Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 18:39:48 (2043)

2000-11-21 18:39:48# 126. lþ. 28.3 fundur 264. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa o.fl.) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[18:39]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Herra forseti. Almennt um það andsvar sem hér hefur verið gefið vil ég segja að þær hugmyndir sem ég og fleiri höfum verið að velta upp eru um almennan flatan skatt, hvort heldur á fjármagn eða launatekjur, og breytir þá engu hvort er. Þannig að það er ekki það sama og hv. þm. var að tala um.

Eins og ég skildi hv. þm. þar sem hann var að fjalla um skattsvik o.s.frv. þá er einfaldlega meginforsenda framlagningar frv. þess sem hæstv. fjmrh. ber hér fram, að menn hafa notað þann söluhagnað sem þeir hafa fengið vegna frestunar til þess að fjárfesta í eigin félögum hvort heldur er á Íslandi eða erlendis. Síðan hafa þeir kannski tekið þann hagnað út í formi arðgreiðslna. Hvort menn hafa síðan keypt sér ísskápa eða annað fyrir þær arðgreiðslur skal ég ekkert um segja. Ég var ekki að segja að menn væru að stunda skattsvik. Ég var hins vegar að segja að menn hafi verið að notfæra sér ákveðnar holur í skattkerfinu. Ef marka má sögubækur þá fórum við frá Noregi á sínum tíma sökum þess að við neituðum að greiða skatta og opinber gjöld í Noregi. Það er kannski Íslendingum í blóð borið að leita leiða til þess að notfæra sér þær skattsmugur sem til eru án þess að þeir séu að svíkja undan skatti.