Ábyrgðarmenn

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 17:01:57 (2033)

2000-11-21 17:01:57# 126. lþ. 28.7 fundur 160. mál: #A ábyrgðarmenn# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[17:01]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er hreyft miklu þjóðþrifamáli sem þingmenn úr öllum þingflokkum á Alþingi eiga aðild að og á 1. flm., hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, þakkir skildar fyrir að hafa haft forustu um smíði þessa frv. og veg og vanda af því starfi.

Eins og fram hefur komið í framsöguræðu hans byggist frv. að miklu leyti á sjónarmiðum um neytendavernd enda nýtur frv., sem hér er flutt í fjórða sinn, stuðnings Neytendasamtakanna og annarra almannasamtaka. Einu aðilarnir sem hafa lýst efasemdum og andstöðu eru viðskiptabankarnir og sætir nokkurri furðu að í þeirra liði er einnig að finna hæstv. viðskrh., sem lýsti hér andstöðu við frv. Ég hélt sannast sagna þegar hæstv. viðskrh. kvaddi sér áðan hljóðs að það væri gert til að lýsa yfir blessunarorðum við þetta frv. sem er óumdeilanlega til mikilla hagsbóta á íslenskum lánsfjármarkaði.

Í greinargerð með frv. kemur fram að lánsfjármarkaður á Íslandi er um margt mjög frábrugðinn því sem gerist með öðrum þjóðum. Það hefur t.d. komið í ljós í rannsóknarskýrslu sem unnin var á vegum viðskrn. fyrir fáeinum árum að í samanburði við Norðurlönd er miklu stærra hlutfall einstaklinga og heimila í persónulegri ábyrgð fyrir fjárskuldbindingum annarra. Talið er að þetta hlutfall hér á landi sé 60--80% á móti um 10% á Norðurlöndum.

Þetta þýðir að lögð er ríkari áhersla á að þriðji maður ábyrgist efndir aðalskuldara og eru þess dæmi eins og kemur fram í greinargerð frv. að samningar hafi komist á þrátt fyrir að samningsaðilum hafi verið ljóst að aðalskuldari geti aldrei efnt samninginn.

Það frv., sem hér er til umræðu, gengur út á að styrkja réttarstöðu þessa þriðja aðila og þá fyrst og fremst með því að gera alla samninga skýrari. Kveðið er á um að þeir skuli vera skriflegir svo dæmi sé tekið, en mikilvægasta lagagreinin að er mínum dómi sú 9., en þar segir, með leyfi forseta, orðrétt:

,,Ekki verður gerð aðför í fasteign þar sem ábyrgðarmaður býr eða fjölskylda hans ef krafa á rót sína að rekja til ábyrgðarloforðs enda hafi ábyrgðarmaður ekki haft hag af lánveitingunni eða stofnun kröfunnar.

Kröfuhafi getur ekki krafist gjaldþrotaskipta á búi ábyrgðarmanns ef krafa hans á rót sína að rekja til ábyrgðarloforðs nema hann geri sennilegt að um sviksamlegt undanskot eigna ábyrgðarmanns hafi verið að ræða eða ábyrgðarmaður hafi haft ávinning af lánveitingunni eða stofnun kröfunnar.``

Þannig hljóðar 9. gr. þessa frv. en þess eru því miður allt of mörg dæmi að gengið hafi verið að ábyrgðarmönnum, þeir hafi jafnvel misst heimili sín og stoðum þannig kippt undan fjárhagslegu og félagslegu öryggi heilu fjölskyldnanna.

Það kom fram í framsögu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar að sl. vor hefði verið lögleitt í Noregi að banna sjálfskuldarábyrgðir af þessu tagi. Það kom einnig fram í máli hans að sú þjóð sem kæmi næst okkur í sjálfskuldarábyrgðum hefði einvörðungu sjöunda part af því hlutfalli sem hér tíðkaðist. Þótti mér þetta svara í reynd ábendingum hæstv. viðskrh. sem sagði að við ættum ekki að skilja okkur frá því sem gerðist með öðrum þjóðum. Reyndar fannst mér það koma úr hörðustu átt því Íslendingar hafa um margt verið að skera sig úr því sem gerist á lánamarkaði almennt og í skattaumhverfinu einnig. Ekki er langt síðan ég talaði fyrir þingmáli sem fjallaði um það sem má orða sem siðferðilega þröskulda sem ríki væru að reyna að koma sér saman um í skattamálum. Þar vísaði ég til vinnu sem fram færi á vegum OECD til að koma í veg fyrir að ríki niðurbyðu skattkerfi hvert fyrir öðru og þar hafa Íslendingar skorið sig úr frá öðrum þjóðum, því miður. Hæstv. viðskrh. upplýsti við þá umræðu að alþjóðlegu viðskiptafélögin sem viðskrn. vinnur að í samráði við og samvinnu við Verslunarráð Íslands væru á gráu svæði hvað þetta varðar. Eins og kunnugt er njóta hin alþjóðlegu viðskiptafélög skattaívilnana umfram önnur fyrirtæki, greiða 5% tekjuskatt á móti 30% skatti sem önnur fyrirtæki greiða.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frv., fjallað var ítarlega um það í framsöguræðu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar. En ég vil taka undir það sjónarmið sem hann setti fram að fjármagnseigendur á Íslandi hefðu lengi búið við eins konar almannatryggingakerfi. Vísaði hann þar bæði í sjálfskuldarábyrgðina og hvernig fjármagnseigendur og lánastofnananir hefðu jafnan allt sitt á þurru og gætu gengið að þriðja aðila, eins og hér hefur komið fram en einnig vísaði hann í vísitölubindingar og aðrar tryggingar sem lánveitendur hefðu hér á landi.

Reyndar hef ég alltaf farið varlega í að gagnrýna vísitölubindingu fjármagns og reynt að halda mig við að gagnrýna háa raunávöxtun á fjármagni en kannanir hafa sýnt að vísitölubinding lána hefur síst orðið til þess að hækka raunávöxtun, jafnvel dregið úr henni. Hins vegar skýtur skökku við þegar fjármagnið er tryggt með tvöföldum hætti eins og tíðkast í lánakerfinu, annars vegar vísitölubindingu fjármagnsins og hins vegar breytilegum vöxtum. En breytilegir vextir eiga að koma til sögunnar til að geta tryggt fjármagnið á verðbólgutímum. Ef verðbólgan fer yfir tiltekið mark hefur lánveitandinn tök á því að hækka vextina og tryggja raunávöxtun með þessum hætti. Hér á landi hefur hann hins vegar tvöfalda tryggingu, annars vegar vísitölubindingu fjármagnsins og hins vegar breytilega vexti sem er náttúrlega alveg fráleitur hlutur og á ekki að þekkjast að vísitölubundin lán séu jafnframt með breytilegum vöxtum.

En þetta er kannski útúrdúr og tilefnið voru þessar hugleiðingar 1. flutningsmanns um almannatryggingakerfi fjármagnseigenda eins og hann komst ágætlega að orði.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa mörg fleiri orð um þetta frv., ég tel það vera hið mesta þjóðþrifamál eins og ég nefndi áðan og mun leggja mitt af mörkum í efh.- og viðskn. til að það fái þar skjóta og góða afgreiðslu og vonandi verði það sem allra fyrst að landslögum.