út í arði og sýni þá litlar tekjur á skattframtölum en hafi aftur á móti tekjur í formi arðgreiðslu til að velta hlutabréfum áfram? Þetta er eitthvað sem væri þess virði að skoða og tengdist athugun á breyttu skattkerfi sem við þingmenn Samfylkingarinnar erum að tala fyrir, sem þjónar bæði hagsmunum atvinnulífsins, ekki síst því að fyrirtæki okkar eru náttúrlega í alþjóðlegri samkeppni og líka það að við værum að lækka verulega skatta á einstaklinga.

En þetta eru upplýsingar sem mér finnst að menn eigi að skoða, þ.e. bæði þá aukningu sem hefur orðið á einkahlutafélögunum sem við erum með upplýsingar um, hve margir eiga mikið af hlutabréfum þó þeir sýni engar tekjur á skattframtölum. Hver er skýringin á því? Eigum við ekki að skoða skattkerfið í því samhengi? Ég spyr, herra forseti, og mun auðvitað koma inn í umræðuna þegar frv. fjmrh. kemst á dagskrá: Hver er hin raunverulega skýring á því að hæstv. ráðherra er að skilja eftir lögaðilana og þar með að opna fyrir nýja smugu til að svíkja undan skatti að mínu viti, herra forseti?