Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 15:59:02 (2023)

2000-11-21 15:59:02# 126. lþ. 28.6 fundur 232. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (álagningarstofnar) frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[15:59]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um greiðslukostnað við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi sem er 232. mál þingsins á þskj. 250.

Á síðasta löggjafarþingi voru samþykkt á Alþingi lög um greiðslukostnað við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Í lögunum var gjaldi sem eftirlitsskyldir aðilar greiða til að standa straum af rekstri Fjármálaeftirlitsins breytt á þann veg að tryggt væri að gjaldið uppfyllti á hverjum tíma skilyrði stjórnarskrárinnar um skattlagningarheimildir. Þetta þýddi m.a. að festa þurfti álagningarhlutföll í lögum í stað þess að kveða einungis á um hámark álagningar. Jafnframt þurfti að kveða nánar á um skattstofn og innheimtu svo dæmi sé tekið.

[16:00]

Í frv. sem varð að lögum á síðasta þingi sagði að miklar líkur væru á því að breyta þyrfti hlutföllum álagningar í lögum á hverju haustþingi. Hin fjölbreytta flóra eftirlitsskyldra aðila og miklar breytingar og sveiflur í rekstri þeirra gera það að verkum að nær ógerlegt er að ákveða nákvæm hlutföll álagningar á flokka eftirlitsskyldra aðila til lengri tíma en eins árs í senn.

Frv. þetta er flutt í því skyni að breyta álagningarhlutföllum 5. gr. laganna. Miðað við þau álagningarhlutföll frv. er reiknað með að álagt eftirlitsgjald á næsta ári nemi samtals rúmum 195 millj. kr. Áætluð gjöld eftirlitsins á næsta ári eru hins vegar 228 millj. Mismunurinn, 33 millj., er tekinn af ónotuðum eftirlitsgjöldum 1998 og 1999.

Með frv. þessu fylgir skýrsla Fjármálaeftirlitsins til viðskrh. um áætlaðan rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins, álit samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila á rekstraráætluninni og skýrsla Fjármálaeftirlitsins til viðskrh. um starfsemi eftirlitsins en í 16. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi segir að viðskrh. skuli gefa Alþingi skýrslu um starfsemi Fjármálaeftirlitsins.

Hæstv. forseti. Ég mæli með að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn. að lokinni umræðunni.