Jöfnun flutningskostnaðar á sementi

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 13:49:40 (2000)

2000-11-21 13:49:40# 126. lþ. 28.4 fundur 214. mál: #A jöfnun flutningskostnaðar á sementi# (stjórnarmenn o.fl.) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[13:49]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. talaði hér um frjálshyggju og skynsemi. Ég vil nú bara leyfa mér að spyrja hvort ekki sé, á sama tíma og hann neitar því að hann sé að tala um frjálshyggju og yfirfærir á skynsemi, nein tenging á milli frjálshyggju og skynsemi. (Gripið fram í: Það er skynsemi í frjálshyggjunni.) Já, er ekki skynsemi í frjálshyggjunni? Mér finnst ég einhvern tíma hafa heyrt hv. þm. segja það úr ræðustóli.

Ég vil bara segja það rétt í lokin, herra forseti, að mér finnst ákaflega skringilegt hvernig hv. þm. bregst við þegar talað er um jöfnunaraðgerðir á Íslandi, milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins. Ég lagði fyrir hv. þm. spurningu um niðurgreiðslu á þungaskatti hjá Strætisvögnum Reykjavíkur, sem ég er alveg hjartanlega sammála, þ.e. því að greiða niður almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu og reyndar á Akureyri þar sem reknir eru strætisvagnar líka. Ég tek það skýrt fram að ég er sammála því en er hv. þm. ekki á sömu skoðun að þetta sé skynsamleg leið til að greiða fyrir almenningssamgöngum í landinu?