Jöfnun flutningskostnaðar á sementi

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 13:51:10 (2001)

2000-11-21 13:51:10# 126. lþ. 28.4 fundur 214. mál: #A jöfnun flutningskostnaðar á sementi# (stjórnarmenn o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[13:51]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Varðandi það síðasta þá er ég er á móti því að veita afslátt til strætisvagna. Ég er á móti því að stýra neyslu á þann hátt. Þá er verið að gera almenningssamgöngur óeðlilega ódýrar og hvetja fólk til að nota almenningssamgöngur vegna þessa, sem hugsanlega er þá óhagkvæmt.

Hv. þm. talaði líka um frjálshyggjuna og skynsemina og sagði að það væri oft samtenging þar á milli. Það er hárrétt. Það vill svo til að frjálshyggjan er afskaplega skynsamleg. Maður þarf í rauninni ekkert að vera frjálshyggjumaður, bara að vera skynsamur og þá er maður um leið frjálshyggjumaður.

Hv. þm. svaraði því hins vegar ekki hvernig honum litist á ef þessi sementsmóttökustöð hefði verið á Austurlandi og kostað þjóðfélagið mikið þó það breytti í raun engu fyrir þann sem stundaði reksturinn.

Ég vildi gjarnan líka beina til hv. þm. spurningu varðandi t.d. jöfnun á mjólkurkostnaði. Það er sama mjólkurverð alls staðar sem veldur því að menn stunda mjólkurframleiðslu austur í Landbroti, austur um allt, og flytja mjólkina langa vegu, sem er þjóðhagslega alls ekki skynsamlegt. Svo leggst mjólkurframleiðsla af í héruðum þar sem mjólkurframleiðsla ætti að vera, í kringum Selfoss þar sem eru góðir landkostir í nánd við höfuðborgarsvæðið.

Þannig veldur slík flutningsjöfnun alltaf því að menn fara út í óskynsamlegar ráðstafanir, þjóðhagslega óhagkvæmar sem koma niður á lífskjörum þjóðarinnar. Ég hélt að hv. þm. hefði mikinn áhuga á því að bæta lífskjör þjóðarinnar.