Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 18:12:08 (2040)

2000-11-21 18:12:08# 126. lþ. 28.3 fundur 264. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa o.fl.) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[18:12]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Í þessu frv. sem telur einar 19 greinar er tekið á ýmsum þáttum tekjuskatts- og eignarskattslaga, sumt þess eðlis að um það munu án efa ekki rísa miklar deilur og má nefna sem dæmi að ríkisskattstjóra er skv. 15 gr. frv. veitt heimild til að breyta ákvörðunum skattstjóra hafi yfirskattanefnd eða dómstólar með úrskurði eða dómi kveðið upp úr með það að skattaframkvæmd hafi ekki samrýmst lögum. Ýmis ákvæði af þessu tagi er að finna í frv.

Þá má nefna sitthvað sem er vissulega umdeilt en er greinilega sett fram til að gera lagatextann skýrari. Það á t.d. við um 2. gr. þar sem vikið er að kaupréttarsamningum. Það er ákvæði í skattalögum sem var reyndar mjög umdeilt á sínum tíma og er enn, þetta er skattívilnunarákvæði, eitt af margfrægum góðverkum sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir gagnvart hlutafélögum en samkvæmt þessu lagaákvæði sem er að finna í 8. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt er hlutafélögum veitt heimild til að greiða starfsmönnum laun í formi hlutabréfa að upphæð 600 þús. kr. á ári en eins og kunnugt er ef verðbreyting verður á þessum hlutabréfum og einstaklingurinn selur þá greiðir hann einvörðungu 10% skatt en ekki tekjuskatt samkvæmt tekjuskattsprósentu eins og mörg okkar lögðu til á sínum tíma.

Þetta ákvæði er að sönnu umdeilt, en stóra umfjöllunarefni þessa frv. lýtur að frestun skattlagningar á söluhagnaði hlutabréfa og það deilir enginn um það lengur að lögin frá 1996 hafa leitt okkur út í ógöngur á þessu sviði, en í grg. með frv. segir m.a., með leyfi forseta:

[18:15]

,,Ýmislegt bendir til þess að þeir sem hafa hagnast vel á sölu hlutabréfa á undanförnum árum hafi í vaxandi mæli nýtt sér umrædda frestunarheimild. Þá virðast sífellt fleiri telja að hagstæðara sé að ávaxta það fé í hlutafélögum, sem eru annars staðar en á Íslandi, vegna hagstæðari skattareglna og í ýmsum tilvikum í skjóli bankaleyndar. Leiða má líkur að því að í mörgum tilvikum falli skattlagningin jafnvel niður vegna skorts á upplýsingum. Þetta tvennt, frestun skattgreiðslna og hagstætt skattaumhverfi, eru án efa helstu ástæður þess að stærri fjárfestar hafa kosið að stofna eigin hlutafélög erlendis. Þannig má halda því fram að í gildandi reglum felist ákveðin hvatning fyrir einstaklinga til þess að fjárfesta í félögum erlendis fremur en hér á landi. Íslenskir fjárfestar hafa því getað takmarkað skatta sína með því að greiða sér arð frá hinu erlenda félagi sem er skattlagður með 10% skatti hér á landi. Þetta er gert þar sem hagstæðara er að fá fjármagnstekjur í formi arðs en söluhagnaðar þegar fjárhæðirnar eru orðnar háar.``

Hvernig vill hæstv. fjmrh. bregðast við þessum vanda? Jú, hann vill í grófum dráttum gera tvennt.

Mér finnst, herra forseti, að ef menn ætla yfirleitt að vera í þingsalnum að þá eigi þeir að hlýða á umræður en ekki taka þátt í öðrum fundum úti í sal. Ég beini þessum orðum mínum til hv. þm. Kristjáns Pálssonar.

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill áminna þingmenn um að gefa hljóð í þingsalnum.)

Ég spurði hvernig hæstv. fjmrh. vildi bregðast við þeim vanda sem við stöndum hér frammi fyrir, að þessi heimild í lögunum frá 1996 hafi orðið til þess að einstaklingar komi sér hjá því að greiða skatta og reyni í ofanálag að koma peningum út úr landinu.

Mér er fullkomin alvara, herra forseti. Ég mun gera hlé á minni ræðu þar til menn geta haft eirð í sér til að sitja og hlýða hér á umræður í stað þess að vera að efna til annarra funda hér í salnum. (Gripið fram í.) Já já, ég mun standa við það. (Gripið fram í: Þú ættir að líta í eigin barm.) Þá sjaldan að menn reka hér inn höfuðið þá finnst mér eðlilegt að þeir taki þátt eða sýni þingstörfum tilhlýðilega virðingu.

Hæstv. fjmrh. vill bregðast við með því að afnema þessa frestunarheimild en aðeins að hluta til. Hann vill aðeins afnema þessa frestunarheimild gagnvart einstaklingum en ekki gagnvart fyrirtækjum, ekki gagnvart lögaðilum, eins og það mun vera orðað.

Hitt sem hæstv. fjmrh. vill gera er að sjá til þess að allur söluhagnaður verði skattlagður með 10% hlutfalli en ekki samkvæmt tekjuskattsprósentu. En eins og hér hefur margoft komið fram þá er það svo að fari þessi hagnaður yfir 3,2 millj. kr. hjá einstaklingi eða 6,4 millj. kr. hjá hjónum þá er það sem umfram er skattlagt samkvæmt tekjuskattsprósentu, hvort sem það er 45% hátekjuskattur eða rúmlega 38% skattur, séu menn í lægri kantinum sem er nú sennilega í færri tilvikum hjá þeim sem hér eiga í hlut.

Hér hefur komið fram annað frv. þar sem lagt er til að farin verði önnur leið hvað báða þessa þætti snertir. Í fyrsta lagi er lagt til að frestunarheimildin verði afnumin gagnvart öllum aðilum, ekki aðeins einstaklingum heldur einstaklingum og fyrirtækjum. Samkvæmt því frv. er einnig lagt til að söluhagnaður verði skattlagður samkvæmt tekjuskattsprósentu en ekki farið niður í 10%. Ég lýsti þeirri afstöðu minni hér við umræðu um það frv. í gær að ég væri því fylgjandi.

Það hefur komið í ljós að ýmsir aðrir eru fylgjandi þeirri leið. Þannig hefur verið vitnað í þingflokksformann Framsfl., hv. þm. Kristin H. Gunnarsson, en hann hefur lýst því yfir að framsóknarmönnum finnist álitamál að lækka skatt um 28 prósentustig af miklum söluhagnaði, á þá leið var vitnað í ummæli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar í leiðara Morgunblaðsins 19. þess mánaðar. Í þessum leiðara Morgunblaðsins er reyndar að finna ýmsa athyglisverða þætti. Þar er t.d. vitnað í Magnús Guðmundsson, bankastjóra Kaupþingsbankans í Lúxemborg, en hann sagði, ég vitna hér í leiðara Morgunblaðsins frá 19. nóv., með leyfi forseta:

,,Ég tel mjög jákvætt að menn geti gert upp sinn skatt og síðan snúið sér að næstu fjárfestingu. Eftir þessa breytingu verða arðgreiðslur og söluhagnaður meðhöndluð með sama hætti. Hætt verður að mismuna mönnum eftir því, hvernig tekjurnar myndast. Það er mjög jákvætt.``

Hér er vitnað í ummæli Magnúsar Guðmundssonar, bankastjóra Kaupþingsbankans í Lúxemborg. En ég er ansi hræddur um að Magnús Guðmundsson bankastjóri Kaupþingsbankans hafi ekki viljað ganga lengra en þessu nemur. Mér er spurn vegna þess að við þessa umræðu hefur komið fram að mörg okkar eru á því máli að ekki eigi að gera greinarmun á fjármagnstekjum annars vegar og launatekjum hins vegar, að ef við ætlum að afnema mismuninn þá eigi að horfa til launatekna einnig. Reyndar er það nokkuð sem Morgunblaðinu kemur alla vega ekki á óvart því að þar segir, og vitna ég aftur í leiðara Morgunblaðsins, með leyfi forseta:

,,Þótt Magnús Guðmundsson nefni hér einungis arðgreiðslur og söluhagnað og segi réttilega, að það eigi ekki að mismuna við skattlagningu eftir því hvernig tekjur myndast, getur nákvæmlega sama sjónarmið átt við um launatekjur.``

Og áfram segir, með leyfi forseta:

,,Þegar fjármagnstekjuskattur var tekinn upp á sínum tíma voru rökin fyrir því að skattprósentan ætti að vera mun lægri af þeim tekjum en launatekjum þau að hærri skattprósenta mundi draga úr viðleitni til sparnaðar. Þau rök voru áreiðanlega rétt á þeim tíma. Síðan hafa aðstæður breyst að verulegu leyti og þess vegna má búast við að frumvarp fjármálaráðherra veki þessar umræður á ný ...``

Síðan heldur leiðarinn áfram og erum við þar komin að fyrrnefndri tilvitnun í hv. þm. Kristin H. Gunnarsson. Nú verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig framsóknarmenn bregðast við, hvort þeir gangi í lið með stjórnarandstöðunni hvað þetta snertir. Allir talsmenn hennar sem tekið hafa til máls fram til þessa hafa lýst þeim vilja sínum að halda skattprósentu á söluhagnaði í hlutfalli við tekjuskatt. Það verður fróðlegt að heyra sjónarmið formanns þingflokks Framsfl. við þessa umræðu á eftir en síðan mun þetta mál að sjálfsögðu koma til kasta efh.- og viðskn.

Að lokum langar mig til að óska eftir því að hæstv. fjmrh. skýri hvernig á því stendur að hann vill gera þennan greinarmun á einstaklingum annars vegar og lögaðilum hins vegar. Nú hefur komið fram að einstaklingar eiga kost á að stofna um sig félög og gerast þá væntanlega lögaðilar. Það hefur komið fram við þessa umræðu og vitnað þar í þinggögn, að einkahlutafélögum hefur fjölgað mjög á undangengnum árum eða um 64% frá árinu 1996. Það ár voru þau 8.766 talsins en eru nú, eða voru þegar svar var veitt við fyrirspurn sem ég hygg að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hafi borið fram hér á Alþingi, 13.656 á þessu ári og hefur þannig fjölgað um tæplega 4.900.

Ég spyr mig: Er ekki sú hætta fyrir hendi, ef gerður er þessi greinarmunur á einstaklingum annars vegar og lögaðilum hins vegar, að einstaklingar fari einfaldlega þá leið að stofna um sig félög? Þetta er atriði sem fróðlegt væri að heyra skýringar hæstv. fjmrh. á.

Herra forseti. Ég held að við þessa 1. umr. málsins hafi ég komið fram meginsjónarmiðum mínum. Eins og ég gat um eru í þessu frv. einar 19 lagagreinar sem munu að sjálfsögðu fá rækilega og vandaða skoðun í efh.- og viðskn. Ég vona að breyting verði gerð á þessu frv. Ég mun styðja það frv. sem kom hér til umræðu í gær þótt ég telji að sönnu að hér sé stigið skref fram á við.