Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 16:20:20 (2026)

2000-11-21 16:20:20# 126. lþ. 28.6 fundur 232. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (álagningarstofnar) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[16:20]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Ég skal endurtaka það í þessu andsvari að ég tel þessa skýrslu til mikillar fyrirmyndar.

Varðandi stjórnarlaunin þá stendur hér:

,,Stjórnarlaun eru ákvörðuð af ráðherra, en í stjórn FME sitja lögum samkvæmt þrír menn. Stjórnarlaun stofnunarinnar á þessu ári stefna í rúmlega 4,6 millj. kr. ...``

Það var því varla hægt að lesa annað úr þessu en að þetta væru þrír menn sem deildu með sér þessum launum upp á 4,6 milljónir, þ.e. ein og hálf milljón hjá hverjum þeirra sem ráðherra hefur ákveðið.

Varðandi eiginfjárhlutfallið þá fannst mér svör ráðherrans alls ekki nægilega skýr, herra forseti. Jafnvel þó að eiginfjárhlutfall sé hér í samræmi við það sem gerist erlendis þá er markaður okkar um margt öðruvísi. Það er ekki að ástæðulausu að Fjármálaeftirlitið hefur haft af því verulegar áhyggjur að við þurfum að breyta hér því hlutfalli sem við höfum búið við um nokkurn tíma. Fjármálaeftirlitið hefur sett það fram að þeir telji að þeir ættu sjálfir að hafa svigrúm til þess að ákveða kannski mismunandi eiginfjárhlutfall hjá hinum ýmsu stofnunum. Það var þetta sem ég var að leita eftir hjá hæstv. ráðherra, í fyrsta lagi hvort hún væri sammála því að Fjármálaeftirlitið hefði þetta vald að geta haft mismunandi eiginfjárhlutfall hjá hinum ýmsu fjármálastofnunum og eins hvort það væri verið að vinna að þessu máli. Ég var engu nær eftir svör ráðherrans nema að eiginfjárhlutfallið hér væri sambærilegt við það sem gerðist erlendis.

Síðan spurði ég um það sem fram kemur hjá Fjármálaeftirlitinu að það hefur verulegar áhyggjur af, þ.e. markaðsáhættu fjármálafyrirtækja og innra eftirlit. En ráðherrann kaus að ræða ekkert um það. Hér er þó um mál að ræða sem hæstv. ráðherra ætti að hafa áhyggjur af. En ég gat ekki heyrt það á máli hennar.