Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 19:10:58 (1991)

2000-11-20 19:10:58# 126. lþ. 27.6 fundur 27. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa) frv., Flm. SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[19:10]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Mér finnst ástæða til þess í lokin að þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram, ekki síst þá umræðu sem farið hefur fram um grundvallaratriði, þau grundvallaratriði sem við viljum hafa þegar við ræðum það hvernig skatta við viljum hafa í landinu.

Ég vil byrja á því, herra forseti, að leiðrétta hv. þm. Pétur Blöndal sem hélt því fram að við vildum hækka skatta. Það er algjör misskilningur. Í frv. stendur ekkert um það að við viljum hækka skatta. Staðan er þannig í dag að ef menn fjárfesta ekki aftur þá borga einstaklingar tekjuskatt af því sem umfram fer ákveðið lágmark og fyrirtæki af öllu. Við erum því ekki að tala um það að hækka neina skatta. (Gripið fram í.) Það eina sem við erum að tala um er að sú frestun sem heimiluð var með lögunum frá 1996 og með lögunum frá 1998 verði tekin aftur og menn geti ekki komist tæknilega og í veruleikanum hjá því alfarið að greiða nokkra skatta eins og virðist vera raunin með allt of marga.

Það er nefnilega alveg rétt sem hv. þm. segir að tekjur ríkissjóðs eru auðvitað háðar skattprósentunni en þær eru líka háðar því skattalega umhverfi sem einstaklingum og fyrirtækjum er búið. Ég er nokkuð viss um það, herra forseti, vegna þess að hér hefur verið talað um að sú breyting að einstaklingum var gefin heimild til að fresta skattgreiðslum og síðan að losna undan þeim að stórum hluta með því að fjárfesta aftur á árinu 1996 hafi valdið svo mikilli örvun á hlutabréfamarkaðnum, að ef einstaklingum eða launamanninum hefði verið gefinn kostur á því, ef hann hefði getað staðið frammi fyrir því vali þegar kom að skattgreiðslu hans af launatekjum, annaðhvort að borga skattana sína eða hann gæti losnað við skattgreiðslu með því að fjárfesta í hlutabréfum, þá hefði það nú aldeilis líka valdið örvun á hlutabréfamarkaðnum.

Það er það sem við viljum ræða, þ.e. þetta jafnræði. Það er hvernig aðilum er mismunað eftir því hvaðan tekjurnar eru komnar. Launamaðurinn á ekki þennan kost með sama hætti og sá sem er að taka söluhagnað. Launamaðurinn hefur reyndar átt þann kost á undanförnum árum að kaupa sér hlutabréf og hefur þá getað fengið skattafslátt að ákveðnu hámarki og mjög margir hafa nýtt sér það, en hann hefur ekki átt þennan opna kost eins og sá einstaklingur sem hefur getað tekið inn söluhagnað.

Herra forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal talaði um annars vegar réttlátt og hins vegar sanngjarnt skattkerfi og var á honum að skilja að það væri ekki það sama. Að mínu mati er það það sama. Það sem er sanngjarnt gagnvart borgurunum er réttlátt. Við viljum hafa þetta þannig, við viljum búa við sanngjarnt skattkerfi, skattkerfi þar sem menn eru --- ja, eigum við að segja tiltölulega sáttir við sinn hlut. Það er hins vegar alveg ljóst að skattumhverfið undanfarin ár hefur verið þannig að menn hafa ekki verið sáttir. Menn hafa ekki verið sáttir við að horfa upp á í rauninni það sem svo ágætlega var lýst í þessari Morgunblaðsgrein, þ.e. hvernig menn hafa getað farið með söluhagnað af hlutabréfum. Sérstaklega hafa menn verið ósáttir, eins og ég rakti í framsögu minni, við það sem tekið hefur verið út úr sjávarútvegsfyrirtækjunum af ýmsum ástæðum, eins og hv. þm. þekkir mætavel því ég veit að hann hefur fylgst með þeirri umræðu.

[19:15]

Menn hafa líka verið mjög ósáttir við það hvernig fólk með meðaltekjur hefur verið skattlagt í rauninni umfram öll eðlileg mörk og hvernig jaðaráhrif skattkerfisins hafa fyrst og fremst bitnað á því fólki og menn hafa auðvitað verið ósáttir við að það er tiltölulega lítill hópur manna sem greiðir tekjuskatt. Auðvitað horfa menn á alla þessa hluti þegar verið er að ræða skattamál.

Hæstv. ráðherra sagði áðan að honum sýndist að við með okkar frv. vildum fara aftur til baka í gamla farið. Herra forseti. Ég tel að þess væri ekki nokkur kostur jafnvel þó menn vildu af því að gamla farið er einfaldlega ekki til lengur. Þær breytingar sem við höfum verið að ræða um hafa gert það að verkum að menn geta ekki farið í neitt gamalt far. Menn verða einfaldlega að horfa fram á veginn, líta í kringum sig og bregðast við núverandi aðstæðum og þeim sem við sjáum fram undan jafnvel þó að það sé e.t.v. ekki langt vegna hraðfara breytinga, bregðast við því að við erum komin í alþjóðlegt umhverfi, bregðast við því að ef við viljum efla íslensk fyrirtæki þá þurfum við að hafa skattumhverfi þeirra þannig að þau séu fýsilegur fjárfestingarkostur. Það virðist ekki hafa verið gert nægjanlega á undanförnum árum, herra forseti. Því miður hefur umhverfið verið þannig að allt of mörgum hefur þótt það fýsilegra að fjárfesta erlendis en í íslenskum fyrirtækjum. Við þurfum auðvitað að reyna að glöggva okkur á af hverju. Það er ekki nóg að setja fram góðar óskir um að menn vilji sjá þetta svona eða hinsegin. Það þarf að finna leiðirnar.

Við höfum lýst því yfir, þingmenn stjórnarandstöðunnar í þessari umræðu, að við viljum skoða breytingar á sköttunum. Við viljum ræða grundvallaratriði og við viljum skoða breytingar í átt að auknu jafnræði. Mér finnst að hæstv. fjmrh. eigi að taka þessari umræðu, þessu tilboði vil ég orða það, fagnandi. Mér finnst að hann eigi frekar að taka umræðunni þannig en með þeim hætti sem hann gerir, þ.e. reyna að setja hana í það þrönga far sem mér fannst hann gera hér áðan.

Herra forseti. Við erum stödd í miðri skattaumræðu. Það er jafnan svo þegar dregur að jólahléi eða þegar á haustið líður að mikil skattaumræða fer fram á Alþingi vegna þeirra breytinga sem óhjákvæmilegt er að gera á hverju ári á ýmsum upphæðum og ýmsum hlutum skattkerfisins. En við erum líka vön því, herra forseti, að hér er verið að fara í skattbreytingar með stuttum fyrirvara þannig að lítill tími gefst til ígrundunar. Eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gat um í ágætri ræðu sinni áðan þá kom þetta ákvæði um frestun og möguleika á því að komast hjá skattgreiðslum með endurfjárfestingu árið 1996, inn á milli umræðna. Það var eins konar laumufarþegi í þeim skattapakka sem þá var verið að afgreiða. Mér finnst stundum að það hvernig mál eru keyrð hér í gegn gefi kost á allt of mörgum laumufarþegum af þessu tagi þannig að þingmönnum gefst ekki færi á að glöggva sig á því hverjar hugsanlegar afleiðingar kunna að verða. Ég held að hér séum við nákvæmlega að ræða um eitt slíkt atvik.

Herra forseti. Ég vil svo í lok þessarar umræðu þakka fyrir hversu málefnaleg og ágæt hún hefur verið. Ég þykist vita að hér eigi eftir að fara fram enn líflegri skattaumræða eftir því sem nær dregur jólahléi þingmanna og afgreiðslu fjárlaga.