Ábyrgðarmenn

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 16:55:01 (2030)

2000-11-21 16:55:01# 126. lþ. 28.7 fundur 160. mál: #A ábyrgðarmenn# frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[16:55]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Um rúmlega tveggja ára skeið hefur verið í gildi sérstakt samkomulag um notkun sjálfskuldarábyrgða. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson kom lítillega inn á það nú í lokin, taldi reyndar að hér hefði verið um tilraun að ræða sem ekki hafi tekist nægilega vel. Samkomulagið var gert á milli stjórnvalda, neytenda og fjármálafyrirtækja og í því er kveðið á um bætt vinnubrögð fjármálafyrirtækja við töku sjálfskuldarábyrgða, m.a. að mat skuli lagt á greiðslugetu. Fjármálafyrirtæki er skylt að meta greiðslugetu greiðanda ef ábyrgðarmaður óskar eftir því, eða ef skuldbindingin er yfir 1 millj. Ábyrgðarmaður getur kynnt sér niðurstöðu greiðslumatsins og ber fjármálafyrirtæki að upplýsa um vankantana á greiðslugetu greiðanda. Einnig er mjög mikilvægt ákvæði um upplýsingagjöf og önnur ákvæði til verndar ábyrgðarmönnum.

Áður en þetta samkomulag var gert hafði verið unnin undirbúningsvinna og vandinn kannaður. Almennt var samstaða um það meginmarkmið að draga úr sjálfskuldarábyrgðum, m.a. var skoðað hvort setja ætti sérstök lög um ábyrgðir. Niðurstaðan þá var sú að gera það ekki, enda hefði þá verið gengið lengra en t.d. önnur Norðurlönd gera og nágrannalönd.

Ég er hins vegar sammála því meginmarkmiði sem liggur að baki frv. en að svo stöddu a.m.k. er ég ekki sannfærð um að rétt sé að fara þá leið sem lögð er til í frv. Ég tel hins vegar mikilvægt að hv. efh.- og viðskn., sem fær þetta mál til umfjöllunar, fari mjög vel yfir málið allt og ég ætla ekki að fullyrða á þessari stundu að ég geti ekki sannfærst um það eftir að hafa skoðað umsagnir og fleira að þetta sé rétta leiðin, en á þessari stundu treysti ég mér ekki til þess að ganga lengra í sambandi við yfirlýsingar um frv.