Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 16:01:49 (2024)

2000-11-21 16:01:49# 126. lþ. 28.6 fundur 232. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (álagningarstofnar) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[16:01]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég hef svo sem ekki neitt við efni þessa frv. að athuga eins og það liggur fyrir í 1. og 2. gr. Hér er einungis um það að ræða að verið er að fjalla um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit og gjaldtöku fyrir hana. Ég held að þetta sé allt eðli máls samkvæmt í réttum farvegi og ljóst að það er mjög mikilvægt að þannig sé búið að Fjármálaeftirlitinu að það geti sinnt því brýna verkefni sem það hefur í stjórnsýslunni.

En það sem ég stend upp til þess að ræða um er sú skýrsla sem fylgir frá viðskrh. í fskj. I með þessu frv. en samkvæmt lögum um Fjármálaeftirlit á Fjármálaeftirlitið fyrir 15. september ár hvert að gefa viðskrh. skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs. Í skýrslunni á jafnframt að leggja mat á þróun starfseminnar undangengin þrjú ár með tilliti til þess tíma sem ætla má að farið hafi í eftirlit með hverjum flokki eftirlitsskyldra aðila skv. 5. gr.

Ég held að hér sé á ferðinni mjög mikilvægt atriði í frv. um Fjármálaeftirlitið, þ.e. að viðskrh. leggi fram þessa skýrslu um starfsemi Fjármálaeftirlitsins og ég vil minna á í því sambandi að þetta ákvæði kom inn við meðferð efh.- og viðskn. á þessu máli að tilhlutan stjórnarandstöðunnar. Mér finnst sú skýrsla mjög athyglisverð sem hér er sett fram og á margan hátt hefði hún raunverulega gefið tilefni til þess að hæstv. ráðherra hefði haft nokkra framsögu um skýrsluna og starfsemi Fjármálaeftirlitsins. En hér er getið um eftirlit og athuganir sem Fjármálaeftirlitið hefur gert, að hverju þessar athuganir hafa beinst eins og hér kemur fram en þær hafa beinst að stjórnunarlegri uppbyggingu stofnana, markmiðssetningu í starfseminni, tilvist og eftirfylgni áhættustýringarreglna í víðtækri merkingu, innra eftirliti í þessu sambandi og virkni innri endurskoðanda. Eins og hér kemur fram hefur t.d. verið athugað innra eftirlit með útlánum lánastofnana og eftirlit með markaðsáhættu í starfsemi og áhættustýringu í þessum þáttum.

Hér koma fram áhyggjur Fjármálaeftirlitsins af nokkrum þáttum sem mér hefði fundist að ástæða til að ræða frekar en hæstv. ráðherra gerði og mér finnst ástæða til að efh.- og viðskn. fjalli um þessa skýrslu. Herra forseti, hér kemur fram að:

,,Áhyggjur Fjármálaeftirlitsins í þessu efni hafa ekki síst beinst að útlánavexti og þróun eigin fjárhlutfalls lánastofnana. Hefur stofnunin gert margvíslegar athugasemdir og varað við lágu eiginfjárhlutfalli hér á landi, bæði í samskiptum sínum við einstakar lánastofnanir og í almennri umræðu. Einnig hefur stofnunin beint sjónum sínum að fjármögnun lána, en erlendar lántökur lánastofnana, þar á meðal skammtímalán, hafa verið miklar.``

Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Þá hefur Fjármálaeftirlitið haft áhyggjur af skipulagi og utanumhaldi er varðar markaðs áhættu fjármálafyrirtækja, en þessi áhætta hefur vaxið hratt og innra eftirlit setið á hakanum í ýmsum tilvikum.``

Mér finnast þetta nokkuð alvarlegar athugasemdir sem hér eru settar fram sem lúta að áhyggjum Fjármálaeftirlitsins af ýmsum fjármálastofnunum, þar á meðal af eiginfjárhlutfalli þessara lánastofnana og skipulagi og utanumhald er varðar markaðsáhættu fjármálafyrirtækja. Ástæða er til þess að Alþingi láti ekki svona fara fram hjá sér án þess að ræða það. Út af fyrir sig þar sem ég á sæti í efh.- og viðskn. get ég beðið með að fjalla um þetta þar til málið kemur þangað og fengið ýmsar skýringar á þessu.

Ég minnist þess í þessu sambandi að Fjármálaeftirlitið hefur á opinberum vettvangi varað við stöðunni að því er varðar eiginfjárhlutfall ýmissa lánastofnana. Ég man ekki betur en hugmyndir hafi verið uppi, m.a. af hálfu Fjármálaeftirlitsins, um að Fjármálaeftirlitið hefði nokkurt svigrúm með lögum til þess að setja lánastofnunum skilyrði um eiginfjárhlutfall. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra um það: Er það eitthvað til skoðunar á borði hæstv. viðskrh. að skoða breytingar á eiginfjárhlutfalli lánastofnana eins og kveðið er á um í lögum? Ég vona, herra forseti, að þó að hæstv. viðskrh. sé ekki í salnum og formaður þingflokks Framsfl. eigi við hana viðtal, að hún hafi hlýtt á mál mitt og svari þeirri spurningu sem ég hef beint til hennar vegna þess að ég deili þessum áhyggjum með Fjármálaeftirlitinu varðandi stöðuna á eiginfjárhlutfalli ýmissa lánastofnana. Er hæstv. ráðherra með það á sínum borðum að skoða einhverjar breytingar á eiginfjárhlutfalli lánastofnana?

Eins spyr ég hæstv. ráðherra um það hvort hún deili áhyggjum með Fjármálaeftirlitinu sem hefur áhyggjur af skipulagi og utanumhaldi er varðar markaðsáhættu fjármálafyrirtækja en Fjármálaeftirlitið segir að þessi áhætta hafi vaxið hratt og innra eftirlit setið á hakanum í ýmsum tilvikum. Slíkar ábendingar eru náttúrlega mjög alvarlegar þegar fjármálafyrirtæki eiga í hlut.

Síðan kemur fram, herra forseti, orðrétt:

,,Almennt hefur Fjármálaeftirlitið beint því til eftirlitsskyldra aðila að skerpa á öllu innra eftirliti.``

Því er sem sagt almennt beint til eftirlitsskyldra aðila að skerpa á öllu innra eftirliti og af því er auðvitað hægt að draga þá ályktun að því sé ábótavant í ýmsum tilvikum.

Fjármálaeftirlitið bendir á og það tengist því máli sem við vorum með til umræðu síðast á dagskránni að Fjármálaeftirlitið hafi tekið til athugunar allnokkrar vísbendingar um brot á ákveðnum kafla laga um verðbréfaviðskipti, einkum meint brot á ákvæðum um innherjaviðskipti og hefur einu slíku máli verið vísað til ríkislögreglustjóra. Ástæða er til þess að spyrja hæstv. ráðherra að því að þessu gefna tilefni hvort lyktir séu komin í öll þau mál sem um hefur verið fjallað og lúta að brotum á innherjaviðskiptum. Ég held að ástæða sé til þess og ráðherrann hlýtur að vita um það hvort lokið sé umfjöllun af hálfu Fjármálaeftirlitsins í þessu máli. Síðan segir hér, með leyfi forseta:

,,Fjármálaeftirlitið tekið til skoðunar ýmis mál sem varða starfshætti fjármálafyrirtækja á verðbréfamarkaði. Niðurstaða slíkra mála snýst alla jafna um túlkun á eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum. Veigamesta reglan í þessu sambandi er að viðskiptamaður geti treyst því að hagsmunir hans séu hafðir í fyrirrúmi.``

Síðan fer Fjármálaeftirlitið inn á það sem við ræddum áðan að það hafi birt leiðbeiningar um reglur til fjármálafyrirtækja og, herra forseti, af því að við vorum að ræða það áðan og þetta er skýrsla viðskrh., þá kemur hér fram:

,,Hverju fyrirtæki fyrir sig ber að leita staðfestingar Fjármálaeftirlitsins á reglunum sem það setur sér.``

Herra forseti. Það er alveg ljóst að í skýrslu ráðherra kemur þetta fram. Við hljótum að taka það þá upp í frv. sem við vorum að ræða að allar reglur sem verðbréfafyrirtæki setja sér þurfa að fá staðfestingu Fjármálaeftirlitsins.

Herra forseti. Ég sé líka í skýrslunni að eftirlitsskyldir aðilar sem greiða starfsemi Fjármálaeftirlitsins, sem ég tel að sé réttur og eðlilegur farvegur fyrir fjármögnun í starfsemi af þessu tagi, gera ýmsar athugasemdir við rekstur Fjármálaeftirlitsins. Það er mjög óalgengt að við fáum á borð okkar slíka skýrslu þar sem gerðar eru athugasemdir við rekstur á einstaka stofnunum. Ég er ekki þar með að segja að reksturinn á Fjármálaeftirlitinu sé eitthvað slæmur. En með þessari skýrslu er opnað fyrir slíkt, það er opnuð þessi bók sem er reksturinn á Fjármálaeftirlitinu sem við höfum kannski ekki eins mikinn aðgang að því er varðar aðrar stofnanir. Hér kvarta t.d. eftirlitsskyldir aðilar yfir stjórnarlaunum stjórnarmanna í þessari stofnun sem þeir telja að séu hærri en almennt tíðkast hjá opinberum stofnunum og flestum þeim aðilum sem falla undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins. Bent er á að stjórnarlaun stofnunarinnar á þessu ári stefni í rúmar 4,6 millj. til þriggja stjórnarmanna sem er nokkuð há fjárhæð ef hver um sig fær í sinn hlut 1,5 millj. sem er dágóð laun ef það er borið saman við fólkið sem er lægst launað í þjóðfélaginu. Þá erum við að tala um hærri stjórnarlaun til hvers og eins þessara stjórnarmanna fyrir stjórnarsetu í þessari stofnun. Ég hef út af fyrir sig ekki hugmynd um það og það kemur ekki fram hve mikið verkefni það er að vera stjórnarmaður í þessari stofnun eða hve oft þeir þurfa að sitja fundi.

Það er líka gerð athugasemd við það hér og hef ég enga forsendu til að meta hvort sú gagnrýni er eðlileg eða ekki. Þó get ég tekið undir að það er nokkuð vel í látið hér og gerðar eru verulegar athugasemdir hvort fjöldi utanlandsferða og almennt umfang erlendra samskipta hjá þessari stofnun sé nauðsynlegt. Vitnað er til þess að fjöldi utanlandsferða hafi verið 60 talsins og kostnaður vegna erlendra samskipta á árinu stefni í alls tæpar 10 millj. kr. og áætlaður enn hærri á árinu 2001 eða 13,5 millj.

Ég er að vekja athygli á því að mér finnst skýrslan nokkuð til fyrirmyndar, að þingmenn geti þannig fjallað um bæði starfsemi þessarar stofnunar, Fjármálaeftirlitsins, hvað hún hefur verið að fást við, hverju hún hefur áhyggjur af í starfsemi sinni með eftirliti með fjármálafyrirtækjum sem ég hef fyrir nokkru rakið og síðan athugasemdir sem þeir aðilar gera sem standa undir fjármögnun á stofnuninni hafa að gera við rekstur á stofnuninni sem bæði snerta stjórnarlaun og utanlandsferðir.

Herra forseti. Ég mun beita mér fyrir því að efh.- og viðskn. taki skýrsluna til umfjöllunar. Mér finnst efni hennar gefa tilefni til þess og ýmislegt fleira sem ég vildi ræða en ætla ekki að gera að þessu sinni. Ég spyr, herra forseti, um álit hæstv. ráðherra á því sem ég nefndi sem lýtur að þeim áhyggjum sem Fjármálaeftirlitið hefur sett fram í þeim athugunum og eftirliti sem hún hefur haft með fjármálastofnunum. Skal ég ekki endurtaka það hér vegna þess að ég vænti þess að hæstv. ráðherra hafi verið að hlýða á mál mitt.