Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 16:15:57 (2025)

2000-11-21 16:15:57# 126. lþ. 28.6 fundur 232. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (álagningarstofnar) frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[16:15]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir tölu hennar. Það sem hv. þm. m.a. kom inn á var hvort Fjármálaeftirlitið ætti að hafa heimild til og ætti að einbeita sér að, eða öllu heldur vinna að því að setja strangari kröfur um eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja. Þá er hún að tala um að 8% eigi ekki að gilda heldur eitthvað annað og meira. Það er nokkuð til í því að e.t.v. væri ástæða til þess að smærri stofnanir að hefðu hærra BIS-hlutfall. Reyndar er verið að vinna að því á alþjóðavísu að breyta þessu fyrirkomulagi. En samkvæmt gildandi lögum hér á landi eru þetta þessi 8% almennt gildandi og ekkert meira en það.

Það hefur verið fylgst mjög vel með því sem er að gerast erlendis og það m.a. hefur kallað á ferðir stjórnarmanna, því hv. þm. kom inn á það líka. En ég held að það sé bæði áhugavert og nauðsynlegt að þetta sé skoðað í fullri alvöru. Enda er það gert.

Hv. þm. spurði um lyktir mála sem hafa verið til meðferðar hjá Fjármálaeftirlitinu og urðu til umræðu á hv. Alþingi á síðasta vetri og vörðuðu brot á innherjaviðskiptum. Það hefur opinberlega komið fram að eitt mál hefur verið sent til ríkislögreglustjóra. Að öðru leyti get ég ekki tjáð mig um það mál. Mér er ekki kunnugt um hvar önnur mál standa hjá eftirlitinu en ég trúi því að það hljóti að styttast í að frekari fregnir berist. Fjármálaeftirlitið er mjög sjálfstæð stofnun og ég vil að Fjármálaeftirlitið starfi mjög sjálfstætt. Ég tel alls ekki rétt að blanda mér inn í þá starfsemi. Ég ber mikið traust til þessrar stofnunar og tel að hún sé að vinna mjög vel og almennt að skapa sér meira og meira traust í samfélaginu.

Hv. þm. nefndi þá skýrslu sem er hér prentuð með sem fylgiskjal og er álit samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila á rekstri FME. Það er kannski dæmi um það hversu mikið aðhald er að Fjármálaeftirlitinu --- það er ekki bara að Alþingi fylgist með því starfi og sé eftirlitsaðili á sinn hátt heldur er samráðsnefndin það einnig. Þess vegna fylgir þessi skýrsla --- að nefndin hefur sent frá sér þetta álit. Það má ræða það og ekkert er óeðlilegt við að það verði rætt frekar í nefndinni. En ég taldi ekki ástæðu til þess að koma inn á það í framsöguræðu minni.

Ég ætla aðeins að koma með eina leiðréttingu. Hún varðar 4. liðinn sem hv. þm. nefndi. Stjórnarlaun stofnunarinnar eru ekki greidd þremur stjórnarmönnum heldur sex, bara svo það sé skýrt.

Að öðru leyti þá þakka ég fyrir ræðu hv. þm. og þann áhuga sem hún sýnir málinu.