Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 17:51:41 (2039)

2000-11-21 17:51:41# 126. lþ. 28.3 fundur 264. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa o.fl.) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[17:51]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Stærsta ákvæðið í þessu frv. hæstv. fjmrh. um breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt snýr að frestun á skattlagningu á söluhagnaði. Ég vil geyma mér að fjalla um önnur atriði þessa frv. en greinar þess eru um 19 talsins og eru minni háttar að mér sýnist, skýringar á kaupréttarákvæðum, kæruleiðum í skattinum og ýmsar leiðréttingar sem mér sýnist vera minni háttar en mun skoða nákvæmlega við meðferð málsins í efh.- og viðskn.

Ítarlega var rætt um þetta ákvæði um frestun á skattlagningu á söluhagnaði við umfjöllun um frv. Samfylkingarinnar um sama efni þannig að ég get frekar stytt mál mitt. Þó vil ég fara út í nokkur atriði sem mér finnst enn óljós í þessu máli, ekki síst það atriði sem snýr að þeim mismun sem er á ákvæðum þessa frv. og þingmanna Samfylkingarinnar varðandi frestun á skattlagningu á söluhagnaði.

Nokkuð var spurt um það við þá umræðu sem við fórum í gegnum í gær hvers vegna hæstv. fjmrh. skildi eftir það ákvæði sem kom inn í skattalögin 1998 og snertir heimild lögaðila til að fresta skattalgningu á söluhagnaði með sama hætti og var ákveðið 1996 með upptöku fjármagnstekjuskatts að því er varðar einstaklinga.

Nú geri ég ráð fyrir að 1998 hafi þetta ákvæði verið sett inn til samræmingar við það ákvæði sem var 1996, þ.e. að heimila einstaklingum þessa frestun. Þá veltir maður fyrir sér, þegar menn hafa viðurkennt að þetta ákvæði varðandi einstaklingana hafi ekki náð tilgangi sínum, raunar þveröfugt og stuðlað að allt öðru en var upphaflega lagt upp með, af hverju er ekki um leið fallið frá þessari frestun að því er lögaðila varðar.

Herra forseti. Ég vil rifja upp að þegar ákvæðið um einstaklingana og frestun á skattlagningu á söluhagnaði þeirra var tekin upp við 2. umr. um frv. til laga um fjármagnstekjuskatt, þ.e. laga um tekjuskatt og eignarskatt, en fjármagnstekjuskattur er auðvitað inni í þeim lögum, kom orðrétt fram í nál. minni hlutans, en þá er ég að vitna til þessa ákvæðis þar sem heimilað var að fresta skattlagningu á söluhagnaði, en það segir í þessu áliti minni hlutans 1996, með leyfi forseta:

,,Með þessari aðferð geta einstaklingar í reynd frestað skattlagningu söluhagnaðar endalaust.``

Það liggur því nokkuð ljóst fyrir og rétt að halda til haga að stjórnarandstaðan í efh.- og viðskn. hefur reyndar áttað sig á hvað þetta ákvæði um frestun á skattlagningu söluhagnaðar gæti þýtt.

Ég vil líka halda til haga í umræðunni, af því það snertir málið óbeint, að í umsögn bæði ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra þegar þetta ákvæði kom inn og fjármagnstekjuskattur var til umræðu, vöruðu þessir aðilar, skattrannsóknarstjóri og ríkisskattstjóri, við þeirri leið sem var tekin upp varðandi fjármagnstekjuskattinn. En hér segir í umsögn skattrannsóknarstjóra:

,,Augljós er þá sú hætta að óeðlilega stór hluti greiðslna verði færður sem arður sem ella væri meðhöndlaður sem laun. Verður að telja öruggt að einhver hópur sjálfstætt starfandi einstaklinga muni breyta formi rekstrar síns í því skyni að lækka skattgreiðslur sína með því að taka fé út úr félögunum í formi arðs að svo miklu leyti sem eigið fé félags leyfir slíkt.``

Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Verulegir hagsmunir munu verða af því að stofna einkahlutafélög og fá greiðslur frá því í formi arðs.``

Í sama streng tekur raunverulega ríkisskattstjóri í áliti sínu en þar kemur fram:

,,Enginn vafi er á því að ef tilteknar tekjur eru skattlagðar með mun lægri skattprósentu en launatekjur mun það valda því að reynt verður að breyta launatekjum yfir í það form sem er skattlagt með lægri prósentu.``

Í frv. hæstv. ráðherra er verið að ganga lengra í þessu efni. Skattlagning á söluhagnað var 10% upp að tilteknu hámarki en yfir hámarkið, 3,2 milljónir hjá einstaklingi og 6,4 milljónir hjá hjónum, var skatthlutfallið það sama og í tekjuskatti. Með þessu frv. ráðherrans er verið að breyta því að söluhagnaður er í öllum tilvikum skattlagður með 10% skatti.

Framsóknarmenn hafa haft fyrirvara einmitt á þessu ákvæði. Ég trúi því varla, herra forseti, þegar við erum að fjalla um þetta mál þá heyri það enn einu sinni til undantekninga ef maður sér framsóknarmenn í þingsalnum. Ég vil spyrja um einn hv. þm., formann þingflokks framsóknarmanna, sem hefur tjáð sig sérstaklega um það í blöðum að þingflokkur Framsfl. hafi haft ákveðinn fyrirvara á því ákvæði sem ég nefndi, þ.e. að skattleggja allan söluhagnað með 10% skatti og þar með að lækka verulega skatt á söluhagnaði yfir tiltekið mark.

Mér er því spurn: Er raunverulega um stjórnarfrv. að ræða þegar svona afgerandi fyrirvari er settur fram af hálfu þingflokks framsóknarmanna? Ég trúi ekki öðru en að þeir tjái sig um það í umræðunni, ekki síst formaður þingflokks framsóknarmanna.

Við höfum haft af því áhyggjur, þingmenn Samfylkingarinnar, að það að skilja eftir lögaðila og heimila þeim áfram að fresta skattlagningu á söluhagnaði væri ekki skynsamleg leið vegna þess að þá væri áfram skilin eftir skattsmuga sem þeir aðilar sem hafa fallið undir það ákvæði sem á nú að fella brott, þ.e. frestun á skattlagningu á söluhagnaði einstaklinga, gætu hugsanlega nýtt sér með stofnun eignarhaldsfélaga eða jafnvel einkahlutafélaga, sem á að skilja eftir, þ.e. að heimila áfram frestun á skattlagningu á söluhagnaði. Mér finnst mjög mikilvægt fyrir umfjöllun málsins í efh.- og viðskn. að hæstv. ráðherra tjái sig um það atriði sem ber svo á milli í frv. okkar þingmanna Samfylkingarinnar og hæstv. ráðherra.

[18:00]

Ég held að það sé alveg ljóst að mjög mikil fjölgun hefur orðið á stofnun þessara einkahlutafélaga. Ég fór inn á það í ræðu minni í gær að það hefur fjölgað á örfáum árum eða á fjórum árum um 4.900 einkahlutafélög. Ég vitna þar til ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra sem töldu að það opnaði leið til þess að færa ákveðinn hluta launatekna yfir í arð sem væri einungis greiddur af 10%.

Mér finnst, herra forseti, líka ástæða til að nefna það að í frv. hæstv. fjmrh. frá 1998, þegar lögaðilar voru teknir inn með sama hætti og einstaklingar varðandi þessa frestun, þá komu fram ákveðnar upplýsingar í grg. með því frv. En þar kom fram, eins og ég sagði í máli mínu í gær, að ekkert af löndum OECD skattleggur söluhagnað með sama hætti og arð en tillaga fjmrh. er að það verði gert núna með þessu frv.

Síðan kom það fram í grg. með frv. fjmrh. frá 1998, sem mér finnst mjög athyglisvert, en þar segir, með leyfi forseta:

,,... er söluhagnaður hlutabréfa í OECD-löndunum yfirleitt skattlagður með skatthlutfalli hlutafélagsins, ...``

Ef þetta er rétt að söluhagnaður hlutabréfa í OECD-löndunum sé skattlagður með skatthlutfalli hlutafélaga þá erum við að tala um skatthlutfall hér á landi sem nemur 30% en allan söluhagnað og arð á nú að færa í 10%.

Ég vil spyrja: Hefur nokkuð breyst frá því að þetta var sett fram í grg. hæstv. ráðherra að þannig sé því háttað innan landa OECD að skatthlutfall af söluhagnaði sé yfirleitt um 30% eða sama og skattlagning af hlutafélögum sem er hér á landi 30%?

Það er ástæða til að halda því til haga að með þeirri leið sem fjmrh. leggur til er verið að auka á mismuninn hvernig tekjur eru skattlagðar eftir því hvort um er að ræða launatekjur eða tekjur af fjármagni. Enn er því verið að ýta undir það og búa til hvata að því að stofnuð séu fleiri einkahlutafélög og að hægt sé að skammta sér þá frekar arðgreiðslur í stað launa og greiða aðeins af því 10% skatt á meðan launamaðurinn þarf að greiða 30% skatt af launatekjum sínum. Það er þetta sem við í Samfylkingunni höfum haft áhyggjur af og vænti ég þess að hæstv. ráðherra tjái sig um það mál í umræðunni.

Í grg. með frv. þingmanna Samfylkingarinnar er farið yfir áhrifin líka af þessum lögum varðandi söluhagnað í sjávarútvegi en það er einmitt gífurlegur söluhagnaður sem einstaklingar hafa fengið af sölu hlutabréfa í sjávarútvegi sem hefur eðlilega sætt mikilli gagnrýni í þjóðfélaginu. Í grg. með frv. þingmanna Samfylkingarinnar segir að markaðsverð aflahlutdeilda hafi farið hækkandi allt frá því að gildandi lög um stjórn fiskveiða voru sett. Einstaklingar sem hafa selt aflahlutdeildir en hafa ekki keypt aðrar í staðinn hafa því oft hagnast verulega, jafnvel þótt þeir hafi greitt fullan tekjuskatt af ágóðanum. Síðan er það kjarnaatriðið sem sýnir einmitt eina hliðina á gífurlegri eignatilfærslu í sjávarútvegi að þegar hlutabréf eru seld með hagnaði, sem stafar af hækkuðu verði á aflahlutdeildum, geti þeir frestað skattlagningu og þar með komist hjá henni með því að kaupa hlutabréf í öðrum hlutafélögum sem þurfa ekki að vera tengd útgerð og skrásett eru hér á landi.

Ég spyr: Er nokkuð komið í veg fyrir það eða tekið á þessu meðan skilið er eftir það ákvæði sem lýtur að lögaðilum? Vegna þess að ég er eiginlega sannfærð um, herra forseti, að sú leið sem ég tel að hafi verið mistök að taka inn 1996 og 1998, hafi stuðlað að mikilli og afar óeðlilegri eigna- og tekjutilfærslu í þjóðfélaginu og bætt stöðu þeirra sem mikið hafa fyrir en dregið úr fjármunum til samneyslunnar. Það sem snýr að sjávarútveginum og menn benda á í tengslum við þetta mál, ég sé ekki að neinar breytingar verði þar á meðan við skiljum eftir þann þátt sem lýtur að lögaðilum. Ég hygg að það sé alveg ljóst að sú lagasetning frá 1996 og reyndar 1998 hafi stuðlað að því að margir hafi farið með mikla peninga út úr sjávarútveginum og komist hjá skattlagningu til viðbótar því að reiða ekki fram fyrir þau afnot sem viðkomandi fékk af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar.

Ég vil einnig spyrja um ákveðið ákvæði sem var líka breytt í tekjuskattslögunum, sú breyting kom inn að ég held 1998, en það er breyting sem virðist stuðla að því að eignarhaldsfélög í eigu Íslendinga erlendis fjárfesti ekki í fyrirtækjum á Íslandi að því er haldið er fram, en þar er um að ræða ákvæði um að erlendir aðilar greiði 20% skatt af söluhagnaði þeirra í íslenskum hlutafélögum. Því hefur verið haldið fram að sambærilegt ákvæði sé óvíða að finna í löggjöf nágrannalanda okkar og sé því fallið til þess að stuðla að því að fjármagn í eignarhaldsfélögum leiti ekki heim. Þetta er talin ástæðan fyrir því að fjármálafyrirtæki hafi að undanförnu stofnað dótturfyrirtæki erlendis því að þar með geti þau verið örugg um að þurfa ekki að gefa skattyfirvöldum á Íslandi upplýsingar um söluhagnað erlendra aðila í íslenskum hlutafélögum.

Í þessu sambandi vil ég spyrja hæstv. fjmrh. um það sem kom fram hjá ríkisskattstjóra sem segir að íslenskum verðbréfafyrirtækjum sem hafa haft milligöngu um sölu hlutabréfa í eigu erlendra aðila beri skylda til að halda eftir 20% af söluhagnaði, en fram kom hjá ríkisskattstjóra að misbrestur hafi orðið á að þetta sé gert og það sé eitt af þeim verkefnum skatteftirlitsins sem bíði úrlausnar. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki eigi að taka á þessu máli. Ef þetta veldur þeim vandkvæðum sem menn hafa verið að ræða um, að hafa þetta í þessu skatthlutfalli, eða 20%, þá væri þetta auðvitað eitt af því sem kæmi til skoðunar ef litið yrði á þá leið sem við viljum að menn taki upp á borðið og skoði kosti og galla á, þ.e. að samræma skattlagningu og koma á jafnræði hvort sem um er að ræða tekjur af launum eða fjármagni. Þetta væri þá eitt af þeim atriðum sem kæmu til skoðunar í því sambandi.

Herra forseti. Ég get farið að ljúka máli mínu. Ég fagna því að hv. formaður þingflokks framsóknarmanna er hér genginn í salinn og vænti þess að hann taki þátt í þeim umræðum sem hér fara fram um frv. sem þingflokkur hans hefur gert ákveðinn fyrirvara um og snertir það að verið er að fara með skattlagningu á söluhagnaði alfarið í 10% skatt. Hv. formaður þingflokks framsóknarmanna, Kristinn H. Gunnarsson, hefur réttilega bent á að með því er verið að lækka verulega skattlagningu á söluhagnaði eða þeim hluta hans sem borið hefur sama skatthlutfall og í tekjuskatti. Þetta vekur spurningar um, eins og ég sagði áðan, herra forseti, hvort hér sé ekki á ferðinni stjórnarfrv. þegar þingmenn Framsfl. standa að málum eins og hv. formaður þingflokks framsóknarmanna hefur upplýst um og nauðsynlegt fyrir málið í framhaldinu á þinginu að vita hver er nákvæmlega afstaða þingflokks framsóknarmanna til þess máls. Kannski er rétt að spyrja hv. þm. hvort hann geti ekki fallist á það að eðlilegt sé að skoða þá leið af fullri alvöru og taka hana upp og kortleggja hvort ekki sé rétt að skoða samræmingu á skattlagningu á tekjum, þ.e. að tekjur séu skattlagðar með sama hætti af fjármagni og launum, ásamt því hugsanlega að skoða ýmislegt í skattumhverfi fyrirtækja sem hefur gert þeim erfitt fyrir í alþjóðlegri samkeppni eins og eignarskattinn, hugsanlega lækkun á honum í tengslum við slíka samræmingu og eins það að skoða hugsanlega lækkun eða niðurfellingu á stimpilgjöldum sem ég held að gagnist bæði heimilunum í landinu og atvinnulífinu með mjög afgerandi hætti.

Herra forseti. Ég sé að tíma mínum er að ljúka og meginerindi mitt hér í ræðustól var að halda til haga því sem mér finnst mjög nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. upplýsi í umræðunni: Hvers vegna í ósköpunum er verið að skilja eftir þann þáttinn sem snýr að lögaðilum og heimila þeim áfram frestun á skattlagningu á söluhagnaði þegar verið er að loka fyrir þetta hjá einstaklingum? Er ekki rétt og eðlilegra að loka fyrir slíka heimild til frestunar á skattlagningu bæði hjá lögaðilum og einstaklingum?