Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 18:44:10 (1989)

2000-11-20 18:44:10# 126. lþ. 27.6 fundur 27. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[18:44]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er verið að ræða frv. sem gerir ráð fyrir breytingum á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, og er nátengt frv. sem kemur til umræðu eftir að þessari afgreiðslu lýkur, þ.e. afgreiðslu frv. frá hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur og fleiri þingmönnum úr Samfylkingunni, en hitt frv. er borið fram af hæstv. fjmrh. og a.m.k. Sjálfstfl. Það er óljóst hver afstaða Framsfl. er til málsins en enginn framsóknarmaður hefur tjáð sig um efni þessa frv.

[18:45]

Ég vil byrja á því að segja hve gott mér finnst að þessi frv. skuli bæði tekin til umræðu samtímis. Sá háttur hefur allt of oft verið hafður á, þegar frv. koma frá stjórnarandstöðu og tengjast frv. sem ríkisstjórnin ber fram, að stjórnarandstöðufrv. er iðulega skotið aftur fyrir og ríkisstjórnin eða málsvarar hennar reyna síðan að þegja þau í hel. Þennan hátt hefur hæstv. fjmrh. ekki haft á heldur tekið þátt í umræðu um þetta frv. frá stjórnarandstöðunni og tjáir sig ekkert síður um það en hann mun væntanlega gera um sitt eigið. Þetta finnst mér gott og ég vil að það komi fram hér í upphafi.

Þetta mál á rætur að rekja til breytinga sem gerðar voru á tekjuskattslögunum árið 1996, reyndar hafa verið gerðar breytingar á þessum lögum síðan, árið 1998 voru m.a. gerðar breytingar á þeim ákvæðum þessa frv. sem hér eru til umfjöllunar. Árið 1996 var hér komið á fjármagnstekjuskatti og ýmsar aðrar breytingar gerðar á skattlagningu á arð af hlutafé og ýmsum öðrum þáttum skattalaganna. Á þessum tíma fór fram mikil prinsippumræða, m.a. um þá þætti sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir vék að hér áðan, hvort eðlilegt væri að skattleggja allar tekjur á sama hátt óháð því hvernig þær yrðu til. Ég tek undir þau sjónarmið sem hún lýsti. Mér finnst eðlilegt að þar sé ekki gerður á greinarmunur.

Á að gera greinarmun á hverjir það eru sem afla teknanna, einstaklingar eða fyrirtæki? Það er enn önnur umræða. Sjálfum finnst mér eðlilegt að þarna sé jafnræði í milli. Mér finnst ekki óeðlilegt að tekjuskattar fyrirtækja séu endurskoðaðir og þá eitthvert samræmi haft við tekjuskatta einstaklinga. Það er ekki langt síðan tekjuskattar fyrirtækja voru miklu hærri en tekjuskattar einstaklinga. Ætli það sé meira en áratugur síðan tekjuskattar fyrirtækja voru yfir 50%? Nú eru tekjuskattar fyrirtækja komnir niður í 30%, tekjuskattar einstaklinga eru hins vegar á milli 38 og 39%. Þarna hefur orðið mikil breyting á auk þess sem margvíslegum álögum hefur verið aflétt af fyrirtækjum á þessum tíma. Þar nægir t.d. að nefna aðstöðugjöldin en álögur á einstaklinga hafa hins vegar aukist.

Þýðir þetta að prósentan eigi í öllum tilvikum að vera sú sama? Hv. þm. Pétur H. Blöndal vék að þessu áðan þegar hann vakti máls á fjármagnstekjuskattinum annars vegar og tekjuskatti hins vegar. Ég held ekki. Ég held að þetta þýði ekki að skattprósentan þurfi að vera sú sama vegna þess að skattar af fjármagni, alla vega samkvæmt mínum skilningi, eiga að vera skattar á raunávöxtum fjármagnsins, þ.e. að verðbólgan sé dregin frá þannig að hinar raunverulegu tekjur einstaklingsins séu skattlagðar. Það var rætt á þessum tíma, árið 1996 þegar fjármagnstekjuskattinum var komið á, hvort ekki væri rétt að hafa fjármagnstekjuskattinn eitthvað lægri í prósentum talið en tekjuskattinn til að ná þessu markmiði. Prinsippinu yrði eftir sem áður haldið til haga, menn væru ekki að gera greinarmun á skattlagningu eftir því hvaðan tekjurnar eru komnar, hvort þær eru af fjármagni eða launavinnu.

Þessi prinsippumræða fór fram á þessum tíma en þá og síðan við lagabreytingarnar 1998 fór minna fyrir umræðunni um það sem við ræðum um núna, þ.e. því ákvæði laganna sem heimilar frestun á skattlagningu á söluhagnaði hlutabréfa. Í stað þess að greiða tekjuskatt af hagnaðinum gátu einstaklingar frestað skattlagningunni með því að fjárfesta á nýjan leik. Það hefur orðið til þess að margir virðast hafa farið þá leið að fjárfesta fyrir söluhagnað í eigin eignarhaldsfélögum, ekki aðeins hér á landi heldur hafa þessir fjármunir einnig verið fluttir til útlanda, til Lúxemborgar og víðar.

Á þessu var vakin rækileg athygli í fjölmiðlum í haust, þá ekki síst í Morgunblaðinu. Þar var gerð mjög ítarleg úttekt á þessum málum í grein sem birtist í októberbyrjun, ég held að það hafi verið 1. október. Ég setti fram spurningu í upphafi þings sem vitnað hefur verið í hér áður, um hvað ríkisstjórnin hygðist gera í þessum málum og hvort það hafi vakað fyrir henni á sínum tíma að gangast fyrir lagabreytingum sem auðvelduðu fólki að koma fjármunum undan skatti. Á þessum tíma boðaði Samfylkingin, með hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur í broddi fylkingar, lagafrv. sem tæki á þessum málum einnig og nú hefur þingmaðurinn upplýst að til hafi staðið að gera þetta á síðasta þingi.

Nú stöndum við frammi fyrir tveimur leiðum sem boðið er upp á. Annars vegar er það leið hæstv. fjmrh. og hins vegar leið hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur. Ég lýsi því yfir að ég er hlynntari þeirri leið sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir leggur til. Munurinn á þessum tveimur leiðum virðist mér sá að samkvæmt leið hæstv. fjmrh. er gerður greinarmunur á því hvort einstaklingar eiga í hlut eða lögaðilar hins vegar, þ.e. fyrirtæki. Ég á erfitt með að fá botn í hvers vegna gera ætti þann greinarmun. Ég spyr einnig hvort sú hætta sé ekki fyrir hendi að einstaklingur sem fengi slíkan hagnað í hendur mundi grípa til þess ráðs, sem sannarlega hefur verið gert, að stofna utan um sig fyrirtæki og gerast lögaðili. Mér þætti vænt um að fá skýringar á þessu.

Hitt sem við stöndum frammi fyrir er síðan sjálf skattprósentan, hver hún eigi að vera. Samkvæmt þeirri tillögu sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir leggur til er lagt til að venjulegri tekjuskattsprósentu sé beitt en í leið hæstv. fjmrh. skal skattprósentan núna vera 10% á alla fjárupphæðina, en þetta hefur verið tvískipt fram til þessa. Það hafa verið ákveðin skattleysismörk eða 10% skattur innan við vissa upphæð, 3,2 milljónir fyrir einstaklinginn og 6,4 milljónir fyrir hjónin. Ég vil því byrja á að lýsa stuðningi við þá meginleið sem boðuð er í frv. hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur. Ég tel að við þurfum að skoða þetta mjög vel í nefnd en lýsi því yfir að mér hugnast sú leið sem hún leggur til.

Aðeins fáein orð um Ögmund Jónasson og hina illu fjármagnseigendur sem hæstv. fjmrh. vék hér að áðan. Það er nú ekki svo að mér sé sérlega uppsigað við fjármagnseigendur sem slíka. Mér er hins vegar svolítið í nöp við það þegar stjórnmálamenn hygla þeim á kostnað annarra þegna samfélagsins. Það segir sína sögu dæmið sem Morgunblaðið, í fyrr ívitnaðri blaðagrein frá 1. október, tekur til að varpa ljósi á það sem er að gerast. Ég vitnaði í á sínum tíma þegar fsp. mín kom til umfjöllunar hér á Alþingi og hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir gerði það einnig í sínu máli. En í þessu dæmi sem varpa á ljósi á málið segir, með leyfi forseta, ég vitna í blaðagreinina:

,,Til að sjá hvernig þetta gerist er einfaldast að taka dæmi af manni sem fyrir einhverjum árum eða áratugum lagði 2 milljónir í hlutafélag og selur nú hlut sinn á 100 milljónir. Maðurinn er því með 98 milljóna króna söluhagnað í höndunum.``

Um þessar 98 milljónir standa síðan deilurnar, um hvernig eigi að fara með skattlagningu á þessum fjármunum. Það er ekki vegna þess að mér sé eitthvað í nöp við þennan einstakling eða þessi hjón, ef svo skyldi vera, sem hagnast um 98 millj. kr. Hins vegar skil ég ekki hvers vegna eigi sérstaklega að ívilna þessu fólki. Það eigi að búa við einhverja allt aðra skattprósentu en launamaðurinn sem með launavinnu hefur aflað sér fjár. Það eru nú engar 98 milljónir sem menn fá fyrir launavinnu, hvort sem það er hugur eða hönd sem aflar launateknanna. Ef menn horfa á fjárfestingargleðina sem alltaf er vísað til, að það megi ekki deyfa hana, tökum þá einstakling sem hefur aflað talsverðra tekna, við skulum segja 5 milljóna, og ætlar að fjárfesta. Stillum honum upp annars vegar og hins vegar hinum einstaklingnum sem hefur 98 milljóna söluhagnað sem hann hefur fengið af hlutabréfum sem hann fjárfesti í fyrir 2 milljónir á sínum tíma. Ekki stendur annað til en að skattleggja að fullu launatekjurnar sem nema 5 milljónum, það stendur ekki til annað en að gera það. En hitt á að fara allt öðruvísi með, það á að skattleggja það með 10%.

Þetta, herra forseti, á ég við þegar ég tala um hlutabréfamarkaðinn. Hvernig farið er með hann og hvernig mismunað er í þágu hans en á kostnað almenns launafólks í landinu. Við erum stöðugt að takast á um það hvernig við eigum að dreifa skattbyrðinni. Við þurfum að afla samneyslunni tekna og síðan tökumst við á um hvernig við ætlum að deila þessum byrðum niður. Ég gagnrýni það að einstaklingar sem hafa tekjur af fjármagni eða hlutabréfagróða eða arði fyrirtækja skuli höndlaðir á allt annan hátt en annað fólk í landinu.

[19:00]

Meðal annarra orða, hæstv. fjmrh., þótt hlutafélög og hlutabréfamarkaður og verðbréfamarkaður kunni að vera til góðs að ýmsu leyti og auðveldi viðskipti og tilfærslu á eignum og fyrirtækjum í landinu þá hef ég nú meiri efasemdir um það en hæstv. ráðherra að þar fari fram sú verðmætasköpun í samfélaginu sem mér finnst á máli hæstv. fjmrh. hann trúa að gerist á þeim vettvangi, ég hef miklar efasemdir um það.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta meira. Ég kem hingað upp fyrst og fremst til að lýsa meginsjónarmiðum mínum. Ég er samþykkur því sem kemur fram í frv. sem við erum með til umfjöllunar, að afnema þessa frestunarmöguleika, og ég er samþykkur því að skattprósentan skuli vera sú sama og af almennum tekjuskatti og lýsi almennt stuðningi við þetta frv.