Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 18:53:40 (2046)

2000-11-21 18:53:40# 126. lþ. 28.3 fundur 264. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa o.fl.) frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[18:53]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Það mál sem hér er til umræðu er að mínu mati mjög þarft og mun koma sér vel fyrir ríkissjóð. Ég held að flestallir sem sýsla með hlutabréf og þekkja hlutabréfamarkaðinn og þær aðferðir sem notaðar hafa verið séu sammála um að það að setja söluhagnað hlutabréfa undir 10% regluna, eins og fjármagnstekjur og leigutekjur og arð, verði til þess að söluhagnaður hlutabréfa komi til skattlagningar í stað þess að fara á frest ellegar að vera fluttur til útlanda. Flestallir sem ég tala við og ég heyri tala um þessi mál eru mjög sammála því að þetta verði niðurstaðan. Ég fagna því að þetta skuli vera komið inn á borð hjá hv. Alþingi.

Mig langaði til þess að spyrja hæstv. fjmrh. einnar spurningar sem varðar ákvæði til bráðabirgða en þar segir, með leyfi forseta:

,,Um skattlagningu söluhagnaðar manna sem fengið hafa frestun skattlagningar söluhagnaðar skv. 7. mgr. 17. gr. laganna vegna sölu hlutabréfa og hluta á árunum 1998 og 1999 og nýta ekki heimildir til fjárfestinga í öðrum hlutabréfum innan frests skv. 7. mgr. 17. gr. laganna eins og hún hljóðaði fyrir gildistöku laga þessara skal fara skv. 3. mgr. 67. gr. laganna.``

Mig langar til þess að velta upp einu dæmi: Einhver aðili selur hlutafé með hagnaði á árinu 1997. Hann fær síðan þennan lögbundna frest í tvö ár, þ.e. frá 31. des. 1997 til 31. des. 1999 og kaupir árið 1999 ný hlutabréf. Á þetta ákvæði við um þennan aðila? Það er fyrst og fremst þessi spurning sem mig langaði til að fá á hreint. Auðvitað skiptir máli hvenær þessi afturvirku ákvæði hefjast og hvað í þeim felst.

Varðandi 2. gr. langar mig einnig að velta því upp og spyrja hæstv. ráðherra. Þar er verið að velta fyrir sér kaupum starfsmanna á hlutabréfum samkvæmt kauprétti. Hér er gert ráð fyrir því að miðað sé við meðalgengi tíu viðskiptadaga fyrir samningsdag. Ástæðan fyrir þessu meðalgengi er sú að verðbréfamarkaðurinn hér sé ekki þróaður og miklar sveiflur á honum. Að sjálfsögðu eru miklar sveiflur á þessum markaði en við höfum séð sveiflur á erlendum mörkuðum upp á tugi prósentna á einum degi og sveiflurnar þar eru ef eitthvað er miklu meiri en maður sér á fyrirtækjunum hér heima. Ég hugleiði það aðeins hvað er í raun á bak við þetta ákvæði, hvort það sé að ósk starfsmannafélaganna sem hafa mörg hver staðið að samræmdum kaupum fyrir starfsmenn sína og hvort um þetta séu fordæmi frá öðrum löndum eins og Bandaríkjunum. Ef maður veltir aðeins fyrir sér hlutabréfamarkaðnum hér og hvernig ákvæði eru fyrir fyrirtæki að fara inn á verðbréfamarkaðinn og Verðbréfaþingið á Íslandi þá eru þau skilyrði sem fyrirtækjum eru sett hér afskaplega léttvæg miðað við það sem gerist á Bandaríkjamarkaði þar sem nánast allt er upplýst, bæði um núverandi ástand fyrirtækis og framtíðaráform og meira að segja hvaða starfsmenn muni starfa þar áfram og hvernig eignarhluti þeirra verður o.s.frv. eins og menn fylgdust afskaplega vel með þegar deCODE var sett á markað í Bandaríkjunum. Það var gríðarlega mikil aðgerð og þeirri aðgerð er ekki enn lokið. Aðferð þeirra við að tryggja rétt hluthafanna er mjög áhrifamikil að ég mundi segja og ekki í neinni líkingu við það sem hér gerist.

Herra forseti. Þess vegna vekur það forvitni mína að vita hvernig þetta ákvæði kemur hér inn og hvers vegna það sé í raun verið að setja starfsmennina undir einhvern annan hatt en bara almenna hluthafa á markaðnum.