Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 19:19:26 (1992)

2000-11-20 19:19:26# 126. lþ. 27.7 fundur 264. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa o.fl.) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[19:19]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 75/1981, að nýju því að ég mælti fyrir öðru breytingafrv. á þeim lögum fyrr í dag um barnabætur. En hér er um að ræða ýmis önnur atriði skattalaganna sem tekin hafa verið saman í eitt frv. Eitt af þessum atriðum er meðferð söluhagnaðar á hlutabréfum sem hér hefur verið rætt ítarlega um fyrr á þessum fundi og má segja að það sé meginbreytingin sem lögð er til í þessu frv. efnislega séð. En auk þess eru lagðar til margvíslegar breytingar á skattalögunum í þessu frv. sem lúta að rétti borgaranna til að fá mál sín endurupptekin hjá skattyfirvöldum þegar yfirskattanefnd eða dómstólar hafa með úrskurði eða dómi breytt skattframkvæmd. Sömuleiðis eru lagðar til breytingar á ýmsum viðmiðunarstærðum tekjuskattsins, svo sem skattleysismörkum barna og sjómannaafslætti með hliðsjón af þeim breytingum sem gerðar voru á persónuafslætti sl. vor með lögum nr. 9/2000 í tengslum við kjarasamninga. Einnig eru lagðar til ýmsar breytingar sem lúta að lagatæknilegum atriðum og ýmsum framkvæmdaatriðum í skattkerfinu.

Ég hyggst víkja fyrst að öðrum atriðum en þeim sem lúta að skattlagningu söluhagnaðar.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögunum sem lúta að heimild ríkisskattstjóra til að breyta ákvörðun skattstjóra að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni skattaðila hafi yfirskattanefnd eða dómstólar með úrskurði eða dómi kveðið upp úr með það að skattframkvæmd hafi ekki samrýmst lögum. Í ákvæðinu, sem er að mestu sniðið eftir danskri fyrirmynd, er skattaðila tryggður ákveðinn réttur til að fá mál sín upptekin að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Í frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að endurupptaka skattframtöl allt að sex ár aftur í tímann í tilefni af breytingu á skattframkvæmd. Er sú regla í samræmi við ríkjandi heimild skattyfirvalda til að endurákvarða skatta. Óhætt er að fullyrða að þessi breyting felur í sér aukið réttaröryggi fyrir skattborgarana.

Í frv. er einnig lagt til að gerðar verði nokkrar breytingar á 8. gr. B í lögunum sem fjallar um kaup starfsmanna á hlutabréfum samkvæmt svokölluðum kauprétti. Þetta ákvæði er nýtt í skattalögunum. Það var tekið inn í þessi lög á sl. vori með lögum nr. 86/2000. Breytingarnar sem hér eru lagðar til eru tvíþættar. Í fyrsta lagi er ætlunin að undirstrika það sjónarmið að eðlilegt sé að þeim hlutabréfum, sem boðin eru starfsmönnum til kaups á grundvelli kaupréttarsamninga, fylgi þau almennu réttindi sem einkenna viðskipti af þessu tagi. Þannig er reynt að girða fyrir að hlutabréf starfsmanna séu sett í annan, hugsanlega lakari flokk en almenn hlutabréf fyrirtækisins, sem sé að einhverju leyti bundinn skilyrðum umfram það sem almennt gerist svo sem varðandi arðgreiðslur eða framsal.

Með hinni breytingunni í þessu efni er lagt til að tekin verði af öll tvímæli um að einungis megi kaupa hlutabréf samkvæmt kaupréttarsamningi fyrir 600 þúsund krónur á ári. Upp hafa komið spurningar hvernig túlka beri ákvæðið, þ.e. hvort í því fælist að áunninn kaupréttur á ári mætti mestur vera 600 þúsund krónur á ári eða hvort innleysa þyrfti kaupréttinn og eru tekin af tvímæli í því efni í frv. Vissulega má segja að þessi upphæð sé ekki háð neinum vísindalegum mælikvarða. Hún gæti komið til skoðunar í þingnefndinni. En það er brýnt að taka af tvímæli um hver hún er og að hana verði að nota á einu ári en ekki hægt að safna upp slíkum heimildum milli ára eins og sumir hafa viljað.

Loks má nefna í þessu sambandi að gert er ráð fyrir því í frv. að hið svokallaða áætlaða kaupverð sem við er miðað þegar um er að ræða viðskipti með hlutabréf sem skráð eru í kauphöll sé ekki miðað við gangverð á einum tilteknum degi, þ.e. samningsdegi, heldur meðalverði síðustu tíu viðskiptadaga fyrir samningsdag. Það hefur komið í ljós að á því eru ákveðnir annmarkar að miða við aðeins einn dag í þessu viðfangi og þess vegna er farin sú leið að miða við tíu viðskiptadaga fyrir umræddan samningsdag. Er þá sneitt hjá hugsanlegum sveiflum sem vera kunna á markaðsverði og kunna að vera dagbundnar.

Í frv. er einnig lagt til að felld verði niður sú kvöð á fyrirtæki að tilgreina jöfnunarverðmæti hlutabréfa á skattframtali hlutafélags og hlutafjármiðum. Í stað þess er gengið út frá því að ríkisskattstjóri haldi skrá yfir jöfnunarstuðul félaga og birti þann stuðul á aðgengilegan hátt, t.d. á heimasíðu ríkisskattstjóraembættisins.

Ein tillaga frv. sem verður að nefna er sú að skýrar verður kveðið á um kæruleiðir vegna ágreinings um fyrirframgreiðslu barnabóta og vaxtabóta. Um þetta eru ekki ákvæði í gildandi lögum og hafa verið áhöld um hvert skuli skjóta deilumálum um fyrirframgreiðslur. Hér er lagt til að ákvörðun skattstjóra um fyrirframgreiðslu sé kæranleg til ríkisskattstjóra sem taki endanlega ákvörðun í málinu. Með þessari tilhögun eru tekin af tvímæli um þetta atriði.

Loks er í frv. einnig tekið á ýmsum þáttum sem lúta að þeim álagningarfrestum sem hingað til hafa verið bundnir í lögum. Á síðustu árum hafa rutt sér til rúms miklar breytingar á fyrirkomulagi og vinnubrögðum við skil á skattframtölum öllum framteljendum til mikilla hagsbóta. Ný tækni við skattskil, rafræn miðlun upplýsinga og forskráning upplýsinga á framtöl kallar hins vegar á meiri sveigjanleika í álagningartíma og ýmsum skilafrestum heldur en núverandi löggjöf býður upp á. Í samræmi við það er hér lagt til að fjármálaráðherra auglýsi að fengnum tillögum ríkisskattstjóra álagningarfresti en ríkisskattstjóri ákveði skilafresti með hliðsjón af öðrum atriðum sem máli skipta í því sambandi. Sérstaklega er bent á að gert er ráð fyrir að sérstakir frestir verði ákveðnir fyrir lögaðila sem hafa annað reikningsár en almanaksárið þannig að álagning á þá fari fram að liðnum jafnlöngum tíma frá lokum reikningsárs og hjá öðrum lögaðilum.

Herra forseti. Kem ég þá að ákvæðinu um skattlagningu söluhagnaðar sem ég get farið yfir í stuttu máli vegna fyrri ræðu minnar hér í dag.

Með lögum nr. 97/1996, um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, var samþykkt að heimila frestun skattlagningar á söluhagnaði hlutabréfa hjá einstaklingum um tvenn áramót. Í greinargerð með breytingunni kemur fram að markmið hennar hafi verið að auka aðlögunarhæfni atvinnulífsins að breyttum aðstæðum, auðvelda skipulagsbreytingar í atvinnulífinu og stuðla að því að fjármagn héldist í íslensku atvinnulífi, jafnframt því að auka sparnað hjá almenningi.

Á undanförnum árum hefur íslenskt fjármálakerfi verið að opnast út á við og í kjölfarið hafa fjárfestingar Íslendinga erlendis aukist verulega, enda í boði ýmsir álitlegir fjárfestingarkostir. Þannig hafa einstaklingar getað nýtt þá fjármuni sem verða til ráðstöfunar vegna frestunar skattlagningar á söluhagnaði heima fyrir til að fjárfesta erlendis. Þar er ekki eingöngu verið að tala um kaup á hlutabréfum erlendra fyrirtækja heldur hafa einstaklingar í vaxandi mæli keypt í eða jafnvel stofnað hlutafélög erlendis sem hafa þann tilgang að fjárfesta í öðrum félögum. Óhætt er að fullyrða að við lagasetninguna 1996 ríktu því nokkuð aðrar aðstæður á hlutabréfamarkaði en nú er eins og fram hefur komið í umræðum í dag.

Samkvæmt gildandi reglum er söluhagnaður einstaklinga af hlutabréfum umfram 3,2 milljónir króna og 6,4 milljónir hjá hjónum skattlagður eins og hverjar aðrar tekjur ef frestunarheimildin er ekki nýtt. Kaupi einstaklingur hins vegar önnur hlutabréf í stað hinna seldu innan tveggja ára færist söluhagnaðurinn til lækkunar á kaupverði nýju bréfanna. Skattur á aðrar fjármagnstekjur er aftur á móti 10% án takmörkunar.

Ýmislegt bendir til þess að þeir sem hafa hagnast vel á sölu hlutabréfa á undanförnum árum hafi í vaxandi mæli nýtt sér umrædda frestunarheimild. Þar hafa verið nefndar háar fjárhæðir. Þá virðast sífellt fleiri telja að hagstæðara sé að ávaxta það fé í hlutafélögum annars staðar en á Íslandi, vegna hagstæðari skattareglna og í ýmsum tilvikum í skjóli bankaleyndar. Þá er ekki ólíklegt að skattlagningin falli í mörgum tilvikum jafnvel niður vegna skorts á upplýsingum. Þetta tvennt, frestun skattgreiðslna og hagstætt skattaumhverfi, eru án efa helstu ástæður þess að stærri fjárfestar hafa kosið að stofna eigin hlutafélög erlendis. Þannig má halda því fram að í gildandi reglum felist ákveðin hvatning fyrir einstaklinga til þess að fjárfesta í félögum erlendis fremur en hér á landi. Íslenskir fjárfestar hafa því getað takmarkað skatta sína með því að greiða sér arð frá hinu erlenda félagi sem er skattlagður með 10% skatti hér á landi. Þetta er gert þar sem hagstæðara er að fá fjármagnstekjur í formi arðs en söluhagnaðar þegar fjárhæðirnar eru orðnar háar.

Í þessu sambandi hefur einnig verið nefnt að álagning eignarskatta hér á landi ýti verulega undir þessa þróun. Ég vil í því sambandi og í tilefni af umræðum fyrr á fundinum láta þess getið að ég hef sett á laggirnar sérstakan vinnuhóp sérfræðinga til þess að vinna að því að endurskoða ákvæði í gildandi lögum um álagningu eignarskatta og vænti ég þess að fá niðurstöðu þeirrar vinnu áður en mjög langt um líður.

Af framansögðu má álykta að gildandi ákvæði um skattalega meðferð á söluhagnaði hafi aðeins að hluta til náð tilgangi sínum um eflingu íslensks atvinnulífs með aukinni þátttöku almennings. Niðurstaðan virðist að einhverju leyti sú að fjármagnið leiti frekar úr landi í stað þess að skila sér inn í íslensk atvinnufyrirtæki eins og til stóð með lagabreytingunni 1996. Er því lagt til að heimild til frestunar á söluhagnaði hlutabréfa verði afnumin, jafnframt því sem allur söluhagnaður einstaklinga af hlutabréfum verði skattlagður með 10% án takmörkunar, eins og á við um aðrar fjármagnstekjur.

Hér hef ég rakið í stuttu máli, herra forseti, þær veigamestu breytingar sem er að finna í þessu frv. Þær eru vissulega misefnismiklar, en skipta þó allar máli, tel ég, og horfa allar í átt til aukinnar réttarverndar skattgreiðendanna annars vegar og þess að horfast í augu við ákveðnar staðreyndir að því er varðar skattlagningu á söluhagnaði hlutabréfa sem nauðsynlegt er að gera til þess að tryggja ríkissjóði skatttekjur af þeim söluhagnaði sem verður til við slík viðskipti.

Ég legg til, herra forseti, að þegar þessari umræðu lýkur verði málinu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.