Verðbréfaviðskipti

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 15:25:30 (2016)

2000-11-21 15:25:30# 126. lþ. 28.5 fundur 233. mál: #A verðbréfaviðskipti# (útboð og innherjaviðskipti) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[15:25]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin þó ekki sannfærðu nú rök ráðherrans mig um að við værum að ganga frá frv. sem sæmilega sátt gæti ríkt um að tryggði eðlilegar og sanngjarnar leikreglur að því er varðar meðferð trúnaðarupplýsinga og innherjaviðskipti.

Nokkrum spurningum svaraði hæstv. ráðherra ekki. Ég spurði hvort ekki væri eðlilegt að setja hlutabréfasjóðunum fjárfestingarstefnu alveg eins og gert hefur verið við verðbréfasjóði og lífeyrissjóði. Ég held að það gæti verið verulega til bóta að rammaákvæði sem fjallaði um það og skilgreindi fjárfestingarstefnu hlutabréfasjóða væri til. Ég tel að það mundi treysta markaðinn og gera hann sýnilegri og traustari og þess vegna spurði ég hæstv. ráðherra um það.

Hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningu minni um hvort innherjum væri heimilt með ákvæðum þessa frv. að fjárfesta í óskráðum bréfum. Mér finnst mikilvægt að það komi fram hjá hæstv. ráðherra.

Ég spurði hæstv. ráðherra einnig um það, sem ég tel afar mikilvægt, hvort hún telji ekki ástæðu til að gera tilraun til þess að kortleggja umfangið á óskráðum bréfum. Það kemur mér mjög undarlega fyrir sjónir að hvar sem maður leitar í stjórnkerfinu og hjá þeim stofnunum sem með þessi mál sýsla, virðist enginn hafa hugmynd um þennan ósýnilega markað með þessi óskráðu bréf. Er hann stærri en skráði markaðurinn eða er hann það ekki? Enginn virðist geta nálgast upplýsingar um umfang þeirra bréfa. Þess vegna mundi ég, í sporum hæstv. ráðherra, gera tilraun til að kortleggja þennan markað.

Ég var komin þar í máli mínu að ég ætlaði að fara að fjalla um greinar sem lúta að eftirfylgni með þeim ákvæðum sem þó er að finna í þessu frv. Ég nefni h-lið 7. gr. (ný 37. gr.) en þar er talað um að stjórn félagsins skuli setja reglur um meðferða trúnaðarupplýsinga og viðskipti innherja. Hver ber þá ábyrgð á að þessum reglum sé framfylgt? Ég spyr: Það á að senda Fjármálaeftirlitinu þessar reglur, að mér sýnist, samkvæmt ákvæði á bls. 6 í h-lið 7. greinar (ný 37. gr.) að mér sýnist. En ég spyr: Eru þær sendar Fjármálaeftirlitinu til staðfestingar? Það finnst mér mikilvægt að komi fram, hvort Fjármálaeftirlitið eigi að staðfesta þessar upplýsingar og hvort það geti þá gert athugasemdir og krafist þess að úr verði bætt ef Fjármálaeftirlitið er ekki sátt við þær reglur sem verðbréfafyrirtæki eða fjármálastofnun setur sér.

Ég nefni þetta með hliðsjón af fskj. sem fram kom með skýrslu viðskrh., um siðareglur í viðskiptum á fjármagnsmarkaði, skýrslu sem þingmenn Samfylkingarinnar kölluðu eftir. Með þeirri skýrslu hæstv. ráðherra er birt það sem kallað er Viðauki 2, Leiðbeiningar Fjármálaeftirlitsins um efni reglna fjármálafyrirtækja samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti. Fskj. er skilgreint sem umræðuskjal sem sent hafi verið til umsagnar 1. júlí 2000. Ég spyr með hliðsjón af því: Eru þetta reglur, sem Fjármálaeftirlitið hefur sent frá sér, sem verðbréfafyrirtækin eiga að fara eftir? Ég kann vel við þær reglur sem Fjármálaeftirlitið hefur sett hér fram sem drög. Þau drög eru miklu líklegri til þess að veita markaðnum það aðhald sem nauðsynlegt er en ýmislegt í frv. hæstv. ráðherra.

Í þessum reglum varðandi viðskipti með skráð og óskráð bréf kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

,,Viðskipti starfsmanna með óskráð verðbréf eru óheimil.``

Þarna er tekinn af allur vafi um það.

[15:30]

Um lágmarkseignarhaldstíma, sem hæstv. ráðherra taldi koma til greina þegar hún settist í stól ráðherra, að gera kröfu til að starfsmenn eða innherjar ættu verðbréf í tiltekinn tíma, stendur í drögum að reglum frá Fjármálaeftirlitinu, með leyfi forseta:

,,Gerð er krafa um að starfsmenn eigi verðbréf sem þeir kaupa í 3 mánuði að lágmarki.``

Er þetta regla sem hæstv. ráðherra getur tekið undir? Eru þetta reglur sem verðbréfafyrirtækjunum ber að fara eftir? Ef reglur sem verðbréfafyrirtæki setja sér eru ekki jafnstrangar og hér er sett fram af hálfu Fjármálaeftirlitsins, getur Fjármálaeftirlitið þá krafið verðbréfafyrirtækin um að setja sér reglur í samræmi við þær leiðbeinandi reglur sem það hefur gefið út?

Við getum líka tekið fyrir sérkjör. Fjármálaeftirlitið má ekki bjóða starfsmönnum sínum sérkjör í verðbréfaviðskiptum. Síðan segir í áðurnefndum drögum að reglum:

,,Starfsmenn skulu greina regluverði frá allri verðbréfaeign sinni þegar þeir hefja störf hjá fjármálafyrirtæki. Starfsmenn fjármálafyrirtækis þurfa einnig að greina fyrirtækinu frá verðbréfaeign sinni þegar nýju reglurnar um eigin verðbréfaviðskipti taka gildi.``

Síðan kemur hér athyglisverð leiðbeining frá Fjármálaeftirlitinu, með leyfi forseta:

,,Starfsmönnum sé heimilt að taka þátt í útboðum sé óskað eftir tilboðum um hlut á föstu gengi, þó aðeins samkvæmt sérstakri skriflegri heimild regluvarðar að undangenginni athugun á því hvort þeir kunni að búa yfir trúnaðarupplýsingum um viðkomandi verðbréf.``

Hér er um að ræða allt aðrar áherslur en þær sem koma fram í frv. ráðherrans. Þessar reglur ganga raunverulega miklu lengra í mörgum tilvikum en ákvæðin í frv. hæstv. ráðherra.

Hérna kemur líka fram, herra forseti, í þessum leiðbeinandi reglum:

,,Tryggja verður í reglunum að starfsmönnum sé óheimilt að taka þátt í útboðum á verðbréfum sem fjármálafyrirtækið gefur út eða útboðum sem fjármálafyrirtækið annast fyrir aðra útgefendur nema því aðeins að í útboðunum sé óskað eftir tilboðum um hlut á föstu gengi en ekki tilboðum um verð einstakra bréfa, gengi eða vaxtakjör og að þeir gangi ekki fyrir sem fyrstir skrá sig.``

Hér er virkilega tekið á málum, fari maður yfir þessar leiðbeinandi reglur.

Starfsmönnum fjármálafyrirtækja er óheimilt að sitja í stjórn fyrirtækja o.s.frv. Hér er um að ræða leiðbeinandi reglur upp á 50 atriði sem ástæða væri til að fara yfir. Ég veit að fljótlega verður þessi skýrsla hæstv. ráðherra tekin til umræðu í þinginu og þá gefst tækifæri til að fara nánar ofan í hana. Hins vegar er ástæða til þess að vekja athygli á þessum reglum í tengslum við ýmis losaraleg ákvæði í frv. ráðherrans sem lúta að meðferð trúnaðarupplýsinga og innherjaviðskiptum.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra: Hver ber ábyrgð á því að farið sé að ákvæðum laga og reglum um innherjaviðskipti? Er einhver einn aðili ábyrgur fyrir því? Verður búið svo um hnútana að svo verði hjá öllum verðbréfafyrirtækjum?

Síðan er að finna í þessu frv. orðskrípi sem erfitt er að átta sig á og a.m.k. almenningur skilur ekki. Þeir þurfa að vera mikið inni í verðbréfaviðskiptum sem skilja hvað um er rætt í 2. gr. frv. en þar er talað um viðskiptalotu. Gott væri ef hæstv. ráðherra mundi skýra það út fyrir þingheimi. Hvað er viðskiptalota og væri ekki hægt að finna eitthvert annað orð yfir það sem hér er átt við? Ég ætla ekki að eyða tíma mínum í að skilgreina það en bið hæstv. ráðherra að gera það fyrir þingmenn og þá sem á þetta hlýða.

Það þarf að fara vel yfir ýmis atriði í efh.- og viðskn., t.d. skilgreiningu á fagfjárfestum og það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi varðandi innherjaskrána. Það þarf að fara vel yfir þau ákvæði.

Í lokin spyr ég ráðherra af því að ég er að verða búin með tíma minn, varðandi síðustu greinina, það er i-liður 7. greinar (ný 38. gr.) á bls. 6 þar sem stendur:

,,Óheimilt er einstaklingum eða lögaðilum að taka þátt í, stuðla að eða hvetja til viðskipta með verðbréf eða annarra aðgerða í því skyni að gefa ranga mynd af umfangi viðskipta með tiltekin verðbréf eða hafa óeðlileg eða óhæfileg áhrif á verðmyndun í verðbréfaviðskiptum.``

Er hér verið að taka á því sem menn hafa nefnt kennitölufár? Á að reyna að koma í veg fyrir markaðsmisnotkun með þessu ákvæði, t.d. það að beita fyrir sig kennitölum eins og gert hefur verið?

Herra forseti. Ég hef tækifæri til að fjalla um þetta mál í efh.- og viðskn. og eins og þingheimur heyrir þá hef ég ýmislegt við þetta frv. hæstv. ráðherra að athuga.