Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 18:27:38 (2041)

2000-11-21 18:27:38# 126. lþ. 28.3 fundur 264. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa o.fl.) frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[18:27]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frv. til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Í upphafi vil ég segja að ég held að afnám frestunarheimildarinnar, sem er meginatriði þessa frv., sé af hinu góða. Ég held að þessi frestunarheimild hafi í raun aldrei þjónað þeim tilgangi sem að var stefnt og eru nú ekki nema rétt rúm fjögur ár síðan þessi heimild var lögfest.

Það rekur okkur kannski líka til þess, þegar menn ræða um hvort peningar streymi úr landi eða hvort menn eru tilbúnir að fjárfesta hér eða ekki, að hugleiða að árlega eru 5--10 frv. lögð fyrir hið háa Alþingi sem eru meira og minna til þess ætluð að breyta skattaumhverfi einstaklinga og fyrirtækja. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þessi staðreynd hefur áhrif og að menn hugsi sig a.m.k. tvisvar um þegar þeir hafa farið með fé héðan, hvort þeir komi með það aftur.

Ég hef heyrt á mönnum sem fjalla um þessi mál frá degi til dags að þeir hafi nánast óskað eftir því að ríkisstjórnin eða þeir sem með þau mál véla gefi yfirlýsingar um að skattaumhverfinu verði ekki breytt á morgun eða hinn. Skattaumhverfið skiptir fyrirtæki og einstaklinga miklu máli og því er mikilvægt að menn viti nokkurn veginn að hverju þeir ganga í þeim efnum.

[18:30]

Hins vegar er þetta umhverfi sem og önnur að breytast frá degi til dags og sú staðreynd er eftirtektarverð varðandi aðra breytingu sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerði örlítið að umtalsefni áðan, að jafnvel er það svo að sumum lögum er einfaldlega ekki framfylgt. Um það má nefna sem dæmi þá reglu sem er, ef ég man rétt, í 114. gr. tekjuskattslaganna, þ.e. um fyrirtæki eða aðila með takmarkaða skattskyldu á Íslandi, ef ég man þetta orðalag rétt. Þar er kveðið á um að slíkir aðilar greiði upp undir 20% af söluhagnaði og er verðbréfafyrirtækjunum eða þeim sem kaupa af þessum aðilum ætlað að halda eftir þessum skatti.

Ég held að ég fari ekki rangt með, virðulegi forseti, og hæstv. fjmrh. getur þá leiðrétt mig í því, en ég held að það hafi ekki komið ein einasta króna í ríkissjóð á þessu forsendum. Hæstv. fjmrh. leiðréttir mig þá ef ég fer með rangt mál. Dæmi eins og þetta sýnir hve mikilvægt er að menn fari mjög vandlega og yfirvegað í að gera breytingar á skattkerfinu.

Ég sagði í upphafi að ég væri sammála því að afnema þá frestunarheimild sem hér hefur verið. En um leið hljótum við að gera til þess ríkar kröfur að menn átti sig á því hvað stjórnvöld eru að fara. Ég held að skort hafi á það í þessum efnum og þess vegna kannski spinnst þessi umræða og framlagning þessa frv. gefur tilefni til að menn ræði meira heildstætt um það hvernig þeir vilja haga skattkerfinu og skattprósentunni. Ég held að það sé mjög áhugavert í ljósi þeirra breytinga sem hér hafa verið að eiga sér stað, þ.e. að einstaklingar hafa jafnvel verið að gera sig út sem einhvers konar einkahlutafélög. Þeir þiggja jafnvel laun í formi arðs. Þeir geta jafnvel skrifað hinn daglega rekstur á hlutafélög og eru að einhverju leyti farnir að gera sig út í formi hlutafélags, ef svo má að orði komast. Þessi staðreynd og þessir möguleikar hljóta að kalla miklu meira á að menn fari að gera minni mun á einstaklingum og lögaðilum, þegar þetta er farið að renna í þennan farveg. Þess vegna finnst mér athugandi þær hugmyndir sem hér hafa verið bornar fram um að menn skoði í mikilli alvöru að reyna að koma á flötum tekjuskatti og breytir þá engu hvort þær tekjur eru af eignum, fjármagni, launatekjum eða hverju nafni sem þær nefnast.

Ég hef heyrt þau rök færð fram að áhættan af því að fjárfesta, þ.e. nýta fjármagnið, sé svo mikil að sú áhætta geri kröfu til þess og réttlæti það að skattprósenta af fjármagni sé lægri. Ég held að það breyti í sjálfu sér engu. Viðskipti eru þess eðlis að í þeim felst alltaf ákveðin áhætta. Í viðskiptum felst ákveðin áhætta. Það er kjarni málsins og breytir þá engu hvort um er að ræða að fjárfesta með fjármagni eða hvað það er. Í viðskiptum felst ákveðin áhætta. Annars væru allir í viðskiptunum frá degi til dags. Annars væri vart nokkur maður að stunda hér annað líferni en það sem skilaði honum sem mestum arði og sem mestri ávöxtun og allir væru þá í viðskiptum.

En við skulum heldur ekki í þessu samhengi gera lítið úr því að auðvitað felst ákveðin áhætta líka í því að vinna sem launamaður. Verði af þeim veruleika að þeir bankar sem hafa verið að mestum hluta í eigu ríkisins um langt skeið verði sameinaðir þá kemur tiltekið launafólk væntanlega til með að missa sín störf þannig að það er alveg ljóst að í því felst líka áhætta að þiggja launatekjur eða selja sjálfan sig á vinnumarkaði. Ég er ekkert endilega viss um það, þegar menn fara að ræða það ofan í kjölinn, að sú áhætta sé nokkuð miklu minni en sú áhætta sem felst í því að fjárfesta með einhvers konar fjármagni. Ég er ekki viss um það ef menn fara að ræða það ofan í kjölinn. Ég held að þessi rök ein út af fyrir sig réttlæti það ekki endilega að það eigi að vera lægri skattprósenta á arð af fjármagni en af launatekjum og þá ekki síst í ljósi þeirrar þróun sem við höfum horft upp á að menn eru að hluta til farnir að reka heimili sín og sjálfa sig í gegnum einkahlutafélög. Þá er enn fremur held ég að stórum hluta þessi röksemdafærsla brostin.

Ég sagði í upphafi máls míns að ég fagnaði því að þetta frv. væri komið fram og kannski fyrst og fremst vegna þess að verið er að afnema þennan frestunarmöguleika. Það er a.m.k. hugmyndin með frv. En þó kannski fyrst og fremst vegna þess að framlagning frv. kallar á ákveðna umræðu um þessi mál, ákveðna almenna umræðu sem ég held að mikil ástæða sé til að við förum í, einkanlega í ljósi þeirra miklu og öru breytinga sem hafa verið hér á fjármagnsmarkaði, atvinnumarkaði, í svokallaðri alþjóðavæðingu o.s.frv. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við förum að ræða þessi skattamál upp á nýtt í ljósi þeirrar hugmyndar sem fram hefur komið í þessari umræðu og byggir á því að menn skoði hvort ástæða sé til þess að jafna skattprósentu á hvaða tekjur sem er, og svona til þess að kasta einhverju upp í loftið þá mætti nefna svona 20% flata skattprósentu, hvort heldur á fjármagnstekjur eða launatekjur, eða 25%. Ég held að það mætti vel skoða.

Ákvæðið til að mynda sem ég vitnaði til áðan í 114. gr. sýnir líka dálítið vandann í hnotskurn. Það færir okkur heim sanninn um að hraðinn í viðskiptum og þessar breytingar sem eru að eiga sér stað gera út af fyrir sig miklu erfiðara að innheimta skatta en hér var á árum fyrr. Menn eru ekki lengur með stóra bók þar sem þeir færa debet og kredit. Það hefur svo margt breyst þannig að ég held að full ástæða sé fyrir okkur að skoða og ræða þessi skattamál upp á nýtt og ræða jafnvel hvernig menn hafa hugsað sér skattinnheimtuna í framtíðinni. Við erum með dæmi um ákvæði sem hefur ekkert virkað og ég held að jafnvel skatturinn komi til með að eiga mjög erfitt með að fylgjast með viðskiptum sem fram fara í þessum hröðu breytingum sem við erum að ganga í gegnum.